14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3193 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

111. mál, útvarp

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er að vísu ákvæði til í frv., sem komið gæti í veg fyrir, að þetta yrði gróðafjelag, ef það væri notað, en mjer fanst það ekki koma nógu skýrt fram. Og eitt gæti líka vilt; það eru ákvæðin um heimild til þess að framselja einkaleyfið öðrum. Það á þá að ganga kaupum og sölum eins og hvert annað gróðafyrirtæki. En það á ekki að koma til mála. Fjelagið á að vera íslenskt fyrirtæki. Það kvað þurfa um 100 þús. kr. til þess að hægt sje að setja fyrirtækið á stofn, og er það ekki mikið, þegar á ágæti starfseminnar er litið. Hjer hefir nýlega orðið slys, sem leitt hefir til meiri fjársöfnunar. Landssjóði ætti sannarlega ekki að vera ofvaxið að leggja eitthvað af þessu fje fram, ef verða mætti til þess að afstýra slysum, eins og vænst er. Þó það þyrfti 200 þús kr., þá efast jeg ekki um, að hægt yrði að fá það fje hjer innanlands.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kvað ekki að marka það, þótt ensk fjelög tækju 7%, því þau græddu jafnframt á sölu verkfæranna. En þau taka einmitt 7% af verkfærunum. Fyrst var dálítil óánægja með þennan fjelagsskap, en þá var horfið frá því ráði að láta hann greiða hærri arð. Þó eru þar uppi raddir um, að ríkið taki þennan rekstur að sjer, og svo er búist við, að verði á sínum tíma í riti, sem jeg hefi lesið nýlega. eftir forstjóra enska útvarpsins. Þó tekin sjeu 7%, á Englandi, mættu það vera 9% hjer, vegna hinna háu útlánsvaxta hjer á landi. En ef fjársöfnunin er rjett rekin, þá á að vera auðvelt að ná þessu fje. Sá maður, sem forgöngu hefir í þessu, er vel að sjer og mun starfa meira af áhuga en gróðahug.

En jeg þykist sjá við þessa umræðu, að mönnum er þýðing þess atriðis ekki eins ljós og skyldi.