15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög 1926

Jónas Jónsson:

Ræða hæstv. forsrh. (JM) styrkti það, sem jeg sagði í gær. Og mjer er það gleði, að hann skuli hafa skilið fjárlögin 1919–20 á sama veg og jeg og allir aðrir. En þegar hann fer að fóðra útborganirnar í stjórnartíð hans og hv. 1. landsk. (SE), þá mistekst honum alveg. Hann ber fyrir sig orð þáverandi ritara fjvn. Nd., hv. þm. Dala. (BJ), manns, sem hefir haldið því fram, að landið væri skuldbundið til að kosta alla stúdenta, sem út fara, svo sem Garðstyrkurinn nam áður. En þau segja ekki neitt. Það er altaf hreinlegast fyrir hverja fjvn. að áætla gjöldin nógu hátt, og eins vita allir, að atkvæði eru ekki greidd um það, sem menn kunna að hafa hugsað sjer, heldur um það, sem í fjárlagafrv. stendur, sem sje tölurnar. Nú stóð í fjárlögum 8000 kr. í þessu skyni ár eftir ár. Ef þessi liður hefði getað skilist eins og hæstv. forsrh. (JM) vildi vera láta, þá hefðu átt að fylgja ummæli um, að hver stúdent, sem færi utan til náms, fengi 1200 kr. En hjer er tvíklofningur milli þeirra, sem vildu veita stúdentunum styrkinn, og hinna, sem settu fjárlögin. Það hefði verið ómögulegt að ávíta stjórnina fyrir það, þó hún hefði aðeins borgað út þá upphæð, sem í fjárlögum stóð. Og þó ef til vill hafi einhver afsökun verið fyrir hendi, þá ætti reglan að vera sú, að fylgja bókstaf fjárlaganna, nema sjerstakar og óvenjulegar ástæður sjeu til annars. Og jeg vil þá grípa tækifærið til að neita því, að fjvn. hafi á nokkurn hátt vald til að binda þingið í fjármálaefnum. Það er með hana eins og allar aðrar nefndir, að þær verða að bera allar sínar till. undir þingið, og það veltur á því, hvort þær verða bindandi eða ekki. Því að ef þetta hefði verið í raun og veru vilji þingsins, þá hefði ekkert verið auðveldara en að breyta athugasemdunum þannig, að þetta yrði öllum ljóst. Þetta var ekki gert, og þess vegna átti stjórnin að hlýða fjárlögunum, en ekki því, sem einstakir fjvn.- menn kunna að hafa sagt.