09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi ekki miklu að svara hv. frsm. minni hl. (JJ). Hann hjelt því fram, að hann hefði lagt fram gögn gegn öllum ástæðum okkar andstæðinga einkasölunnar, og geri jeg ekki ráð fyrir, að þeirri skoðun hans verði haggað. Er hætt við, að svo skilji með okkur, að hvor haldi sinni meiningu, eins og trúboðinn, sem ferðaðist mikið austur um sýslur, sagði að hefði farið fyrir sjer og þeim, er hann boðaði trúna. Hv. þm. (JJ) sagði, að jeg hafi ekki farið rjett með skýrslur og tölur snertandi þetta mál, og áminti hann mig að leita sannleikans. Er slík áminning góð og blessuð. En því leiðara er til þess að vita, að hann hefir sjálfur ekki gert neina tilraun til að koma auga á sannleikann í þessu máli og það sýna m. a. tölur þær, sem hann notar í nál. hv. minni hl. á þskj. 468. Annars hefir hæstv. fjrh. tekið af mjer ómakið að mótmæla þeim.

Í sambandi við varasjóð verslunarinnar vil jeg minna á það, að útistandandi skuldir verslunarinnar eru ca. 160 þús. kr., en varasjóðurinn nemur 64 þús. kr. Hjelt jeg því fram við 2. umr., að ekki væri rjett, þegar skuldirnar væru svo miklar við verslunina og varasjóður svo lítill, að telja hann til eigna. Þurfa ekki allar skuldir verslunarinnar að tapast fyrir það, heldur einungis svo mikið, sem varasjóði nemur. Þá hefir oft verið sýnt fram á, að fylgismenn einokunarverslunarinnar fást ekki til að leggja annað tímabil til grundvallar útreikningum sínum en besta árið, sem yfir verslunina hefir komið. Þeir vita sem er, að ef tekið er meðaltal hinna 3 ára eins og gert var í nál. meiri hl. hjer og í hv. Nd., þá þarf innflutningur ekki að aukast frá því, sem nú er, til þess að jafnmiklar tekjur hafist með breyttum tolli af tóbakinu eins og nú er af landsversluninni. 1924 er þannig þrautalending einokunarmanna. En það var sýnt fram á það í hv. Nd., að ef sömu reglu væri fylgt af andstæðingum verslunarinnar, og þeir tækju það árið, sem innflutningurinn var mestur, nefnilega 1919, þá mundu tolltekjur af tilsvarandi innflutningi nema l½ milj. kr. Þessi eins árs regla myndi því síst vera í hag einokuninni, ef henni væri fylgt út í œsar.

Hitt er annað mál, að sú regla er auðvitað ófær. Meiri hl. fór því að eins og hver skynsamur, öfgalaus maður myndi hafa gert, og tók meðaltal hinna 3 ára.

Hv. þm. (JJ) hefir tvisvar eða þrisvar vikið að því, að jeg færi í kringum málið. En jeg þykist þó hafa komið með allmörg atriði, sem skýra kjarna málsins. Á hinn bóginn finst mjer, að hv. þm. (JJ) hafi komið æðivíða við í síðustu ræðu sinni. Sú ræða snerti mig raunar ekki, að því leyti er hann var að ræða um skoðanir einstakra þm. á líkum málum og þessum á þinginu 1912 og gera upp við þá skoðanaskiftin síðan. En skoðað frá almennu sjónarmiði, þá held jeg, að hv. þm. (JJ) þurfi ekki að standa undrandi, þó einhver væri fylgjandi einkasölu á einhverri vörutegund áður en nokkur reynsla var fengin fyrir því, hvernig slíkt myndi reynast í framkvæmdinni. Og því síður er það undarlegt, þó sömu menn skifti um skoðun, ef reynslan hefir sýnt, að slíkt fyrirkomulag er óheppilegt.

Þá mintist hv. þm. (JJ) á nokkrar útlendar þjóðir, sem hefðu tekið upp einkasölu á tóbaki og ekki haggað við henni, og að þar hefði atvinnurekendunum ekki verið bættur skaðinn neitt. En hvað Svíþjóð viðvíkur í þessu efni, þá leyfi jeg mjer að vísa til þess, sem jeg sagði við 2. umr., og til skýrslu hv. 4. þm. Reykv. (MJ) í hv. Nd. Þá geta menn sjeð, að í Svíþjóð hefir verið varið miljónum króna til að bæta stórsölum og smásölum hallann, sem þeir biðu við það, að einokunin var sett á fót. Annars þýðir víst ekki að deila mikið um þetta mál, úr því sem komið er. En atkvæðagreiðslan verður að skera úr því, hvort hv. deild þykir, sem röksemdir hv. þm. (JJ) sjeu eins þungar á metunum og hann vill vera láta. Málið hefir og einnig verið mikið rætt bæði hjer og í hv. Nd., og þeir, sem best hafa fylgst með, segja, að fylgjendur einokunarinnar hafi jafnan frá upphafi stagast á því sama, og svo virðist, sem aðalröksemd þeirra sje í því fólgin að búa til falskan gróða með röngum reikningum.

Að lokum vil jeg minna á það, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls, að það, sem rjeði skoðun manna í því, væri fyrst og fremst „princip“-munur. Sumum þótti þá, sem þetta væri út í bláinn sagt, en jeg held, að það sje að koma betur og betur á daginn. Þó sumum kunni að ganga eitthvað annað til, svo sem fjárhagsatriði málsins, þá hlýtur stefnumunurinn milli frjálsrar verslunar og einokunar ætíð mestu að ráða um afstöðu manna til þessa máls og annara af líku tægi.