14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3190 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

111. mál, útvarp

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg lít svo á þetta frv., sem það sje samningstilboð. Nokkrum göllum hefi jeg veitt eftirtekt, sem jeg mun þó ekki fara mörgum orðum um að svo stöddu, en þess vildi jeg geta, að það er ekki nógu skýrt í frv., að útvarpsfjelagið má ekki vera gróðafjelag, heldur beri því að vera fjelag áhugamanna, sem vinna vilja fyrir þjóðina.

Á Englandi hafa svona fjelög ekki leyfi til þess að útdeila meiri ágóða en 7%. Hjer ætti það að vera svo sem 1—2% hærra en útlánsvextir bankanna. Ákvæðin um takmarkanir á skattfrelsi standa í sambandi við það, að menn hafa ekki gert sjer nægilega ljósa grein fyrir eðli þessa máls. Svona fjelag á að vera skattfrjálst. Útvarp er menningartæki. Um sjerleyfistímann er það að segja, að hann á ekki að vera langur. Fjelagið á að stofna með almennum framlögum á sama hátt og Eimskipafjelagið var stofnað og með hag heildarinnar fyrir augum. Það á að byggjast á áhuga, en ekki von um mikinn gróða, og mætti ríkið gjarnan leggja fram nokkurt fje.

Jeg sting upp á, að frv. sje vísað til mentmn., því að það skiftir miklu máli fyrir menningu þjóðarinnar, ef til vill meiru hjer á þessu strjálbygða landi en víðasthvar annarsstaðar. Til þessa finst mjer ekki nóg tillit tekið. Það snertir fyrst og fremst þjóðmenning vora, skóla, kirkjur, Alþingi, leikhús o. s. frv., og því næst sjávarútveginn og aðra atvinnuvegi.

Enn finst mjer eitt vanta, og það er, að ríkið skipi nokkra menn í nefnd þá, sem ræður störfum þessa fyrirtækis. Það er meginatriði, að starfsemi þess sje virðuleg og til eflingar góðum smekk á bókmentum, sönglist o. fl. Frv. ætti því að vísa til mentmn.; ef ekki það, þá til sjútvn., en síst til allshn., enda hefir hún meira annríki en nokkur önnur nefnd. Þetta mál þolir ekki bið; það er merkilegra en tóbakseinkasala og varalögregla og annað, sem nú er efst á baugi og mest deilt um. Það er engin áhætta að byrja nú þegar útvarpsstarfsemi hjer á landi. Tækin eru nú orðin svo fullkomin, að þess er að vænta, að við það sitji nú fyrst um sinn, og þurfi ekki að óttast ókleifan kostnað af breytingum, sem af nýjum uppgötvunum leiða.