04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3235 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

111. mál, útvarp

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir borið fram eina brtt. á þskj. 448, þess efnis, að í stað 1,5 kw. í 2. tölul. frv. komi 1,1 kw., en málsgreinin haldist óbreytt að öðru leyti. Þessi brtt. er fram komin vegna athugasemda, sem fjellu hjer við 2. umr. Bæði hæstv. atvrh..(MG) og öðrum þótti fulllangt gengið að heimta 1,5 kw. styrkleika af stöðinni. Að vísu getur nefndin ekki fallist á, að svo sje, því þeim mun meira afl sem stöðin hefir, þeim mun meiri trygging er fyrir, að hún nái sem víðast um landið og menn geti heyrt til hennar með ódýrari tækjum. En ef þetta ákvæði hefði getað orðið málinu að fótakefli, þá vill nefndin ekki setja það fyrir sig og hefir því borið fram þessa brtt. Með henni er dregið úr kröfunum, sem gera á til afls stöðvarinnar, þ. e. a. s. lágmarkskröfum, en ekkert er því til fyrirstöðu, að hæstv. stjórn geti eftir sem áður krafist þess afls, sem með þarf, þar sem brtt. segir aðeins, að það skuli ekki vera minna en 1,1 kw. í loftnetið. Hæstv. stjórn hefir frjálsar hendur til að gera meiri kröfur, en getur aðeins ekki farið neðar en í brtt. segir, ef hún verður samþykt,

Aðrar brtt. hafa komið fram, og get jeg lýst yfir því fyrir hönd allshn., að hún er yfirleitt á móti þeim, að svo miklu leyti, sem henni hefir unnist tími til að bera saman ráð sín. Fyrsta brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) er mun óákveðnari en till. allshn., sem jeg hefi nýdrepið á. Þar stendur, að aflið skuli vera alt að 1,5 kw. í loftnetið, en í till. nefndarinnar er ákveðið lágmark 1,1 kw. Ef brtt. hv. þm. (ÁÁ) verður samþykt, þá getur stjórnin farið alt niður í 0,5 kw., eða jafnvel enn neðar, og er þá lítil trygging fyrir því sett af þingsins hálfu, að stöðin geti náð yfir alt landið, nema viðtökutækin verði afarfullkomin. Hjer er ekki hægt að miða við afl stöðvarinnar, því að eins og margbúið er að taka fram, þá er það, hvort stöðin nær um alt land, mest undir því komið, hversu sterk viðtökutæki menn hafa. En það er meining okkar í nefndinni, og jeg hygg hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) líka, að stöðin dragi svo vel um alt landið, að menn t. d. á Austurlandi geti heyrt vel til hennar án þess að hafa mjög dýr viðtökutæki. Enda væri það ákaflega lítill kostur fyrir menn að hafa innlenda stöð, ef þeir yrðu að hafa svo sterk og dýr viðtökutæki, að þeir gætu eins heyrt til stöðva erlendis, og þá minkar gagnið að innlendu stöðinni, þótt menn auðvitað vilji líka heyra innlendar skemtanir og innlendar frjettir.

Viðvíkjandi 2. brtt. hv. þm. (ÁÁ) er það að segja, að hún hefir þá afleiðing, að ekki aðeins verða loftskeytastöðvar skipa gjaldskyldar, heldur og viðtökutæki stöðvar hr. A. Gooks, sem talað hefir verið um að heimila og leyfa án árgjalds til væntanlegra leyfishafa. Hvarvetna úti um heim er því svo varið, að þau skip, sem hafa loftskeytatæki, eru undanþegin árgjaldi; enda er því svo varið, að kostnaður þeirra er ósambærilegur við kostnað manna, sem fá sjer mjög ódýr viðtökutæki í landi. Nefndin er á móti þessari brtt.

Hvað snertir 3. brtt. hv. þm. (ÁÁ), þá er nefndin einnig á móti henni. Hefði hv. þm. (ÁÁ) komið fram með till. í þá átt að fella niður klausuna um skattfrelsið, býst jeg hinsvegar við, að jeg hefði getað fallist á hana. En þessari till. er nefndin á móti. Hv. flm. færði þau rök fyrir till., að úr því sjerleyfistíminn hefði verið styttur niður í 5 ár, væri ekki nein meining í skattfrelsisákvæðinu. En nú getur sjerleyfistíminn orðið 7 ár, og þá verður fjelagið að borga skatt í 2 ár. Og jeg sje ekki, að fjelagið þurfi neitt fremur að kallast gróðafjelag eftir till. nefndarinnar en eftir till. hv. þm. (ÁÁ). Nefndin býst ekki fremur en hv. þm. við, að þetta verði gróðafjelag, en þetta er aðeins trygging gegn því og í fullu samræmi við það, sem þeir, er um sjerleyfið hafa sótt, fóru fram á.

Jeg held jeg þurfi svo ekki að taka fleira fram viðvíkjandi þessum till. En hvað það snertir, hvað stöð með 1,1 kw., eins og nefndin nú stingur upp á, myndi kosta, má geta þess, að flestar stöðvar í Englandi munu vera af þeirri stærð, og er mjer sagt, að það kosti ekki mikið yfir 30 þús. kr. að koma þeim upp. Er það ekki óhæfilegt fje, enda þess að gæta, að framfarir eru mjög hraðfleygar á þessu sviði og verðið á öllu þessu lækkandi. Finnast stöðugt hentugri aðferðir og ódýrari tæki, svo að jafnvel nú má fá betri tæki fyrir minna verð en þessi tæki kostuðu síðastliðið haust.