04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

111. mál, útvarp

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer finst það eftirtektarverðar upplýsingar, sem hæstv. atvrh. (MG) gaf síðast, þær, að leyfisbeiðendur væru ekki ánægðir. Ef þeir hafa first við að nöfn þeirra voru strikuð út úr frv., sýnir það, að þeir hafa ekki sóst eftir þessu af rjettum hvötum. Þetta átti aldrei að vera bundið við þá persónulega, heldur sem fulltrúa atvinnuveganna. Þeir áttu aðeins að vinna að málinu með heill almennings fyrir augum, og möguleikar þeirra til þess eru engu minni, þótt nöfn þeirra sjeu strikuð út. Og ef þeir nú ganga úr skaftinu, þá er jeg ekkert hræddur um, að hörgull verði á öðrum sem vilja gera þetta af þeim áhuga, sem til þess þarf.

Jeg þakka hæstv. atvrh. undirtektir hans undir 1. brtt. mína. Hv. allshn. hefi jeg ekki ástæðu til að þakka. Hún ljet lýsa því yfir, að hún væri á móti öllum till. mínum, en færði engin rök fyrir, hvers vegna hún væri það, og verð jeg að skilja það svo, að hún hafi ekki getað það.

Till. mín um skattfrelsið er aðeins sjálfsögð leiðrjetting á frv. eftir að búið er að færa sjerleyfistímann niður í 5—7 ár. Andsvör hv. frsm. (JBald) á móti þessu voru svo veigalítil, að jeg er ekki hræddur um, að hv. deild taki þau neitt til greina.

Hv. frsm. (JBald) færði þá ástæðu fram á móti 2. brtt. minni, að skip væru skattfrjáls annarsstaðar. En það er ekki nóg; hann verður að leiða rök að, hvers vegna þau eigi að vera skattfrjáls.

Hæstv. atvrh. (MG) efaðist um, að hægt væri að leggja skatt á skipin eftir að þau hefðu fengið tækin og leyfi til að reka stöðvarnar. En það er vel hægt, alveg eins og það má t. d. leggja skatt á bíla, sem fluttir voru inn áður en bílaskatturinn kom til. Jeg skal ekki gera þetta að kappsmáli, en jeg sje þó ekki ástæðu til að undanþiggja skipin skatti, því að skatturinn á ekki að miðast við ágóða sjerleyfishafa, heldur er skatturinn nauðsynlegur sakir almenns kostnaðar við útvarpsstöðina í landi, því hún þarf að útvega sjer „prógrömm“ o. fl. Skipin njóta stöðvarinnar eins og einstaklingarnir, og er því lítil ástæða til að undanþiggja þau skatti, en leggja hann á fátæklinga, sem hafa ráðist í að fá sjer viðtökutæki.

Jeg hefði gjarnan viljað koma með brtt. til að ráða bót á þeim skaða, sem gerður var á frv. við 2. umr., þeim nefnilega, að fjelagið var svift einkarjetti til að selja viðtökutækin, en þingsköp banna það. Það hefði verið langheppilegast, að fjelagið hefði haft þessa einkasölu, því hún hefði getað lækkað árgjöldin til muna. Og ekki þurfa menn að halda, að tækin verði ódýrari, þótt einstaklingar selji þau. Nei, munurinn verður aðeins sá, að þessi 30—40% verslunargróði rennur í vasa einstakra manna, en ekki til stöðvarinnar upp í kostnaðinn við hana. Það hefði þó verið ólíkt rjettara.

Öðru þarf jeg ekki að svara. Aðalástæða mín er sú, að enn hefir engin yfirlýsing sjerfræðinga fengist um það, hve sterk stöðin þurfi að vera, og á meðan svo er, er best að hafa óákveðin ákvæði um það í frv. Og það hefir ekki verið hrakið.