02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

61. mál, vörutollur

Ágúst Flygenring:

Jeg ætla að víkja ofurlítið að brtt. á þskj. 273. Mjer líka illa nöfnin, til dæmis botnrúllur. Það eru botnvörpuvaltar, eða almennar völtur, og er best að það nafn haldi sjer. Tog er vitlaust. Það er dregið af nýyrði, sem þessi skip eru kölluð, en er ekki rjett. Togara á að kalla þau skip, sem draga önnur skip, en ekki skip, sem fara með botnvörpur. Þetta er því misskilningur. Auk þess vil jeg taka fram að því er keðjurnar snertir, að það er nóg að setja bara keðjur, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) hefir bent á. (MJ: Það nær þá líka yfir t. d. hjólhestakeðjur eða úrkeðjur). Þær hafa enga þýðingu fyrir tollinn. En með þessu móti eru teknar allar akkeriskeðjur og stýriskeðjur. Þær eru mismunandi gildar, eftir því hvort skipin eru stór eða smá, sem nota þær. En allar eru þœr járnkeðjur. Því er nóg að setja það. Einnig finst mjer amlóðaleg upptalning hv. nefndar að því er körfurnar snertir. Jeg vil því fyrir mitt leyti leggja til, að málið verði tekið af dagskrá og frv. vísað til háttv. nefndar aftur, til frekari athugunar, vegna þessara málvillna sjerstaklega.