18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2532 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

74. mál, slysatryggingar

Pjetur Þórðarson:

í lögum um slysatryggingar sjómanna mun ekki gert ráð fyrir endurgreiðslu á iðgjöldum, þó að sjómenn, sem trygðir eru til langs tíma, fari eftir mjög stuttan tíma. Í frv. þessu er heldur ekki gert ráð fyrir, að maður, sem t. d. trygður er til 10 vikna, fái endurgreiðslu á iðgjaldi, þó hann fari eftir 1 viku. Mjer finst því athugavert í sambandi við 7. og 8. gr. frv., hvort ekki sje sanngjarnt, þegar svo ber við, að slysatrygður skipverji forfallast, en ótrygður maður kemur í hans stað, að hinn ótrygði fái að ganga inn í tryggingu hins, aðeins ef ákvæði 8. gr. um tilkynninguna til skrásetningarstjóra er fylgt, því jeg veit, að erfiðara er að koma því fyrir, að hinn trygði, sem fer, fái endurgreiðslu á iðgjaldi sínu, heldur en koma því fyrir á þann hátt, sem jeg nú hefi bent á.

Það var þetta, sem jeg vildi reyna að láta háttv. frsm. (JBald) skilja, og jafnframt athuga.