24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. þm. Str. (Trl’) sagðist ennþá vera óánægður með „Marian“-málið. En jeg býst ekki við, að hann yrði ánægðari með það. Þó að jeg gæfi honum nákvæmari skýrslu um það. Jeg verð að segja, að það er dálítið broslegt, þegar háttv. þm. Str. er að tala um venjur í sakamálum. Því að í öðru orðinu viðurkennir hann, að hann sje þeim ekki kunnugur. Annars þarf hann ekki annað en spyrja einhvern rannsóknardómara. hvort það sje venja, að þeir, sem fyrir slíkum eru hafðir meðgangi þegar í stað. Að vísu er ljótt og ósiðlegt að segja ósatt, en það kemur samt stundum fyrir, að menn gera það, jafnvel sumir blaðamenn.

Hvað sakborna menn snertir, þá er það venjan, að þeir viðurkenni ekki brot sín fyr en þeir geta ekki lengur komist upp með að þræta, og það ekki þeir einir, sem sakaðir eru um glæp, heldur og allajafna þeir, sem sakaðir eru um lögreglubrot, svo sem t. d. landhelgisbrot.

Þá heldur háttv. þm. (TrÞ) því fram, að skipshöfnin á Marian hafi komið sjer saman um fyrirfram, ekki einungis að þræta fyrir alla sök, heldur einnig, hvað þeir skyldu játa, ef þeir yrðu að neyðast til að játa. Þetta er feykilega ólíklegt, svo ólíklegt, að enginn reyndur rannsóknardómari mundi láta sjer detta það í hug. Ummæli háttv. þm. um þetta eru mjög barnaleg öll saman.

Þá sagðist þáttv. þm. efast um, að ekki hefði mátt ná í Kattrup eftir að hann fór úr landi. Um þetta hefði háttv. þm. átt að geta aflað sjer upplýsinga síðan í gær. Hann sagði meðal annars, að hægt hefði verið að taka hann í Færeyjum. En þar skjátlast háttv. þingmanninum (TrÞ), því að maðurinn var í norsku skipi, og því undir norskum lögum. Auk þess hefði yfir höfuð ekki verið auðið að fá hann framseldan frá Færeyjum. Var því ekkert hægara að taka hann þar en t. d. í Bergen. Hefði hann verið íslenskur þegn, hefði máske verið öðru máli að gegna. En það er föst regla, að brotlegur þegn er ekki framseldur til annars ríkis. Var því með öllu ómögulegt að fá manninn framseldan, úr því hann var kominn út fyrir landhelgina. Hvort hægt væri að gera samning um þetta við Dani, af því að þeir eru sambandsþjóð okkar, skal jeg ekkert um segja. Hjal hv. þm. um þetta er því ekkert nema vaðall, sem sýnir, að hann ber ekkert skyn á þessi mál. Þá sagði þessi sami háttv. þm., að það hefði verið háðulegt, að Kattrup hefði sloppið 11/2 degi áður en Marian kom inn. Jeg sje ekkert háðulegt við það. Að skipið kom inn 11/2 degi eftir að Kattrup var slept, var tilviljun ein og ekkert annað. Manninum var ómögulegt að halda lengur í sóttkví, en þegar honum var slept úr henni, fór hann utan. Það hefði þurft hreinan spádómsanda til þess að segja fyrir, að Marian myndi leita hafnar hjer 11/2 degi eftir að Kattrup fór.

Þá sagði háttv. þm. Str. (TrÞ), að það væri kátlegt, hve auðtrúa jeg væri í þessu máli. Jeg skal fyllilega viðurkenna það, að jeg treysti mjög á rannsóknardómarann í þessu máli, og hann er sannfærður um, að allur sannleikurinn hafi komið fram. Og hann er sá eini maður, sem verulega getur um þetta sagt. Og margt, sem fram hefir komið í rannsókninni, styður mjög ákveðið, að allur sannleikurinn hafi komið fram. Annars veit jeg, að dómarinn, sem annars er mjög strangur við sjálfan sig, er ánægður með rannsóknina. Og jeg er sömu skoðunar.

Háttv. þm. (TrÞ) sagði enn, að bannmenn væru mjög óánægðir með eitt atriði í rannsókn þessari, sem sje það, að einn háseti gæslubátsins, sem heimilisfang átti í Gullbringu- og Kjósarsýslu, var ekki yfirheyrður hjer í Reykjavík. En til þess voru engin lög. Það varð að yfirheyra hann í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem og líka var gert.

Þá talaði háttv. þm. Str. (TrÞ) um, að ótrúlegt væri, að áfengið hefði verið afhent varðbátnum í Garðinum skilríkjalaust. Það var nú samt svo. Og skiljanlegt finst mjer það, þegar þess er gætt, að varðbátsmenn ljetu olíu í staðinn, sem Marian tilfinnanlega vantaði.

Þá sagði háttv. þm., að jeg hefði afneitað varðbát þessum. Jeg gerði hvorugt; sagði aðeins, hvernig hann væri tilkominn, að íbúar Gerðahrepps gerðu bátinn út, með styrk frá ríkissjóði. Þá talaði háttv. þm. um, að ófært væri að styrkja varðbát, sem stjórnin bæri ekki ábyrgð á. Jeg verð að segja, að mjer finst dálítið undarlegt að heyra þetta frá fjárveitinganefndarmanni. Eða heldur hann, að stjórnin beri ábyrgð á öllum þeim, sem styrk fá af ríkissjóði ? Það yrði nokkuð víðtæk ábyrgð.

Þá sagði hv. þm., að trúgimi minnar í þessu máli myndi verða minst um aldir. Jeg þakka „kompliment“. Annars hjelt jeg, að okkar háttv. þm. Str. (TrÞ) yrði ekki minst um aldir.

Jeg skal fyllilega viðurkenna, að sumir bannmenn eru jafnvel óánægðari með úrslit Veiðibjöllumálsins en Marianmálsins. En sú óánægja er ekki komin af því, að dómararnir hafi ekki gert skyldu sína, heldur af alt öðru atriði, sem ekki var hægt að gera við.

Í fyrri ræðu minni gleymdi jeg að minnast á Keflavíkurlækninn. Mál er fyrirskipað gegn honum. Án þess að læknirinn viðurkendi nokkuð, bauð hann fram sekt, en jeg vildi ekki þiggja hana, en fyrirskipaði málsókn. Þá sagði þessi hv. þm., að ekkert nýtt hefði komið fram um manntalið frá 1703.

Um hitt, hvaða persónulegt álit hv. þm. Str. (TrÞ) hefir á mjer, skal jeg ekki deila við hann. En það er rjett, að okkur skilur á í bannmálinu, enda þótt við teljum okkur og sjeum báðir bannmenn. Jeg álít ekki hvern þann mann glæpamann, sem neytir víns eða jafnvel er ölvaður, eins og háttv. þm. Str. virðist gera. Það er stundum eins og honum finnist enginn glæpur til nema að drekka vín. Hinsvegar álít jeg bann nauðsynlegt og gagnlegt, bæði af siðferðilegum og þjóðhagslegum ástæðum. Það er einkum síðartalda ástæðan, sem mestu hefir valdið um bannið í Bandaríkjunum. Jeg hefi altaf sýnt í orði og verki, að jeg hefi verið vínbanni fylgjandi. Jeg fer ekki að dæma í eigin sök um framkomu mína sem bæjarfógeti í Reykjavík. Jeg býst við, að ráðstafanir í þeim efnum hafi verið svipaðar fyr og síðar. Annars reyndi lítið á mig í þessu efni, því að bannið gekk ekki í gildi í raun og veru 1912, heldur töluvert seinna. Það getur því ekki verið rjett, að leiðir okkar í bannmálinu hafi skilið vegna afstöðu minnar til bannsins sem bæjarfógeta, enda höfum við átt ýmislegt saman að sælda síðan, án þess að það stæði í vegi.

Hv. þm. Str. (TrÞ) gat hinsvegar ekki um þá sönnu ástæðu til, að leiðir okkar skildu, enda myndi það sjálfsagt verða of langt mál, og ef til vill endast í fjóra daga enn.

Ráðherrasyndir mínar í bannmálinu voru, eftir því, sem mjer skildist, einkum þær, að jeg hefði verið of afskiftalítill. Það var þó aðeins persónuleg skoðun hv. þm. Str. (TrÞ), og á því ekki við að þrátta um það, enda mun jeg ekki gera það. Hitt þarf jeg ekki að taka fram, að á þingi hefi jeg jafnan komið fram sem aðrir bannmenn, og jafnvel bætt lögin. En ef á að fara að finna að aðgerðum síðustu ára í bannmálinu, þá verð jeg að segja það, að alt hefir verið gert, sem hægt hefir verið, og meira er ekki hægt að krefjast.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að jeg hefði fundið að því, að hann hefði farið geyst á stað, en væri nú miklu hógværari. Jeg hefi ekki gefið tilefni til þessara orða. (TrÞ: Jeg meinti þau heldur ekki til hæstv. forsrh.). Jeg sagði einmitt, að hv. þm. hefði stilt orðum sínum mjög í hóf. Annars finst mjer fara best á því, að hafa bil beggja.