22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

50. mál, tollalög

Sveinn Ólafsson:

Gamalt orðtæki segir: „Ekki dugir góð bæn, þegar ilt á að ske.“ Hjer er stefnt að því að leggja tóbakseinkasöluna niður og er um leið stefnt að óhappaverki. Jeg hygg, að um slíkt verk megi taka dýpra í árinni en að kalla það hermdarverk, eins og hv. 1. þm. Árn. (MT) gerði; miklu fremur mætti kalla það óbótaverk, því að tjónið, sem af því leiðir að samþykkja þetta frv., verður ekki í svipinn bætt.

Hitt er annað mál og mín trú, að þetta frumhlaup hefni sín síðar. Það má halda mig forlagatrúarmann þess vegna, en það skiftir engu máli. Að jeg tel þetta fótmál, að leggja landsverslun niður, misráðið og athugavert, er einkum vegna þess, að mikið hefir verið lagt í þessa stofnun og miklu kostað til þess að gera hana starfhæfa, og sá kostnaður fæst ekki endurgreiddur. Landsverslunin — ef hún fær að standa — er á hverjum tíma tiltæk til að bjarga þjóðinni á líkan hátt og á stríðsárunum. Hún er á hverjum tíma tiltæk að fara með verslun á hverju sviði, þar sem einkasala er nauðsynleg, svo sem á olíu og öðrum varningi sem stjórnin þarf að láta framleiða, svo sem baðlyf, sem nú er einkasöluvara.

Jeg ætla ekki að fara að vinsa úr því talnamoldviðri, sem hjer hefir þotið um eyru manna. Hygg jeg þann samanburð á tölum, sem gerður hefir verið, lítið sannfærandi og að hann leiði ekki til þess að breyta skoðun manna. Þó verð jeg að taka það fram að tóbakseinkasalan hefir uppfylt þær vonir, er gert var ráð fyrir, að hún mundi uppfylla frá öndverðu. Hverjar voru þær 1921? Þær, að hún mundi veita í ríkissjóð, umfram toll. 200 þús. kr. árlega. Hún hefir gert snögt um meira, og nú á síðasta ári nærri tvöfaldað þessa upphæð. En það var ekki þetta eitt, sem haft var fyrir augum.1921, heldur og að tóbakið yrði neytendum ekki dýrara en ella. Þetta tókst líka. Verslunararður sá, er annars hefði tilfallið einstökum mönnum, varð að tekjugrein fyrir ríkissjóð, án þess að nokkur fyndi skattþungann. Einnig að þessu leyti hafa vonirnar ræst, eftir því sem hægt var. En meðan gengismunur var mestur, var auðvitað kvartað um tóbaksverðið, sem þá var að eðlilegum hætti hátt. Þó hefði tóbakið orðið mun dýrara í frjálsri verslun á þeim tíma. eins og ljósast er af ókjaraverði flestra útlendra vara á þeim tíma. En það dró eðlilega úr tekjum tóbaksverslunarinnar þá, að vegna lággengis varð að fylgja lágmarksálagningu á tóbakinu, en það atvik skiftir miklu, þegar meta skal tekjur þeirra ára.

Hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið af skarið um nytsemi landsverslunarinnar með tóbak, og er besta heimildin, sem jeg get nefnt. Hann hefir viðurkent, að vonirnar hafi allar ræst um hana, og fram yfir það. En mjer finst honum ekki farast karlmannlega, eftir slíka yfirlýsingu. að hann skuli ekki treystast að styðja þetta mál, er hann bar fram til sigurs 1921 og bersýnilega með ágætum árangri.

Mjer þykir honum ekki farast karlmannlega. þegar hann hættir við að greiða atkv. og lætur það eiginlega velta á hlutleysi sínu, að gamalt áhugamál hans fer nú sennilega í gröfina. Jeg hefði í raun og veru — jeg skal kannast

við það — óskað honum betra hlutskiftis heldur en þess dóms, sem bíður hans um þetta atriði.

Það var lögð hjer spurning fyrir hæstvirta stjórn af öðrum þdm. um það, hvað í vændum væri með steinolíueinkasöluna. Hæstv. fjrh. (JÞ) varð fyrir svörum, en svaraði reyndar út í hött, eða sneiddi hjá úrlausn þessarar spurningar. Og mjer flaug í hug og skildist, að orsökin væri sú, að hann er ekki atvrh. Það er lítið á slíkum svörum að græða hjá hæstvirtri stjórn, þegar einstakir ráðherrar skjóta sjer þannig undan svörum og skírskota til þess, að málin heyri undir einhvern annan ráðherra. Það er dálítið óviðfeldin aðferð að vísa eins og frá Heródesi til Pílatusar í hverju máli, en láta spurningum ósvarað.

Því hefir verið haldið fram af ýmsum, sem hafa viljað fella niður ríkiseinkasöluna, að Framsóknarflokkurinn yfirleitt hefði á stefnuskrá sinni frjálsa verslun. Það getur verið, að það hafi komið fram í ýmsum málum, því hann er heldur ekki mótfallinn henni. Þegar svo stendur á, að ekki er sjerstaklega nauðsynlegt að hafa hana bundna. En það er rjett að minna á í þessu sambandi, að það er til tvennskonar einkasala og tegundirnar mjög ólíkar hvor annari. Það er til ríkiseinkasala, eins og hjer er um að ræða, og í öðru lagi einstakra manna einkasala; og það var hún, sem til forna reyndist háskalegust og mest var á móti haft. Það er hún, sem á hverjum tíma hefir reynst skaðvættur, þar sem hún hefir verið rekin. Auðvitað hefir hitt komið í ljós stöku sinnum, að ríkisverslun hefir ekki reynst vel. En það er svo um öll fyrirtæki, að þau geta mishepnast, ef miður valdir menn stjórna þeim. Hvað snertir þá ríkisverslun, sem hjer er rekin og hefir verið rekin hin síðustu ár, þá held jeg enginn enn í dag af þeim, sem eru mótfallnir ríkisverslun, hafi leyft sjer að efast um það, að þessi verslun hafi verið ráðvandlega og vel rekin af þeim, sem með hafa farið, og enginn mun hjer efast um það, að hún þess vegna sje heilbrigt fyrirtæki.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu, en jeg endurtek að lokum enn, að vonirnar, sem menn ólu 1921 um heppilegan og hollan árangur af einkasölunni, þær hafa allar ræst og langt fram yfir það.