14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

111. mál, útvarp

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg er ekki eins efagjarn og hv. þm. Dala. (BJ) um, að þetta verði til menningarbóta. Má t. d. benda á, hve miklu væri hægra um fyrirlestrahald í skólum, þar sem bestu fyrirlesararnir gætu orðið kennarar í skólum úti um alt land. Jeg geri ráð fyrir því. að þeir, sem hafa trú á fyrirlestrum, fagni því, að sem flestir geti heyrt þá. Fyrir fornsagnalestri ætti þetta ekki að spilla, því að þær mætti m. a. lesa í víðboðið. En mesta þýðingu hygg jeg, að þetta hefði vegna skeyta frá enskum stöðvum, sem íslenska stöðin mundi endurvarpa. Þannig mundi berast hingað hljóðfærasláttur og ræður, sem útbreiða mundi enskt mál, svo að eftir einn áratug yrði líklega enskan aðalmálið, sem setti okkur í samband við umheiminn. Jeg skal geta þess út af ræðu hæstv. atvrh. (MG), að hjer virðast allir sammála um, að þetta eigi að vera áhugafjelag. Mjer er ekki kunnugt um, að ensku fjelögin hafi aðrar tekjur en af sölu tækjanna. Það munu annars vera hafðar tvær aðferðir til þess að afla tekna til að halda uppi útvarpsstarfsemi. Önnur er sú, að fjelagið hafi einkasölu á öllum tækjum, er til þurfa, en ekkert árgjald. Hin sú, að árgjald sje greitt, en sala tækjanna frjáls.