22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Klemens Jónsson):

Jeg get ekki látið hjá líða að segja örfá orð út af ræðu hv. frsm. meiri hl. (JakM) og ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg verð að segja, að mjer fundust reikningar hv. frsm. (JakM) allágiskanakendir og í lausu lofti, t. d. 75 þús. kr., sem hann vildi telja tilviljunargróða, og svo hitt, að gróðinn hefði verið 84 þús. 1924 með því að lækka ekki verðið fyr en gert var.

Jeg verð að halda því fram, að jeg tel það alveg ósannað, að rjett hefði verið að lækka verðið eftir að 3 mánuðir voru liðnir síðastl. ár vegna gengishækkunar ísl. krónunnar. Og mjer er spurn: Hafa aðrir kaupmenn fylgt sömu reglu? Hafa þeir lækkað verðið eftir að gengi krónunnar hækkaði? Má vera úti um land; en jeg hefi ekki orðið var við það í búðum hjer, og jeg ætla, ef almenningur væri spurður, að sama yrði uppi á teningnum. Ef því hægt er að sanna, að ekki hefði verið rjett að lækka verðið fyr en 1. sept., þá haggast tölur hv. frsm. (JakM) að miklum mun.

Því hefir verið haldið fram, að landsverslunin telji gróða tóbaksverslunarinnar 208 þús. kr., en jeg teldi hann 250 þús. kr. Jeg hefi mína tölu blátt áfram frá skýrslum landsverslunar sjálfrar, eins og hún liggur fyrir. Ef gengið er inn á aukinn innflutning um 12%, sem hv. flm. frv. gera, þá kemur út talan 248 þús. kr. En vilji hv. þm. vera nákvæmir, þá á að taka tillit til beggja talnanna og fara bil beggja. Það munar um 20 þús. kr. Háttv. frsm. komst samt að þeirri niðurstöðu, að nokkur hagnaður hefði orðið á versluninni, en ekki tap. Sama hjelt og hæstv. fjrh. (JÞ) fram, — en ekki svo mikill hagnaður, að það borgaði sig að halda stofnuninni áfram. Þeir viðurkenna hagnaðinn eins og jeg, en um hitt þykist hver hafa sannanir fyrir sig, hve mikill hann er.

Gagnvart ræðu hæstv. fjrh. vil jeg taka fáein atriði fram. Hann gat þess, að tóbaksverslunin legði 4 kr. á kg. af tóbaki, og þar sem tollur væri ein króna, væri hagur ríkissjóðs 5 kr. á kg. Kaupmenn gætu nú fengið sömu góð innkaup erlendis eins og landsverslunin, og þyrftu ekki að leggja eins mikið á. En landsverslunin segist sjálf fá betri kjör erlendis en einstakir menn, og það hefir ekki verið vjefengt, enda heldur ekki hægt, því það segir sig sjálft, að svo mikil innkaup sem landsverslun gerir hljóta að verða ódýrari en þegar um litla pöntun er að ræða. Ef versluninni er hætt, þá hverfur sá gróði úr landinu til verksmiðjanna

sjálfra. Og jeg er sannfærður um, að kaupmenn mundu ekki hlífast við að leggja á. Hvers vegna hafa þeir ekki viljað hafa tóbakið í útsölu margir, sem áður höfðu það? Af því að þeir þóttust ekki græða nóg með heimiluðu álagi.

Þá sagði hæstv. fjrh., að framtíðarhorfur landsverslunarinnar væru allar undir því komnar, að innflutningur ykist, eða meira yrði að leggja á, en því má bæta við, að það má líka hækka tollinn jafnmikið og hjer er farið fram á; en það er hættulegt, því að þá mundu menn að vísu mikið hætta að nota þessa vöru, allir nema þeir, sem ekki þykjast geta án tóbaks verið.

Þá hjelf hann því fram, að tilkostnaðurinn við útsöluna væri afarmikill, 41% af tekjunum.

Jeg skal ekki vjefengja þessa tölu. En hún sannar ekki, að þessa stofnun eigi að leggja niður. Hún sýnir, að breyta þarf og fækka mönnum. Það er eina rökrjetta afleiðingin af því, að tilkostnaður er of mikill, og það er stjórninni innanhandar að fækka starfsmönnum við þessa stofnun.

Þá er talað um, að vonirnar hafi brugðist, t. d. 1922—23. Geta menn búist við góðum heyjum, ef rignir alt sumarið? Þessu mátti búast við eftir hinn gífurlega innflutning árin áður og um leið og kreppan skall á.

Þá kem jeg að því, er hæstv. fjrh. sagði, að það væri ranglátt, að við ljetum landið gjalda þess, að hann hjeldi fram skoðunum sínum. En jeg bið hæstv. ráðherra (JÞ) að stinga hendinni í sinn eiginn barm. Hvað segði hann sjálfur, ef hann sæi einhvern fjrh. kasta burtu tekjum svo hundruðum þúsunda króna skiftir? Jeg held honum mundi flögra í hug, að það væri ekkert undarlegt, þó menn hikuðu við að styðja stjórn, sem kastar burtu þeim tekjum, sem þeir telja vissar. Jeg ætla nú samt ekki að láta landið gjalda þess, hvað hann gerir, og mun ekki greiða atkvæði gegn þeim tekjuauka, sem jeg tel nauðsynlegt, að landið fái, þó hann haldi áfram að vera fjármálaráðherra.

Jeg sje, að komin er fram brtt. frá 4 þm., þar sem farið er fram á að framlengja tímann um eitt ár. Jeg og hæstv. fjrh. höfum barist í tveimur fjárhagsmálum um tímatakmörk, og jeg hefi látið undan hæstv. ráðherra í þeim báðum. Mundi nú til of mikils mælst af hæstv. ráðherra, að hann styddi þessa till.? Hún er ekki frá mjer, en mjer finst hún til bóta. Það er hægt að sýna eftir 1925 og 1926, hvort ekki er rjett, sem við segjum, að tóbakssalan gefi arð. Og er það til of mikils mælst, að fá á það frekari reynd?