29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög 1926

Ingvar Pálmason:

Svo er ástatt, að jeg er einn þeirra, sem eiga hjer brtt., og þykir mjer ekki hlýða að láta þær koma til atkvgr. án þess að gera nokkra grein fyrir þeim.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mikið út í till. þær, sem fyrir liggja frá hv. fjvn., en mun að mestu láta nægja að sýna afstöðu mína til þeirra við atkvgr. Þó get jeg tekið það fram strax, enda þótt jeg telji, að það sje skyldara öðrum en mjer, að jeg get ekki fallist á till. hv. nefndar um að lækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands. Að vísu má líta svo á, að þessi lækkun sje að nokkru leyti tilfærsla. Skal jeg ekki ræða um hana ítarlega, en mjer virðist sem í tilfærslunni felist dálítil stefnubreyting, þannig, að hv. fjvn. telji rjettara að veita búnaðarfjelögunum styrk en Búnaðarfjelagi Íslands. Um þetta út af fyrir sig skal jeg ekkert segja að svo stöddu, en jeg ætla, að ef þessi stefnubreyting ætti að koma að nokkru gagni, þá hefði hv. fjvn. átt að taka sporið miklu stærra. Jeg sje ekki betur en að það skifti litlu máli, hvort búnaðarfjelögin fá 10 þús. kr. eða 20 þús. kr. styrk. Ef menn vilja ganga inn á þá braut að álykta, að rjettast sje, að nokkuð af fjenu, sem fer til Búnaðarfjelags Íslands, gangi beint til búnaðarfjelaganna, þá held jeg, að þeir ættu að styrkja þau miklu meira en hjer er gert. Jeg hefði því talið eins og sakir standa betra, að þessi tilfærsla ætti sjer ekki stað. Annars læt jeg mjer nægja fyrst um sinn að lýsa því yfir, að jeg tel, að því fje sje vel varið, sem fer til Búnaðarfjelags Íslands.

Þá vil jeg minnast á niðurfærslu á styrknum til Fiskifjelags Íslands. Það er næsta einkennilegt, hve þetta fjelag hefir átt erfitt uppdráttar á Alþingi. Að vísu hafa menn altaf verið að hokra með nokkurn styrk til þess, en þær fjárveitingar hafa sífelt gengið erfiðlega, og oft hafa deildirnar lækkað þær hvor fyrir annari. Jeg veit, að erfiður fjárhagur ríkissjóðs hefir verið og er nokkur afsökun í þessu máli, en þess ber vel að gæta, að hjer á sá atvinnuvegurinn hlut að máli, sem eiginlega ber uppi öll gjöld ríkissjóðs, og ef menn því vilja styrkja Fiskifjelagið, ættu þeir ekki að skera það við neglur sjer. Hitt má vel vera, að einhverjir hv. þm. finnist, sem álíta, að engin slík styrkveiting eigi að veitast, en þá ættu þeir að fara fram á, að upphæðin væri alveg feld niður. Jeg hygg, að þeir sjeu ekki margir, sem líta svo á. Jeg ætla, að hinir sjeu í miklum meiri hluta, sem ætla, að Fiskifjelag Íslands sje fulls styrks maklegt, en þeim hefir ekki enn skilist, að það þurfi ekki minni styrk en Búnaðarfjelag Íslands. Mega menn þó vel vita, að framkvæmdir fjelagsins eru að mestu leyti undir því komnar, hve ríflegan styrk það fær. Jeg skal ekki fara lengra út í þetta. Jeg held, að það liggi í augum uppi, að styrkur sá, sem hv. Nd. leggur til, að veittur sje fjelaginu, sje fulllágur og megi síst skerða hann í þessari hv. deild.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að tala um brtt. hv. fjvn. Mörgum þeirra er jeg samþykkur, en um hinar læt jeg nægja að greiða atkv. á móti þeim.

Þá á jeg þrjár brtt. á þskj. 400. Þykir mjer hlýða að fara um þær nokkrum orðum. Sú fyrsta er við 16. gr. 24, um styrk til Þórdísar Ólafsdóttur á Fellsenda í Dalasýslu til skólahalds í hannyrðum og vefnaði og annari handavinnu kvenna 500 kr. Jeg hefi leyft mjer að setja við hlið hennar aðra konu, húsfrú Sigrúnu P. Blöndal í Mjóanesi í Suður-Múlasýslu. Þessi kona hefir um mörg undanfarin ár haldið uppi slíkri kenslu, og ekki nema að litlu leyti við fasta skóla, heldur aðallega á námsskeiðum. Hún var nokkur ár búsett á Eiðum og hjelt þá slík námsskeið í sambandi við Eiðaskólann. Síðastliðið vor fluttu þau hjónin að Mjóanesi, og í vetur hefir húsfrú Sigrún haldið þar skóla. Var þar nokkuð kent munnlegt, en einkum þó handavinna og vefnaður, einkum eldri handavinna íslensk, sem nú er mjög að leggjast niður. Geri jeg því ráð fyrir, að mjer sje óhætt að fullyrða, að hún þoli samanburð við þessa Þórdísi Ólafsdóttur, þótt jeg þekki þá konu ekkert. En mjer er fyllilega kunnugt um, að Sigrún Blöndal hefir mörg undanfarin ár unnið mjög að útbreiðslu þessara kvennlegu hannyrða á Austurlandi, og jeg get lýst því yfir, að jeg hefi sjeð eftir nemendur hennar handavinnu, einkum vefnað, sem jeg hefi hvergi sjeð aðrar slíkar hjer á landi. Jeg geri ráð fyrir, að hv. form. fjvn. (JóhJóh), sem er gamall Austfirðingur, sje ekki ókunnugur þessum hannyrðum Sigrúnar Blöndal, og jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að kensla hennar sje svo mikilsverð í þessari grein, að ekki sje úr vegi að sýna henni nokkra viðurkenningu. er hún er nú að reyna að koma upp hannyrðaskóla á heimili sínu. Jeg held, að hv. fjvn. skilji vel þýðingu þessarar starfsemi. Dreg jeg þá ályktun af því, að hún hefir tekið mjög vel í að styrkja heimilisiðnaðarfjelagið og aðrar konur, sem hafa sýnt sig í því að útbreiða íslenskar hannyrðir. Vænti jeg því, að háttv. þd. sjái sjer fært að verða með þessari brtt. minni, og jeg tel það víst, að hv. fulltrúi kvenna, sem hjer á sæti, telji sjer skylt að vera henni eindregið meðmæltur.

Jeg hefi borið fram varatillögu, þannig, að ef till. mín verður ekki samþykt, þá legg jeg til, að styrkurinn til Þórdísar Ólafsdóttur verði feldur niður. Mjer fyndist nokkuð harður dómur feldur yfir Sigrúnu Blöndal, ef henni er neitað um styrk, en Þórdísi Ólafsdóttur veittur hann. Jeg skal játa, að jeg þekki þá konu ekki, en jeg hefi mikla tilhneiging til að fullyrða, að Sigrún Blöndal standi henni ekki að baki að þessu leyti. Því hefi jeg komið fram með varatillögu. ef aðalbrtt. mín verður ekki samþykt. Skal jeg svo ekki ræða þetta meira að sinni.

Þá á jeg aðra brtt., við 17. gr. 10, um styrk til Goodtemplarafjelagsins. Hún er í tveim liðum. a. og b. Fyrri liðurinn er aðeins orðabreyting, og geri jeg ekki ráð fyrir, að hann mæti mótspyrnu. Mjer finst rjett að orða liðinn á þann hátt, sem brtt. fer fram á. Seinni liðurinn fer fram á, að styrkurinn til Stórstúku Íslands verði hækkaður úr 6000 kr. upp í 10000 kr. Það hefir ekki verið hljótt um bindindismálið upp á síðkastið, enda ekki ástæða til þess. Kemur það mikið til af því, að í blöðunum hefir staðið töluverð barátta um gagnsemi bannlaga þeirra, er nú gilda hjer á landi. Jeg má segja, að öll þau blöð, sem styðja hæstv. stjórn, sjeu á móti banninu, en enginn mælir þó gegn ágæti og gagnsemi bindindisins. Þvert á móti halda blöðin því flest fram, að það eina rjetta, sem við Íslendingar eigum að gera, sje að efla bindindisbugsjónina. Mjer virðist því enginn ágreiningur vera um það, að við eigum að leggja mikla áherslu á að útbreiða bindindi.

Jeg býst nú við, að einhverjum háttv. þdm. þyki þessi styrkveiting of há og að það verði viðkvæðið, að fjárhagur ríkissjóðs sje of erfiður til þess, að hægt sje að veita svo mikið fje til slíkrar starfsemi, þó nauðsynleg sje. En jeg vil benda á, að þessi tillaga mín fer ekki fram á nema 11/4 af þeim tekjum, sem ríkissjóður hefir nú af áfengi. Eftir fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir, eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar af áfengistolli 500 þús. kr. og, af víneinkasölu 375 þús. kr., eða alls 875 þús. kr. Þar í er innifalinn tollur af óáfengum vínum og ávaxtasafa. Þar geri jeg ráð fyrir 75 þús. kr. Eftir eru 800 þús. kr. af tolli og víneinkasölu, og eins og menn sjá, eru 10 þús. kr. ekki nema 11/4% af því. Ef mönnum er nokkur alvara að vilja efla bindindi í landinu, er þá til mikils mælst, að ríkissjóður leggi fram 11/4% af áfengistekjum til þess? Jeg segi nei. Þetta er svo lítil krafa, að jeg þykist vera mjög lítilþægur að hafa hana ekki hærri. Jeg vona því, að háttv. þdm. sjái sjer fært að samþykkja þessa tillögu mína.

Við vitum það, og það er ekki til neins að blekkja sig á því, að ástandinu hjer hvað snertir bindindismálið er mjög ábótavant. Að einu leyti hefir það þó batnað á síðustu árum, þar sem nú er svo komið, að nálega allir barnakennarar á landinu eru bindindismenn. Það hefir stundum viljað brenna við, að þessu væri ábótavant, en almenningsálitið er nú svo breytt, að lítt hugsanlegt er fyrir barnakennara, sem ekki er bindindismaður, að fá stöðu. Þetta bendir óneitanlega á, að þjóðin er að þroskast í þessu efni. Í þessu máli er það svo, eins og oftar, að ef umbætur eiga að komast á, verða þær að koma neðan að. Ef það er rjett, að bindindisstarfsemin í landinu þurfi að aukast og eflast — og um það virðast allir sammála, — þá ber að líta á það, að býsna miklir erfiðleikar eru á, að svo geti orðið, einkum vegna fjárskorts fjelags þess, sem aðallega vinnur að því máli. Einnig ber að líta á það, að ríkissjóður gerir töluvert til þess að tefja fyrir útbreiðslu bindindisins, þar sem hann hefir einkasölu á áfengi. Og ríkið hefir meira að segja gert sjer áfengið að drjúgum tekjulið. Þess vegna virðist mjer ekki til of mikils mælst, þó að við bindindismenn förum fram á ofurlítinn styrk af þessum tekjum ríkissjóðs í baráttu okkar gegn ofdrykkjunni. Jeg treysti því fyllilega, að hið háa Alþingi skilji þetta mál, og tel óþarft að fara fleiri orðum um þessa breytingartillögu.

Þá er 3. brtt., við 25. gr., um að ríkissjóður ábyrgist alt að 110 þús. kr. lán fyrir Búðahrepp í Suður-Múlasýslu, til rafmagnsveitu. Svo stendur á þessari tillögu, að á Alþingi 1919 var tekin upp í fjárlögin fyrir 1920–21 slík ábyrgðarheimild, og hún var einnig tekin upp í fjárlögin 1921, en fjell svo burt. 1924 var hún aftur tekin upp, en fjell burt 1925. Það eru með öðrum orðum nú 6 ár síðan þessi heimild var fyrst veitt. Þau ár hafa verið erfið bæði fyrir ríkissjóð og einstaklinga, og hefir Búðahreppur því ekki sjeð sjer fært að leggja út í þetta nauðsynjafyrirtæki. En 1924, og þó einkum 1923, var afkoma þessa hrepps mjög góð, svo að menn fóru að hugsa sjer til hreyfings að koma þessu áleiðis og byrjuðu á undirbúningi. Í fyrra var svo hafist handa, þannig, að hreppurinn rjeði fastan mann til þess að leggja leiðslur í hús, til þess að hægt væri svo að ljúka verkinu á einu ári, þegar byrjað væri á því fyrir alvöru. Jeg hefi enga skýrslu um kostnaðinn, en veit, að mestan hluta sumarsins í fyrra hafði hreppurinn þennan mann. En í vetur, eftir að jeg kom til þings, fjekk jeg að vita, að fengið væri tilboð um verkið og vjelar og stöð, sem nemur 128 þús. kr., en eins og vænta má, fylgir því sá böggull, að skilríki þurfa að vera fyrir greiðslu.

Í fyrrasumar stóð hreppsnefnd Búðahrepps í þeirri meiningu, að hún hefði á bak við sig ábyrgð ríkissjóðs, af því að 1924 stóð hún óhögguð í fjárlögunum. En í haust er leið, er þingtíðindin komu heim í hreppana, kom það í ljós, að ábyrgðarheimildin stóð ekki í fjárlögunum. Hreppsnefndin áleit, að ekki bæri að skilja það svo, að þingið hefði horfið frá loforði sínu, heldur væri þetta einungis gleymska. Það held jeg líka, að hafi verið, og má vel vera, að jeg eigi sjálfur að nokkru leyti sök á því. En nú og altaf hingað til hefir hreppsnefndin staðið í þeirri meiningu, að þegar hún sæi sjer fært að ráðast í verkið, mundi ekki bresta það bakhjarl, sem loforð var fyrir. Því vil jeg ekki álíta, að Alþingi vilji nú kippa að sjer hendinni og valda með því hreppnum stórtjóni. Jeg vænti þess sem sagt fyllilega, að Alþingi standi við sín gefnu loforð og veiti ábyrgðarheimildina. Jeg skal geta þess, að jeg hefi hjer farið fram á 10 þús. kr. meira en loforð var fyrir, því að þótt hreppsfjelagið sje sæmilega vel stætt, get jeg ekki búist við, að það geti staðið straum af meiru en 18 þús. kr. án ábyrgðar. En ef á því stendur, mundi jeg ekki vera ófáanlegur til að færa upphæðina ofan í 100 þús. kr., þó að jeg telji það ekki rjett. Það mundi jeg samt gera, ef á því stæði, en þessar 100 þús. kr. eru sanngirniskrafa, þar sem það er gamalt loforð, sem hreppurinn hefir treyst á í undirbúningi sínum.

Þá skal jeg ekki þreyta hv. þdm. lengur, en vænti þess, að þeir sjái sjer fært að styðja brtt. mínar. helst allar, en ekki hvað síst þá síðustu.