30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. frsm. (JBald) gat þess í byrjun ræðu sinnar, að fáir menn fyndust hjer á landi, sem hægt væri að ráðgast við um þetta mál. Þetta er rjett, en því meir furðar mig á því, að hv. nefnd skuli hafa umsteypt frv. eins og hún hefir gert. Einhverja ráðunauta hlýtur hún að hafa haft, úr því hún leggur til svo miklar breytingar, því eins og eðlilegt er, þá er enginn sjerfræðingur í þessu efni í nefndinni. En málið er undirbúið af þeim manni, sem að því er jeg veit er helst til trúandi í þessum efnum af öllum landsmönnum. Hann hefir líka haft sjer til aðstoðar þá menn, sem að mínu viti eru kunnugastir þessum málum hjer, en hv. nefnd hefir auðsjáanlega talið aðra betur að sjer, eftir þeim breytingum að dæma, sem hún leggur til að gerðar verði.

Jeg skal nú fyrst víkja að því, sem hv. frsm. (JBald) endaði á, en það er leyfið til hr. Gooks á Akureyri. Mjer skilst, ef hann fær það leyfi, sem um er að ræða, og ef viðtökutæki hans eru með þeirri bylgjulengd, að þau geti tekið við skeytum frá hinni almennu útvarpsstöð, þá eigi hann að greiða gjald fyrir eins og aðrir. En geti þau ekki tekið á móti skeytum frá annari stöð en hans, eigi þau að vera gjaldfrjáls. Með þessu virðist mjer málið leyst, enda skildist mjer, að þessi væri meining hv. frsm. (JBald). Jeg álít og, að fyrir þessu sje sjeð í sjálfu frv., því þar er sagt, að frá einkasölunni skuli undanskilin þau viðtökutæki, sem heyri til heilum loftskeytastöðvum. Myndi stöð hr. Gooks heyra til þeirra, ef hún hefði sjerstaka bylgjulengd, svo varla þarf að spretta óánægja út af þessu.

Hvað sjerleyfið snertir, þá hefir áður verið sótt um það. Var þá meðal annars fundið að því, að aðeins einn maður stóð þar að baki. Þótti með því móti ekki næg trygging fyrir, að leyfið yrði ekki misnotað, eða að stöðin væri eins góð og traust og vel rekin og ella myndi, ef fleiri fengju leyfið. Í samræmi við þetta fer umsækjandinn til annara góðra manna og fær þá til þess að ganga í fjelag með sjer. Velur hann úr nöfnum hinna ágætustu manna til þess að gera frv. sem vinsælast. Hygg jeg, að enginn hafi neitt út á þessi nöfn að setja, en hv. nefnd svarar viðleitninni með því að strika þau út úr frv. Viðkomandi menn hafa móðgast dálítið af þessu, sem vonlegt var. Mun það þó ekki hafa verið meining hv. nefndar að móðga þessa menn, heldur mun hún hafa haft í hyggju, að aðrir kynnu að slá sjer saman og keppa við þá. En málafærslumaður þessara manna hefir sagt mjer, að þeir myndu ekki hirða um að skifta sjer mikið af málinu, ef frv. yrði samþykt eins og hv. nefnd vill breyta því. Hann segir, að þegar allir geta verið að semja samtímis og ekki eru fulltrygðir samningar við erlend fjelög, þá geti þeir farið út um þúfur við það, að aðrir koma, sem bjóða lítið eitt lægra, og verður úr þessu einskonar verslun. Er jeg því hræddnr um, að þessir tilgreindu menn muni ekkert skifta sjer af málinu, ef brtt. hv. nefndar verður samþykt.

Jeg er samþykkur till. hv. nefndar um tímann. Landssímastjórinn lagði til, að einkaleyfistíminn væri 5 ár, en jeg get vel gengið inn á, að hann sje. 5—7 ár. Býst jeg við, að farið verði í hámarkið nú fyrst, ef sjerleyfi verður veitt, því varla er hægt að búast við, að mikil viðskifti verði við stöðina fyrstu árin.

Háttv. nefnd segir í nál., að landssímanum hafi ekki verið treyst til að ráðast í þetta fyrirtæki að svo komnu. Jeg veit ekki, hvað þetta á að þýða. Jeg veit, að landssíminn hefir ekki álitið heppilegt eins og sakir standa að ráðast í þetta fyrirtæki, en jeg held, að enginn hafi vantreyst honum til þess, ef hann vildi gera það.

Þá er um afl stöðvarinnar. Landssímastjórinn hefir lagt til, að hún hefði þá kílówatt í loftneti, en hv. nefnd, að hún hefði 1½ kílówatt í loftneti. Sá maður, sem þessu er kunnugastur, segir, að ekki sjeu til stöðvar, sem hafi 1½ kílówatt, en hann telur heppilegt, að þessi stöð hefði 1 kílówatt. Fari málið áfram, sem jeg vona að verði, vildi jeg því biðja hv. nefnd að athuga nánar, hvort ekki myndi nægja 1 kílówatt, því að það munar allmiklu á verði tækjanna. Jeg hefi fyrir satt, að hjer geti menn hlustað á stöðvar í Englandi, þótt þeir hafi ekki nema þó kílówatt i loftneti, og skilst mjer því, að mygja myndi að hafa helmingi sterkari stöð til að ná um alt þetta land; fjarlægðirnar eru ekki svo miklar. Mjer finst ekki ástæða til að uppáleggja mönnum að hafa stöðina sterkari en það, að hún nái hvert á land sem er.

Jeg sje enga ástæðu til að ræða um aðra brtt. hv. nefndar, um að breyta hlutafjelagi í fjelag og hlutafje í stofnfje. Þetta skiftir engu máli; heimildin er aðeins rýmri eftir till. hv. nefndar, því vitanlega felur fjelag í sjer hlutafjelag. Og ef umrætt fjelag fær leyfið, er það vitanlega hlutafjelag.

Mjer er ekki alveg ljóst, af hvaða ástæðum hv. nefnd vill fella niður í 3. lið, að tekið skuli fram í reglugerð, hvaða viðtökutæki megi nota, og að staðfest skuli gjaldskrá og leiga á þeim. Jeg heyrði ekki, að hv. frsm. (JBald) talaði um þetta. Hann álítur ef til vill, að þetta sje fólgið í því, að ákveðið er, að stjórnin setji reglugerðarákvæði um reksturinn. Get jeg gengið inn á það, en sje ekki, að það hefði spilt, þó þetta hefði staðið kyrt.

Hv. nefnd hefir ekki getað aðhylst það, að leyfishafar hefðu einkasölu á viðtökutækjum, jafnvel ekki þó að stjórnin hafi hönd í bagga með söluverðinu, en jeg held, að óheppilegt sje að breyta þessu. Þegar ekki er nema eitt fjelag, er hægra að hafa eftirlit með, hvernig viðtökutækin eru.

Jeg er viss um, að ef samið er við eitt erlent fjelag um viðtökutæki, fást þau miklu ódýrari en ef einstakir menn kaupa sinn á hverjum stað. Jeg vona, að háttv. nefnd geti fallist á þetta, enda eru líkur til, að hægt sje að setja niður árgjaldið, ef fjelagið hefir nokkuð upp úr sölunni. En hver sem selur tækin, gerir það ekki nema því aðeins, að hann hafi eitthvað upp úr því. Hv. frsm. (JBald) sagði, að þetta væri ekki gróðafyrirtæki. En jeg sje ekkert á móti því, að menn hafi sæmilega borgun fyrir sína vinnu og finst ekki nema eðlilegt, að þeir vilji það. Auk þess ber þess að gæta, að tækin sjeu hagkvæm. En ef öllum er heimilt að hafa þau til sölu, hvar er þá tryggingin fyrir því? Jeg get ekki annað sjeð en að tryggilega hafi verið um þetta búið í frv. þegar í byrjun og batni ekki við breytingarnar, nema þá að því leyti, að tíminn er færður niður. Alt annað lá í frv. frá byrjun. Allskonar skilyrði gat stjórnin sett og gjaldskrár, sem ekki þurftu að vera jafnháar allan tímann. Það var hægt að breyta þeim og setja reglur um notkunina. Jeg get því ekki lagt með neinni af tillögum háttv. nefndar, nema um niðurfærslu leyfistímans. Nokkrar aðrar tel jeg engu máli skifta. Að ríkið hafi kauprjett á stöðinni fyrir matsverð að leyfistímanum loknum, hefi jeg ekkert á móti, en jeg álít, að það hefði mátt setja í sjerleyfisskilyrðin.