29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1926

Guðmundur Ólafsson:

Jeg þarf ekki að tala hjer fyrir neinum brtt. vegna míns kjördæmis, því það lítið, sem stendur í fjárlögunum til þess, hefir verið sett inn af fjvn., og hefir háttv. frsm. (JóhJóh talað um þau atriði í framsöguræðu sinni.

En út af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), er hann sagðist vera þakklátur nefndinni fyrir það að hafa sýnt mikla gætni í því að hækka gjaldahlið frv., þá verð jeg að segja það, að mjer þykir það ekkert undarlegt, þó hann lyki lofsorði á nefndina fyrir þetta. Till. hennar til útgjalda mega ekki miklar kallast, þar sem þær nema ekki nema rúmum 50 þús. kr., en aðgerðir hennar við frv. að öðru leyti miða til þess að minka vitund tekjuhallann.

Þá gaf hæstv. fjrh. (JÞ) í skyn, að margt af því, sem nefndin leggur til að verði felt niður, muni verða sett inn aftur í hv. Nd., og skal jeg ekki bera á móti því. En jafnvel þó að allar gjaldahækkunartill. nefndarinnar og einstakra þm. næðu hjer fram að ganga, þá væri samt ekki hægt að segja, að þessi háttv. deild ætti mjög mikinn þátt í þeirri breytingu, sem frv. hefir tekið frá því, sem það kom frá hendi hæstv. stjórnar. Þó að gjöldin yrðu nú hækkuð hjer um ca. 40 þús. kr., þá er það ekki mikið í samanburði við það, sem hv. Nd. hefir gert, svo framarlega sem þessi hv. deild á annað borð á að hafa nokkuð um fjárlögin að segja, hvernig þau skuli líta út.

Þegar hæstv. fjrh. fylgdi fjárlagafrv. úr hlaði frá hv. Nd., þá sagði hann, að tekjuhallinn væri að vísu rúml. 350 þús. kr. á pappírnum, en ljet í ljós, að greiðast mundi svo úr tekjunum, að þær mundu reynast það drýgri, að ekki mundi verða raunverulegur tekjuhalli. Og get jeg vel fallist á það, að tekjuáætlunin sje enn svo lág, að hún megi hækka nokkuð. Jeg hefi ekki talið mig nje heldur verið talinn af öðrum til þeirra útausandi manna, heldur hefi jeg víst fremur fengið óorð á mig fyrir naumleika. En jeg veit ekki nema það sje fremur óþakklátt verk að vera að bregða fæti fyrir það, sem aðrir hv. þm. vilja, að fram gangi. Og jeg verð að segja það, þar sem hjer eru á ferðinni fleiri en eitt frv., sem lítur út fyrir, að verði að lögum, og sem jeg og ýmsir fleiri telja miða að því að rýra tekjur ríkisins, þá gæti nú svo farið, að jeg breytti til og yrði ekki eins sparsamur fyrir hönd ríkisins og áður — þegar stjórnin að áliti margra sýnir, að henni er áhugamál að rýra tekjur ríkissjóðs stórkostlega að þarflausu.

Ef jeg hefi tekið rjett eftir af hæstv. fjrh. (JÞ), þá var sjerstaklega ein ábyrgðarheimild, sem hann varaði menn við að fylgja, ábyrgðin til Búðahrepps. Jeg álít, að ríkissjóður hafi oft farið óvarlegar en þó hann tæki nú á sig þessa ábyrgð. En það, sem gerir það að verkum, að jeg mun greiða atkv. með þessari till., er, að mjer er skýrt svo frá, að þeir menn, sem eiga hjer hlut að máli, sjeu þegar komnir út í fyrirtækið, vegna þess að heimild þessi hefir áður staðið í fjárlögunum. Ef þetta verk er nú svo langt komið, sem mjer er sagt, og jeg efast ekki um, að sje rjett, þá finst mjer alveg órjett og eiginlega um svik að ræða hjá þinginu, fari það nú að kippa að sjer hendinni, þegar alt er komið á flugstig.

Út af till. fjvn. um lækkun á styrk til Búnaðarfjelags Íslands vil jeg geta þess, að jeg er ekki fylgjandi því að lækka styrkinn til þess. En það kom dálítið ónotalega við mig, er hæstv. atvrh. (MG) sagði í ræðu sinni, að búið væri í Nd. að semja við búnaðarþingið um þessa styrkupphæð. Þetta sýnir, hvaða tillit þar er tekið til þessarar deildar og fjvn. hjer, þegar fjvn. Nd. leyfir sjer að gera samning um fjárveitingar upp á sitt eindæmi. Mjer þykir það a. m. k. ekki nema sæmileg kurteisi að skýra okkur frá slíku í tíma, svo við sjeum ekki að gera brtt., sem við fáum síðan að vita, að ekkert hafa að þýða og ekkert tillit er tekið til. Það virðist mjer vera fulllangt gengið. Það hefir að vísu komið fyrir áður í þinginu, að samið hefir verið við fjvn. um að þetta og þetta skyldi borga, án þess að þingið fengi nokkuð um það að segja. Þetta er vægast sagt ekki viðkunnanlegt, og alveg rangt, og jeg held, að þá væri rjettast að vera ekki að tefja þingið neitt með umr. um fjárlög, ef þessi ósiður verður ekki kveðinn niður.

Jeg hefði ef til vill minst hjer á till. einstakra þm., ef jeg hefði tekið til máls í gær. En nú eru mjer úr minni liðin ýms þeirra hjartnæmu ummæli. En vegna þess, hvað þeir töluðu fallega fyrir till. sínum, þá þykir mjer líklegt, að margar þeirra verði samþyktar. Jeg hefi áður sagt, að hv. frsm. nefndarinnar hefir talað fyrir brtt. hennar, svo að jeg þarf þar litlu við að bæta. Jeg skal þó aðeins minnast á eina, sem hv. 2. þm. G.-K. (BK) vildi finna að, þar sem nefndin leggur það til, að styrkur til læknisvitjunar úr Kjósar-, Kjalarnes-, og Mosfellshreppum sje lækkaður úr 1500 kr. í 500 kr. Jeg hugsa, að öllum, sem til þekkja, þyki undarlegt, að veita þurfi styrk til læknisvitjunar úr Mosfellshreppi. Þar er ekki um mikla fjarlægð að ræða. Hitt veit jeg að er rjett, að Kjósarhreppur er illa settur í þessu efni, en þó ekki ver en ýmsir aðrir hreppar úti um land. Því er borið við, að hjeraðslæknirinn komi aldrei út fyrir Hafnarfjörð, nema þá til Reykjavíkur. Hann er þá líklega svoleiðis gerður, þó hann sje annars sagður góður læknir, að hann geti ekki sint sjúklingum. nema þá rjett við sitt aðsetur. Jeg held, að nefndin þurfi nú ekki að fyrirverða sig fyrir till. sína, þó hún ákvæði bara 500 kr. til fjarlægari hreppanna, og þá einkum til Kjósarhrepps. Hinir eru ekki svo illa settir, að þeir þurfi á þessum styrk að halda.

Þá er brtt. XII. á þskj. 400 frá hv. 5. landsk. (JJ) og hv. þm. Vestm. (JJós). Háttv. þm. Vestm. hefir talað vel fyrir henni. Það er styrkur til að gera kostnaðaráætlun um vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Þetta mætti eins orða svo, að þeir fengju styrk til þess að sækja sjer vatnið. Þeir hafa fengið styrk til þess að finna vatnið, og hv. þm. Vestm. skýrði frá því, að líkur og nokkur reynsla væru fyrir því, að vatnið væri nóg. Jeg er ekki að gera lítið úr því, að þarna sje þörf á vatni. En Vestmannaeyingum ætti ekki að vera það ofvaxið að ná vatninu heim án ríkissjóðsstyrks, úr því þeir eru búnir að finna það, Það hefir lengi verið svo, að hver sem hefir verið þm. Vestm., hefir gert nokkuð háar kröfur til ríkissjóðs, svo þetta er ekkert nýtt hjá þessum hv. þm. (JJós). En mjer finst, að hann megi vera ánægður með það, að tveir hæstv. ráðherrar (JM og JÞ) hafa mælt fram með lánveitingu til sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Jeg veit, að þarna er þörf á styrk, eins og sagt hefir verið. Og þegar þessi styrkur er borinn saman við lán, sem öðrum sýslumanni hefir verið veitt, þá er hann hverfandi lítill. Það athugaverðasta í málinu er þetta, að fleiri sýslumenn munu æskja hins sama. En ef hæstv. stjórn hvetur til þess, að öllum sýslumönnum sje gert jafnt undir höfði í þessu tilliti, þá er líklega ekkert við því að segja.