03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg vona að jeg þurfi ekki að fara mörgum orðum um frv. þetta, áður en það gangi til nefndar. Þetta prestakall er líklega það langerfiðasta á landinu. Annexíuleiðin milli Ísafjarðar og Hóls er hættulegri en nokkur önnur annexíuleið á landi hjer. Á þeim fáu árum, sem jeg man eftir, eða síðustu 30 árunum, hafa 4 slys orðið á þessari leið. En aðalástæðan er sú, að presturinn getur ekki annað að þjóna embættinu svo viðunandi sje. Hann hefir ekki tíma til annars en að skreppa hálfan dag til að messa eða jarðsyngja, en viðdvöl getur hann enga haft. Þetta er og skiljanlegt, þegar þess er gætt, að í Eyrarsókn eru nær 3000 manna. Af því að liðið er fram yfir venjulegan fundartíma, skal jeg ekki fara fleiri orðum um frv., enda var frv. sama efnis rætt óvenju ítarlega á þinginu 1921 og háttv. deildarmenn að sjálfsögðu kynt sjer allar ástæður. Óska jeg, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til mentamálanefndar.