24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Str. (TrÞ) kveðst ekki hafa talað um tvær leiðir í þessu máli, en telur þetta varlegra, að hækka krónuna aðeins um áramót, ef hitt fengist ekki, að hún yrði stöðvuð. Jeg hefi þá ekki tekið rangt eftir, því þetta hefir þá verið varatillaga hans. Hv. þm. gætir ekki að því, sem á undan er gengið. Verkamenn töpuðu á stríðsárunum á verðfalli peninganna, er vörur hækkuðu í verði, en kaup þeirra ekki fyr en um seinan. Og er verðlag lækkaði aftur, voru það einnig þeir, sem töpuðu, því kaupið lækkaði meir en verðlag á nauðsynjavörum þeirra. Og nú, þegar verkamenn gætu ef til vill grætt á hækkun krónunnar, þá vilja bændurnir sporna við því. Hv. þm. Str. talaði um það, að gengisbreytingarnar hefðu verið afskaplegar. Það er satt, að krónan hækkaði mjög skyndilega, en síðan hún fór að stíga aftur, hefir það orðið með miklu hægara móti og hefði hún vel mátt hækka örara en hún hefir gert.

Hæstv. fjrh. (JÞ) játaði, að til þess að koma í veg fyrir að ísl. krónan hækkaði, hefði ríkið tekið það ráð að gefa út fleiri og fleiri seðla og setja þá í umferð. Þetta minnir mig, að hæstv. fjrh. segði í framsöguræðu sinni við 1. umr. fjárlagafrv. hjer í deildinni. Verði sama árgæska framvegis eins og síðastliðið ár, vill háttv. þm. Str. láta ríkið halda áfram sömu aðferð og gefa út seðla til að kaupa fyrir erlenda mynt, enda þótt fjöldi manna telji þetta stórhættulegt fjárhag ríkisins. Hann sagði, að ef samið væri um kaup verkamanna á rjettlátum grundvelli, væri sama hvort gengið væri hátt eða lágt, ef það aðeins væri fast. Þetta er að nokkru rjett; en allir vita, hversu örðugt er að stöðva gengið, eða ,,stýfa krónuna af“, eins og kallað er, og þá verður ekki um annað að tala en það ástand, sem nú er, og því á krónan íslenska að hækka eins framvegis og hún hefir gert fram að þessu.

Jeg get fullyrt, að af árgæsku síðastliðins árs hafa verkamenn ekki fengið nærri því eins mikinn hagnað og atvinnurekendurnir, að minsta kosti ekki eins og hinir stærri útgerðarmenn hjer við sjávarsíðuna. Stórgróðinn hefir lent hjá örfáum mönnum, því hjá verkamönnum var atvinnan síðastl. ár mjög stopul alt fram á mitt sumar, en kaup sjómanna ávalt lágt. Áhrif verðhækkunar ísl. krónunnar hefir ekki ennþá komið verkamönnum að miklu beinu gagni, því verðlag á nauðsynjavörum hefir haldist mjög hátt erlendis, og þá einnig hjer. Það er eðlilegast, að menn reyni að koma íslensku krónunni aftur í fult verð, og jeg vona, að það líði ekki mjög mörg ár áður en það tekst.