29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Eggerz:

Jeg vil fyrst snúa mjer að 16. brtt. á þskj. 392, um það, að stjórninni sje falið að gera samning um skeytasamband við umheiminn, er einkaleyfistími Mikla norræna fjelagsins er úti. Það hefir verið sagt, að þessi aths. væri fram komin af því, að stjórnin vildi með því sýna þinginu kurteisi. Jeg lít nú svo á, að þetta sje svo stórt mál, að þingið megi alls ekki sleppa því úr höndum sjer. En samkvæmt till. þarf stjórnin ekki að leita samþykkis þingsins á samningum þeim, sem gerðir verða; samþykkið er veitt fyrirfram. Jeg vildi því mælast til þess, að hv. frsm. (JóhJóh) taki mál þetta til yfirvegunar.

Þá vil jeg minnast á þá brtt. á þskj. 392, sem fer fram á, að styrkur til Lúðvíks Jónssonar verði fellur niður. Jeg skal ekkert endurtaka af því, sem jeg fyr hefi um þetta mælt, en vil aðeins taka fram, að mjer finst hjer um svo þýðingarmikið mál að ræða, að jeg vil ekki bera ábyrgð á því, að það nái ekki fram að ganga.

Þá kem jeg að till. um Staðarfellsskólann. H. frsm. (JóhJóh) tók svo kynlega illa í mál þetta, að það hefir hlotið að liggja eitthvað sjerstaklega illa í honum. Hann sagðist ekki vita, hvort hjer væri um einkaskóla eða ríkisskóla að ræða. Auðvitað er þetta einkaskóli, því að ungfrúin, sem ætlar að veita honum forstöðu, rekur hann á eigin ábyrgð, en aðeins með styrk úr ríkissjóði. Þá sagði hv. frsm., að fjvn. ætti að gerast allumsvifamikil, ef hún ætti að skifta sjer af því, hvernig ríkissjóður bygði jarðir sínar. Þetta er alveg fullkominn misskilningur, enda hefir þingið aldrei skift sjer af slíku. Hjer var aðeins lagt til við stjórnina, að hún leigði jörðina til 10 ára, án þess að fjhn. skoðaði það á nokkurn hátt bindandi fyrir stjórnina.

Þá hefir verið talað um það, að þetta mál hafi komið seint frá mentmn. Má vera, að svo sje, en ekki er það nefndarinnar sök. Fyrst lá fyrir nefndinni frv. um stofnun ríkisskóla á þessum stað, en nefndin gat ekki fallist á það. Þá barst henni þetta erindi um stofnun einkaskóla, en um það gat nefndin auðvitað ekki tekið ákvörðun fyr en hún vissi, með hvaða skilmálum forstöðukonan vildi taka skólann að sjer. Alt þetta hlaut að taka alllangan tíma. Annars verð jeg að telja það góða lausn á málinu hjá nefndinni, að eftir till. hennar er hægt að fá húsmæðraskóla stofnaðan fyrir einar 3000 kr. á ári. Þær 1800 kr., sem veita á til aðgerða á Staðarfellshúsinu og til eldavjelar, miða aðeins til endurbóta á eigninni. Þá er ríkisábyrgð á 15 þús. kr., en hana á aðeins að veita gegn fullri tryggingu.

Það þýðir ekki að fresta og fresta öllu, þegar alt er að verða of seint í annríkinu, en þrátt fyrir þetta vil jeg bera undir nefndina, hvort hún vill fyrir sitt leyti taka þessa brtt. aftur til 3. umr. Háttv. 1. þm. Rang. (EP) vildi ekki láta byrja búskap á jörðinni með svona mikilli áhöfn. Jeg tek tillit til álits hans, þar sem hann er þaulreyndur búmaður. En nefndin verður að halda fast við þetta af því, að það er eitt af skilyrðunum fyrir því, að ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir fáist til þess að taka við skólanum. Ef litið er á þetta mál með fullri sanngirni, verður að kannast við, að skólinn getur komist af stað með ótrúlega litlum kostnaði. Auðvitað er það mest að þakka Magnúsi frá Staðarfelli, sem enn hefir sýnt þá miklu rausn að bæta 10 þús. kr. ofan á fyrri gjöf sína.

Jeg held, að jeg þurfi ekki að minnast frekar á þetta mál. En jeg vildi leyfa mjer að fara enn fáeinum orðum um fjárveitinguna til þess að kaupa listaverk Nínu Sæmundsson, þó að það þyki kannske að bera í bakkafullan lækinn. Hv. 1. þm. Rang. (EP) talaði hlýlega í hennar garð, eins og aðrir hjer í háttv. deild. En háttv. þingmaður (EP) leit svo á, að ekki væri nauðsynlegt að kaupa listaverkið; það skifti ekki miklu máli, þó að það færi til annara landa. Jeg verð að segja, að mjer finst það skifta miklu máli. Þetta er merkilegt listaverk, sem stöðugt hækkar í verði. En svo er annað, sem ekki má gleyma. Hjer á hlut að máli fátæk listakona, sem ekki getur beðið eftir því, að listaverkið komist í það verð, sem fyrir því liggur að komast í. Jeg veit ekki, hvort háttv. deild er það kunnugt, að braut þessarar stúlku er þyrnum stráð, eins og svo margra annara listamanna. En auk fátæktarinnar á hún við berklaveiki að stríða, svo að skiljanlegt er, að hún þarfnist skjótrar hjálpar. Jeg skal geta þess, að þegar jeg úthlutaði síðast listamannastyrk, var jeg svo heppinn að hafa fengið upplýsingar um þessa efnilegu stúlku. Hún var að vísu þá ekki búin að skapa þetta listaverk sitt, sem hjer er um að ræða. Hún fjekk þá 500 krónur og var mjög ánægð yfir þessum litla styrk. Jeg vildi aðeins benda á þetta, að hún mun hafa mikla persónulega þörf fyrir fje nú.

Þá vil jeg drepa á styrkinn til þess að rannsaka vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Mjer finst hafa verið tekið óvenjulega kuldalega í það mál. Það var rjett, sem háttv. 5. landsk. (JJ) tók fram, að við, sem ekki höfum af öðru en góðu vatni að segja, getum varla gert okkur í hugarlund, við hve mikla örðugleika þeir eiga að stríða, sem eingöngu verða að notast við rigningarvatn.

Því hefir verið haldið fram, að Vestmannaeyingar gætu sjálfir kostað þessa rannsókn. Jeg vil benda á, að Vestmannaeyjakaupstaður mun vera skuldugur vegna hafnargerðarinnar, svo að fjárhagsástæður hans munu vera fremur örðugar. Jeg styð það með gleði, að Vestmannaeyingar verði styrktir til þess að framkvæma þetta nauðsynlega verk.

Að því er snertir Breiðafjarðarbátinn Svan, vil jeg aðeins taka það fram, að mjer er kunnugt um, að eigendur Svans hafa við mikla örðugleika að stríða og hafa fulla þörf fyrir að fá það, sem hjer er farið fram á.