07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1926

Pjetur Ottesen:

Jeg á engar brtt. við þennan kafla fjárlaganna framar því, seni jeg á hlutdeild í tillögum fjárveitinganefndar, en það eru þó tvær brtt. á þskj. 290, XLIV. og XLV., sem jeg vil fara nokkrum orðum um. Þessar till. báðar fjalla um að veita mjólkurniðursuðufjelaginu Mjöll í Borgarfirði nokkurn fjárhagslegan stuðning. Eins og menn vita, hefir á undanförnum árum flust inn niðursoðin mjólk fyrir mörg hundruð þús. kr. á ári; samkvæmt verslunarskýrslum frá 1922 var það þá nær 1/2 miljón kr., en sum árin hefir þessi innflutningur komist upp undir 1 milj. Þetta hefir vitanlega orðið til þess að vekja athygli framtakssamra manna á því, að þetta er ekki gott eða eins og það ætti að vera, heldur væri nauðsynlegt að gera eitthvað til að draga úr, ef ekki stöðva alveg innflutning niðursoðinnar mjólkur, þar sem vitanlegt er, að næg og góð mjólk er til í landinu, þótt sökum erfiðra samgangna hafi ekki verið hægt að fullnægja mjólkurþörfinni á hverjum stað. Þess vegna var það, að nokkrir framtakssamir menn í Borgarfirði stofnuðu fjelag með það mark fyrir augum að brjóta ísinn á þessu sviði, og rjeðust þeir í það að koma á fót mjólkurniðursuðuverksmiðju þar í hjeraðinu. Því var það, að stjórn þessa fyrirtækis leitaði til síðasta þings um að fá ábyrgð fyrir 40 þús. kr. láni í þessu skyni, og varð þingið við þeirri beiðni, og laust eftir áramótin veitti núverandi ríkisstjórn fjelaginu þessa umbeðnu ábyrgð. Þá var og verksmiðjan byrjuð að starfa, hafði byrjað nokkru fyrir síðastl. jól. Verksmiðjan kostaði alls um 130 þúsund krónur, þar af er 60 þús. kr. útborgað hlutafje. Kostnaðurinn við að koma þessari verksmiðju á laggirnar varð að mun meiri en ráð hafði verið fyrir gert upphaflega, og ollu því að sumu leyti óvæntir örðugleikar, sem þó hefir tekist að sigrast á. Það er gömul reynsla, þegar um ný fyrirtæki er að ræða, og þá sjerstaklega þar sem farið er inn á nýjar brautir eins og hjer, að það er erfiðast að koma þeim af stað, en hjer var þess þó gætt að hafa allan undirbúning sem gaumgæfilegastan og hægt var, og var ekkert til þess sparað, að alt yrði sem best undirbúið. Fór þó stofnkostnaðurinn allmikið fram úr upphaflegri áætlun. Það er því eðlilegt, að erfiðleikarnir á rekstri verksmiðjunnar verði mestir fyrstu árin. Svo kemur og fleira til greina, er veldur því að þröngt er fyrir dyrum hjá þessu fyrirtæki eins og stendur. Síðan þetta fyrirtæki tók til starfa, hefir orðið mikil breyting á verðgildi peninganna í landinu. Síðan fyrsti grundvöllur þessa fyrirtækis var lagður, hefir íslenska krónan hækkað í verði um 1/5 hluta, en hinsvegar hefir framleiðslukostnaðurinn ekkert lækkað, heldur þvert á móti hækkað nokkuð. Fyrir gengisbreytinguna hefir erlend niðursoðin mjólk fallið í verði. Þetta hefir ennfremur orðið þess valdandi, að verksiniðjan á eins og stendur allerfitt uppdráttar í samkeppninni við erlendu mjólkina. Það hefir verið athugað, að verðlækkunin á erlendu mjólkinni síðan á áramótum, þegar íslenska mjólkin kom á markaðinn, er mun meiri en sem nemur gengisbreytingunni, og þar sem kunnugt er um, að mjólkin hefir ekki lækkað á erlendum markaði á þessu tímabili, þá verður ekki annað sjeð en verðlækkunin sje að nokkru leyti sett til höfuðs hinni íslensku mjólkurframleiðslu.

Þetta hvorttveggja: að stofnkostnaðurinn hefir orðið mun meiri en búist var við, og svo hitt, hversu samkepnin er örðug við erlendu mjólkina af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú lýst, veldur því, að eins og sakir standa á þetta fyrirtæki í vök að verjast.

Af því var það, að stjórn fjelagsins sneri sjer til fjárhagsnefndar neðri deildar og fór fram á það við nefndina, að hún í sambandi við verðtollslögin bæri fram tillögu um að láta ákvæði verðtollslaganna ná til innfluttrar mjólkur. Um þetta fjekst ekki samkomulag í nefndinni; meiri hlutinn var því mótfallinn að setja verndartoll á mjólkina, en minni hlutinn, tveir nefndarmanna, fjellust á og töldu heppilegast að fara þá leið. En hinsvegar var öll nefndin á einu máli um það, að veita bæri fjelaginu fjárhagslegan stuðning meðan það væri að komast yfir mestu byrjunarörðugleikana. Varð það því að ráði, eins og tekið hefir verið fram af frsm. fjhn, að leggja til að veita fjelaginu 8000 kr. styrk á árinu 1926. En nefndin hefir ekki getað komið sjer saman um að bera fram tillöguna í einu lagi, því minni hl. hefir hnýtt athugasemd aftan í sína tillögu, þess efnis, að ef settur verði verðtollur á innflutta mjólk, falli styrkurinn niður, og hefir þegar komið fram frá þeim brtt. við verðtollslögin um að setja verðtoll á innflutta mjólk.

Þegar svo fjvn. fór að athuga þessar till, þá var það samhuga álit nefndarinnar, að styrkja bæri þetta þarfa fyrirtæki. Það, að nefndin hallaðist að till. minni hl. var af því, að þótt hún vildi styrkja fjelagið, sá hún ekki ástæðu til þess að samþykkja sjerstaka fjárveitingu, ef tillagan um að setja verðtoll á mjólkina yrði samþykt, enda hefði fjelagið þá fengið fullnægingu óska sinna.

Jeg vona, þó þannig sjeu fram komnar tvær tillögur um þetta efni, að það valdi ekki neinum misskilningi, þannig að þó tillaga meiri hl. verði feld, að þeir meirihlutamenn og aðrir deildarmenn greiði þá atkvæði með tillögu minni hl. Með því er ekki tekin nein afstaða til tollverndarinnar hvort sem er.

Jeg vænti þess því, og skýt því til hv. deildar að láta ekki þá örðugleika, sem orðið hafa nú í byrjun á vegi þessa fjelags, verða valdandi þess, að gott og nytsamt fyrirtæki verði að draga saman seglin og máske leggja árar í bát. Mjer er kunnugt um það, að stjórn fjelagsins mun gera alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að draga úr kostnaðinum við rekstur verksmiðjunnar; enda standa þeir menn þar að, sem fullkomlega má treysta til allrar hagsýni og varfærni um þessa hluti. Þess er einnig að vænta, að íbúar kaupstaðanna, sem mikið nota niðursoðna mjólk, styrki þetta innlenda iðnfyrirtæki og láti það njóta viðskifta, og það því fremur, sem þeir hafa þá tryggingu fyrir því að fá góða, holla og næringarmikla mjólk.

Jeg leyfi mjer því að vænta þess fastlega, að fjelaginu verði veitt þessi upphæð, af því að jeg geri naumast ráð fyrir því, samkvæmt áður fenginni reynslu hjer á þingi, að tollverndin nái fram að ganga.

Jeg get ekki varist að drepa á þau um mæli hv. frsm. síðari kafla fjárlagafrv (TrÞ), að hreppabúnaðarfjelögin sjeu langveigaminsti þátturinn í búnaðarstarf sje minni hjer á landi. Þessi ummæli eru samkvæmt þeirri þekkingu, sem jeg hefi af starfsemi hreppabúnaðarfjelaganna fyr og nú, gersamlega röng og ómakleg í garð þessa fjelagsskapar.

Með hreppabúnaðarfjelögunum er fyrsti grundvöllurinn lagður að verulegri framkvæmd í jarðrækt hjer á landi. Stofnun þessa fjelagsskapar leiddi til fyllri skilnings á nauðsyn og þýðingu jarðræktarinnar. Fjelagsskapurinn hefir glætt áhuga manna í þessum efnum, komið á stað kappi milli manna um framkvæmdir innan fjelaganna og svo milli þeirra. Fjelögin hafa komið upp sjóðum, sem orðið hafa að miklu liði við endurbætur og framfarir í jarðræktinni. Eftir því sem fjelögunum óx fiskur um hrygg, var starfið fært út, meiru varið til verkfærakaupa, og eru hreppabúnaðarfjelögin hornsteinn og grundvöllurinn undir starfsemi búnaðarsambandanna, sem hafa leitt til þess, að meiru hefir orðið áorkað.

Sum hreppabúnaðarfjelögin halda úti vinnuflokkum haust og vor. Það má, að jeg hygg, með fullum sanni segja, að hreppabúnaðarfjelagsskapurinn hafi verið og sje einhver verulegasti þátturinn í jarðræktinni hjer á landi, og það einmitt þeim jarðræktarframkvæmdum, sem að mestu gagni hafa komið. Það er alls ekki fyrir þær sakir, að jeg, ásamt meiri hl. fjvn., hefi ekki fallist á að hækka styrkinn til hreppabúnaðarfjelaganna, að jeg líti smáum augum á þessa starfsemi, heldur af hinu, að með jarðræktarlögunum er stórum aukinn styrkur til jarðabóta, og það ýmsra þeirra umbóta, sem búnaðarfjelagastyrkurinn gekk til, og svo líka því, að mín stefna er að halda til sparnaðar í hvívetna um útgjöld ríkissjóðs.