07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Stefánsson:

Jeg vildi mega leyfa mjer að minnast örfáum orðum á einstaka brtt., sem hjer liggja fyrir, og sömuleiðis á nokkur ummæli einstakra þingmanna. Vil jeg þá fyrst minnast á ummæli háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um tillögu okkar minni hluta fjhn. um stuðning til mjólkurfjelagsins Mjallar í Borgarfirði.

Þessi háttv. þm. gat ekki fallist á tillögu okkar fyrir þá sök, að hann taldi það ekki sanngjarnt, að niðursoðin mjólk fjelli undir verðtoll, eins og þó ýmsar aðrar sambærilegar vörutegundir, og færði það til meðal annars, að mjólkin yrði of dýr, þar sem hið fátækara fólk notaði hana mestmegnis. Þessa sömu ástæðu má færa um allar almennar þurftarvörur.

Jeg get tæplega búist við, að því verði neitað, að það sje engu síður sanngjarnt að láta þessa vörutegund komast undir verðtollinn en t. d. smjörlíki, sem háttv. þm. hefir þó ekki talað um að skjóta undan honum. Hvorttveggja eru almennar þurftarvörur.

Það verður engan veginn svo, að þessi vörutegund verði ófáanleg, þó að hún hækki um það, sem verðtollinum nemur.

Jeg lít svo á, að sú verðhækkun myndi verða til þess, að menn færu frekar að afla sjer náttúrlegrar mjólkur, sem að allra dómi er miklu hollari en niðursoðin mjólk; því að niðursoðin mjólk er talin tapa miklu af bætiefninn, og er því ekki eins holl fyrir ungbörn eins og náttúrleg mjólk.

Þá vjek þessi hv. þm. að því sama og hæstv. fjrh. (JÞ), að þessi stuðningur væri í ófullnægjandi fyrir fjelagið, af því að hann kæmi ekki að notum á yfirstandandi ári. Út af þessum ummælum vil jeg benda á það, að tillaga okkar minnihlutamanna bætir þó mun betur úr fyrir fjelagið en tillaga meiri hlutans. Því að eftir þeim tillögum, sem fyrir liggja um verðtollinn, fellur hann á niðursoðnu mjólkina 1. júlí þessa árs. Nær því tollverndin yfir allan síðari hluta ársins. En till. meiri hlutans er miðuð við næsta ár, og veitir fjelaginu því engan stuðning alt yfirstandandi ár.

Þá vil jeg örlítið minnast á ummæli hv. frsm. síðari hluta fjárlagafrv. (TrÞ), sjerstaklega að því er snertir ummæli hans um styrkinn til búnaðarfjelaganna. Háttv. frsm. taldi hann koma að litlu gagni, því að búnaðarfjelögin gerðu ekkert annað með hann en skifta honum milli fjelagsmanna. Þetta þóttu mjer röng og ómakleg ummæli, því jeg er í vafa um, að aðrar fjárveitingar til landbúnaðarins sjeu betur notaðar. Þar sem jeg þekki til, er þessu fje varið til þess að efla fjelagsskapinn og styðja að framkvæmdum í búnaði. fyrst og fremst með því að kaupa verkfæri, til þess að menn geti komið meiru í verk en annars.

Fjárveiting sú, sem er í fjárlagafrv. í þessu skyni, er 10 þús. kr. Mjer fyrir mitt leyti finst hún svo hlægilega lítil, að nær því megi á sama standa, hvort hún stendur þar eða ekkert. Og úr því að komin er fram tillaga um hækkun á þessari fjárveitingu, mun jeg að sjálfsögðu fylgja henni, og gæti fremur fallist á, að dregið yrði aftur að sama skapi úr fjárveitingunni til Búnaðarfjelags Íslands.

Jeg vil þá víkja nokkrum orðum að hæstv. fjrh. (JÞ). Hann taldi vafasamt, hvort það væri formlega rjett að bera nú fram tillögu um 56 þús. kr. til viðbótarbyggingar við Eiðaskólann, þar sem 60 þús. kr. till. var feld við 2. umr. fjárlagafrv. Jeg get alls ekki sjeð, á hverju þetta er bygt, því hjer er aðeins um áætlunarupphæð að ræða, og því ekki hægt að segja, hvort 56 þús. sjeu nær hinu rjetta en 60 þús.

Þá kom fram sú nýstárlega skoðun hjá hæstv. ráðh., að hann teldi stjórnina ekki skylda að borga þetta fje út, þó að fjárveitingin yrði samþykt, ef fje væri ekki fyrir hendi. Jeg fæ nú ekki skilið, hvernig hægt er að segja þetta um eina fjárveitingu frekar en aðra. Því jeg lít svo á, að hið sama hljóti að gilda um allar fjárveitingar, sem ekki eru sjerstaklega lögbundnar annarsstaðar en í fjárlögum. En um þessa fjárveitingu stendur þó það sjerstaklega á, að stjórnin hefir heimild til þess að taka lán til að inna hana af hendi, ef fje er ekki til. Er því síst ástæða til þess að hafa þessi ummæli um þessa fjárveitingu.

Þá vil jeg víkja örfáum orðum að till. um styrk til Lúðvíks Jónssonar, til þess að fullkomna jarðyrkjuverkfæri þau, er hann hefir í smíðum. Þegar maður þessi kom frá útlöndum eftir framhaldsnám þar í búfræði, kom hann fljótlega auga á það, sem ýmsir aðrir höfðu bent á áður, að hin útlendu jarðyrkjuverkfæri ættu ekki við okkar staðhætti. Fór hann því að hugsa um, hvaða umbætur hann gæti gert á verkfærunum, svo að þau ættu við okkar staðhætti. Og til þessara athugana hefir hann varið miklu fje og miklum tíma. En nú stendur svo á, að hann er búinn að smíða verkfæri, sem gerir hvorttveggja í einu, það sem plógur og herfi gerðu áður, og þarf auk þess minni kraft. Búnaðarþingið hafði heitið verðlaunum fyrir uppgötvun þessa, ef hún reyndist vel, og ljet því dómnefnd reyna tæki þetta. Var það álit nefndarinnar, að árangurinn væri góður og verðlaunaverður. En auk þess er það einróma álit allra þeirra manna á Austurlandi, er reynt hafa jarðyrkjutæki þetta, að það gefist ágætlega. Eini gallinn hefir verið sá, að smíðin hefir ekki verið nægilega örugg, og það, sem nú er um að gera, er því að fá betra efni og gera auk þess nokkrar smáumbætur, og í því skyni er farið fram á fjárveitingu þessa. Verkfæri þetta er einskonar íslenskur þúfnabani, sem plægir og herfar í einu og lætur grassvörðinn verða ofan á eftir plæginguna. Þennan þúfnabana er hægt að nota með hestafli á hverjum bæ, og getur því komið að almennum notum. Jeg get bætt því við, að danskur jarðyrkjumaður, sem vann með plógherfi þessu í sumar þar eystra, gaf því mjög svo lofsamlegan vitnisburð.

Jeg held því, að þegar á alt er litið, verði það enginn sparnaður landinu, ef ekki er brugðist vel við styrkbeiðni þessari og manni þeim, sem í hlut á, ekki gert fært að fullkomna þetta verkfæri sitt. Fjárveiting þessi mun áreiðanlega borga sig síðarmeir.