07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1926

Sveinn Ólafsson:

Mjer hefir gefist sjerstakt tilefni til að kveðja mjer hljóðs aftur. Hæstv. fjrh. (JÞ) átaldi ógætileg orð hjá mjer við 2. umr. fjárlaganna um fjárhagsástæður ríkissjóðs og upphvatningu hjá mjer til þess að auka útgjöld og samþykkja útgjaldatill., sem þá lágu fyrir.

Jeg heyrði að vísu ekki ræðu hans, en jeg hygg, að mjer hafi verið skýrt rjett frá efni hennar. Að minsta kosti ljet hann á sjer skilja, að kent hefði ljettúðar hjá mjer um þessa hluti. Jeg hef orðið var við, að svipuð ummæli út af sama tilefni hafa gengið aftur tvisvar í hv. Ed. Mjer þykir samt ekki ástæða til að endurtaka nú þau orð, sem jeg við 2. umr. hafði um þessi efni og gáfu hæstv. fjrh. tilefni til áfellisdómsins. Jeg tók fram við 2. umr., að sjáanlegt væri, að tekjuafgangur yrði mikill á yfirstandandi ári að öllu óbreyttu, og að eftir till., sem þá lágu fyrir um tekjuáætlun komandi árs, yrði þá líka tekjuafgangur. Loks tók jeg það fram, með þetta fyrir augum, að jeg óttaðist ekki, þótt nokkrar brtt. til útgjalda yrðu samþyktar, jafnvel þótt um 300–400 þús. kr. væri að ræða, af því að jeg taldi og tel tekjuáætlun beggja ára svo varlega, að treysta megi þessum tekjuafgangi, og auk heldur meiri. Þetta eru þá þau ummæli, sem gáfu hæstv. fjrh. tilefni til að átelja mig.

Jeg tek nú ekkert aftur af því, sem jeg sagði við 2. umr. um þessi efni, og vil ekkert úr því draga. Hins er að minnast, að eins og hv. deildarmenn vita, voru bornar fram við fyrri hl. þessarar umr. brtt. við tekjuhlið fjárlaganna, um hækkanir á tekjuliðum frumvarpsins, sem námu samtals kr. 275 þús., og virðast allar þessar brtt. til hækkunar vera á góðum rökum bygðar. Till. eru flestar á þskj. 290, og hefir flm. þeirra, háttv. 3. þm. Reykv. (JakM), mælt vel og skörulega fyrir þeim. Jeg er ekki í neinum vafa um, að þessar brtt. háttv. þm. eru á ágætri undirstöðu bygðar. Ein þeirra, sem reyndar skiftir litlu, kann að vera eitthvað hæpnari en hinar, þ. e. brtt. um hækkun aukateknanna, en allar hinar munu vafalaust reynast varlegar eftir reynslu undanfarinna ára. Að því er tóbakstollinn snertir, er háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir lagt til, að hækkaður verði úr 450 þús. í 475 þús. kr., má geta þess, að síðastliðið ár varð hann yfir 550 þús. kr., og þarf ekki þar að tala um óvarlega áætlun. Jeg tók eftir því, að háttv. frsm. fyrri kafla (ÞórJ) dró í efa, að þessar brtt. til hækkunar á tekjuliðum frv. væru á rökum bygðar, og vildi hann sanna þetta álit sitt með því að vitna í meðaltal tekna undanfarinna ára, sem hann taldi lægra en áætlanir hv. 3. þm. Reykv. (JakM).

Þessi samanburðaraðferð háttv. frsm. (ÞórJ) var allsendis fráleit að því er kemur til tolls og söluhagnaðar af tóbaki, og mjög athugaverð um tekjuskatt o. fl. Innflutningur tóbaks 1922 og '23 varlangt undir venjulegu meðaltali, bæði vegna mikilla tóbaksbirgða í landinu, er landsverslun hófst, og vegna tóbakssparnaðar almenns á krepputímanum. Þess vegna er alls ekki rjett að miða við meðaltal frá þeim árum, og sjálfsagt að miða við 1924, sem er fyrsta reglulegt viðskiftaár tóbakssölu landsverslunar. Líkt má um innflutning á kaffi segja. Um tekjuskattinn þarf ekki að tala, eftir góðærið og verðhækkanirnar 1924. Það er fyrirsjáanlegt, að hann nær áætlun, fer líklega talsvert þar yfir, samkvæmt reynslu síðustu ára, auk heldur þótt lögleidd verði meðaltalsreglan um tekjuskatt hlutafjelaga. Jeg verð því fyrir mitt leyti að mæla með öllum þessum brtt. hv. 3. þm. Reykv. og óska þess, að þær verði samþyktar, þar eð jeg er sannfærður um, að þær eru allar vel ábyggilegar. Sama er að segja um brtt. okkar háttv. þm. X.-M. (HStef) á þskj. 299,1, um hækkun á tekjum af tóbakseinkasölunni úr 275 þús. kr. í 325 þús. kr. Þær tekjur urðu á síðasta ári hátt á 4. hundr. þús., og virðast ætla að verða meiri á þessu ári.

Vitanlega verður þó ekki á þessum tekjum bygt, ef landsverslun verður lögð niður á næsta sumri, en þar ætti að vera hægur nærri fyrir Alþingi að varna því og láta hana halda starfinu áfram. enda þá auðvelt, ef þörf þætti, að auka tekjur hennar með meiri álagningu á tóbak, sem ennþá er langt undir hámarksálagningu. Segi jeg það ekki vegna þess, að jeg álíti, að þess verði þörf, heldur til að benda á það hagnaði, sem að landsverslun er, að með henni má fyrirvaralítið auka tekjur ríkissjóðs, ef þörf krefur, og án þess að þjóðin finni mikið til þess.

Hjer er líka um fleiri leiðir að velja til tekjuauka, ef óttast þyrfti óvarlega áætlun tekna fyrir næsta ár. Þar til má telja samþykt á till. fjhn. um breytingar og framlengingu á verðtollslögunum, sem í sambandi við afnám innflutningshafta hljóta að hleypa fram þeim tekjulið. Ennfremur liggur fyrir þinginu enn frv. okkar hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um sameiningu víneinkasölu og landsverslunar og tollun lyfjaáfengis, frv. sem hlýtur að gefa miklar tekjur, ef samþykt verður.

Það er þess vegna ástæðulaust að fárast um, að svo þröngt sje í búi hjá ríkissjóði, ef rjett er á haldið, að þörf sje til þess að vísa á bug nauðsynlegustu og þörfustu fjárveitingum þess vegna. Hitt er sjálfsagður hlutur, að gera verður glöggan mun þarfra og óþarfra fjárveitinga, og mun jeg með atkvæði mínu sýna, að jeg vil ekki láta hvern ósóma, sem til útgjalda horfir, fljóta inn með sjálfsögðum og nauðsynlegum fjárveitingum.

Þetta var það, sem jeg, að gefnu tilefni, vildi sagt hafa.

En jeg ætla um leið að nota tækifærið til að minnast lítillega á brtt. á þskj. 290.XV, frá hv. fjvn., sem að vísu er búið að mæla fyrir áður. í nál. samgmn. var á það drepið, að fjárveiting sú, sem ætluð væri til samgangna milli Hornafjarðar og Austfjarða, væri of lág. Jeg hafði áður haldið því fram, að þarna þyrfti að veita til meira fje, og gef jeg því þessari brtt. fjvn. mín meðmæli, með það fyrir augum, að ef þessi fjárveiting fæst, þá bæti hún dálítið úr samgangnaskortinum á Austfjörðum, þar sem strandferðir eru minstar. Á ferðaáætlun Esju standa 4–5 hafnir þar eystra, sem aðeins fá 5 –6 skipsviðkomur á árinu. Jeg held, að allir verði að kannast við, að það er æðistirt póstsamband og ófullnægjandi viðskifti, sem með því fást, og þetta er tilfinnanlegra víða á þessum slóðum, vegna þess, að á landi getur ekki heldur verið um neinar samgöngur að ræða. Þær hafnir á Austfjörðum, sem verst eru farnar í þessu efni, og því ættu að njóta góðs af þessari fjárveitingu. eru syðstu hafnirnar í Suður-Múlasýslu, svo sem Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður, og nyrstu hafnirnar í Norður-Múlasýslu, svo sem Loðmundarfjörður, Bakkafjörður og Skálar á Langanesi. Ef þetta fæst samþykt, bætir það að nokkru leyti út einangrun fólksins á þessum stöðum, auk þess sem það mundi veita Hornfirðingum það samband við Austfirði, sem þeim er nauðsynlegt.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að brtt. á sama þskj., XLV. lið, frá minni hl. fjhn., sem einnig hefir verið talað fyrir af öðrum. Er þar um að ræða styrk til mjólkurfjelagsins Mjallar, ef ekki verður fjelaginu veitt önnur eða meiri tollvernd á mjólk en nú er. Í þessu sambandi verð jeg að minna á brtt. frá minni hl. nefndarinnar við verðtollsfrv., þar sem farið er fram á 10% verðtoll á innfluttri niðursoðinni mjólk, en fjárveitingin til Mjallar fellur niður, ef sú till. verður samþykt. Mjer skilst eftir innflutningi fyrri ára og af magni þeirrar innlendu framleiðslu, að hin innlenda framleiðsla (Mjöll) fullnægi einum þriðja af neysluþörf landsmanna. Það, sem er fram yfir innlendu framleiðsluna, mun þá vera nálægt 12 þús. kassar árlega, og ætti verðtollurinn af því að nema um 36 þús. kr. tekjuauka. ef tillagan verður samþykt, en sparar um leið þær 8000 kr., sem annars er ráðgert að veita Mjöll, ef fyrnefnd till. XLV verður samþ. Jeg áleit, að þetta þyrfti að koma fram í sambandi við fjárlagaumr. þessa, þótt verðtollsmálið liggi hjer ekki fyrir.

Öðrum brtt., sem fyrir liggja, og sem jeg hafði ætlað mjer að minnast á, verð jeg að sleppa, með því að nú er svo langt á kvöldið liðið og margir eiga eftir að taka til máls.