06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3291 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

34. mál, mannanöfn

Flm. (Bjarni Jónsson): Eins og hv. þm. muna, bar jeg fram frumvarp þetta á þinginu 1923. Var það þá samþykt hjer í deildinni við 3. umræðu með 21:5 atkv. En í efri deild varð eitthvað því til trafala, svo það komst ekki gegnum þingið. Við flutning málsins hjelt jeg dálítinn ræðustúf, sem síðar birtist á prenti, fyrst í Alþingistíðindunum og síðar í Skírni.

Jeg býst nú við, að mönnum muni þykja leiðinlegt, ef jeg fer að endurtaka nú alt það, sem jeg sagði þá. Læt jeg því nægja að drepa á aðalatriðin. Jeg benti þá á, að saga þjóðanna sýndi, að engin þjóð hefði verið að nokkru nýt, sem ekki sýndi fortíð sinni og forfeðrum ræktarsemi, og nefndi sem dæmi hina fornu Hellena og fornu Íslendinga. Þá benti jeg og á, hversu hættulegt það væri tungu vorri að gera mannanöfnin endingalaus og kynlaus, og jafnframt gat jeg hins, hve mikill sjóður endurminninga glataðist við þá nýbreytni, ef niður fjellu beygingar nafnorða, er svo mikla sögulega þekkingu hafa að geyma. — Jeg gat þess einnig, hvernig stæði á útbreiðslu hins rómverska nafnasiðar — að undirlægjur Rómverja hefðu tekið hann upp í því skyni að láta sem minst bera á mismun þjóðernanna. Einnig var það alsiða, að leysingjar tækju eftirnafn frelsisgjafa síns. Þá mintist jeg og þess, að Íslendingar, sem nám stunduðu í Kaupmannahöfn, báru oft nöfn, er óþjál voru dönskum tungum, og gerðu því annaðhvort, að nefna sig kenningarnafni sínu eða breyta „son“ í „sen“. Þessi nafnbreyting loddi oft við þá, er þeir komu heim að afloknu námi, og sumum þótti hún jafnvel vera einhverskonar aðalsmerki.

Þetta alt saman var þó aðeins væg landfarsótt, þangað til stefna þessi barst hingað fyrir alvöru frá Ameríku. Öllum mun kunnug vera sú afbökun á íslenskum mannanöfnum, sem lengi hefir átt sjer stað vestan hafs. Jeg man eftir einum manni, sem hjet Guðmundur Bjarnason þegar hann fór vestur, en Barnes skömmu eftir að hann kom þangað.

Þá gat jeg og þess, að ekkert einsdæmi væri það að setja löggjöf um þetta efni. Það hafa meðal annars frændur vorir Austmenn gert, til að setja skorður við fáránlegum fornöfnum. Þeir töldu það ekki ófrelsi gagnvart neinum, þótt bönnuð væru kvenheiti eins og t. d. Rúsína, Mazúrka, Polka eða Closetta, sem komu fyrir þar í landi. Það er að vísu satt, að það er jafnan óyndisúrræði að setja lög til að vernda menn fyrir sjálfum sjer, en úr því vjer höfum reynst svo trygðar- og tírarlausir sem raun er á orðin í þessu efni, þá verður ekki hjá því komist. Hjer er of mikið dýrmæti í húfi til þess að láta það á sig fá, þótt talað sje um ófrelsi í sambandi við tilraunir til að hefta ósómann.

Sumir hafa talið það mentunarleysi af mjer að flytja frv. sem þetta, og aðrir, þeir, sem hafa viljað vera kurteisari, hafa þóst undra sig á því, að svo mentaður maður skyldi flytja annað eins frv. Est mihi tanti — mjer er alveg sama — þótt mjer sje lagt það til lasts, að jeg vil halda fornri og þjóðlegri menningu við, en spyrna á móti uppskafningshætti sníkjumenningarinnar. Þá hefir og verið mikið af því látið, hve mikið ófrelsi þessi lög myndu hafa í för með sjer. Ef þessi lög ná fram að ganga, myndu þau þó fella niður hina eldri löggjöf um þetta efni, sem skyldaði menn til að bera eftirnöfn foreldra sinna, og getur það talist ófrelsi eigi síður en það, sem hjer er farið fram á. Menn ættu líka að minnast þess, að á öllum eða flestum sviðum eru allskonar bönd og bönn, sem flest koma harðar niður á mönnum heldur en ákvæði þessa frv., ef að lögum verður. Rjett er það að vísu, að þessi ákvæði geta komið illa við suma, sem ættarnafn bera, eins og t. d. hv. sessunaut minn (JakM), þótt hvorki sje af rælni nje sjálfskaparvíti, heldur hafa hlotið það að erfðum. Frv. tekur þó ekki harðar á þessu en svo, að þessir menn hafa leyfi til að bera ættarnafn sitt meðan þeir lifa, en afkomendur þeirra hefi jeg ekki getað undanþegið því að fylgja þjóðlegri nafnvenju.

Það vita og allir, að er menn fara til útlanda eða dvelja þar, er oft og tíðum óhjákvæmilegt að breyta nafni sínu á meðan; Jónsson verður Johnsen eða Johnson, og þar fram. eftir götunum, hversu sárt sem oss tekur slíkt. Í slíkri nauðsyn er því engu síður ófrelsi en í ákvæðum frv., enda þótt ekki verði að gert.

Það má líka kynlegt heita, að þau 2% af þjóðinni, sem glæpst hafa á ættarnafnaófögnuðinum, skuli kvarta um ófrelsi og harðræði, er hin 98% vilja bægja þeim frá að spilla tungu og þjóðvenjum með þessum afkárahætti. Það er þó sannarlega miklu meira harðræði heldur en hitt.

Fyrir nokkrum árum kom út bók nokkur, sem rjettu nafni heitir Kleppskinna — og mirabile dictu var gefin út fyrir ríkisfje. „Þagað gat jeg þó með sann, þegar hún Skálholtskirkja brann“, sagði kerlingin. Hjer voru ekki eftirtölurnar. Í bók þessari gefur að líta margt dásamlegt. Er það t. d. ekki yndislegt að fá að heita öðru eins nafni og Ákan? Þá er Akhús ekki leiðinlegt, enda er það vafalaust hús, þangað sem ýmsu er ekið, sem seinna er borið á túnin. Aksel er, eins og allir vita, gott og gilt útlent heiti, en ekki spillir að vita, að hjer er það myndað af ak og sel. Þá er Ábœ; maður er góður á bæ, en hvernig skyldi hann vera af bæ? Einn á að heita Austan. Sumir hjeldu nú, að jeg hefði af strákskap mínum búið til nöfn eins og Austan, Sunnan, Neðan, Ofan o. s. frv., en ekki er nú svo vel; þau er að finna í Kleppskinnu.

Þá er Berfer; en hvers vegna maðurinn gengur svona til fara, veit jeg ekki; líklega af því að hann á ekki föt. Einn heitir Bóls, og á það líklega að vera sama og Bolsi, en þó er hjer um dálítinn anachronismus að ræða, og varla hefir nefndin verið slíkri spádómsgáfu gædd að sjá svo langt framundan sjer. Dýran heitir annar, sbr. „Dýran son hans sáu þær“. Líka má nefna Desmann. Það er að flækjast fyrir mjer vísa, sem þessi fyrri hluti orðs kemur fyrir í, en hjer má ekki fara með hana. — Telja mætti hjer langtum fleiri snilliyrði, en vegna tímans læt jeg hjer staðar numið.

Jeg mun ekki fylgja máli þessu úr garði með lengri ræðu að þessu sinni. Hver sem afdrif málsins verða á þessu þingi, þá mun ekki langt til sigurs sótt. Jeg hefi borið frv. hjer fram í því formi, sem deildin skildi við það fyrrum. Jeg skal þegar lýsa yfir því, að jeg mun halda þessu máli til fullkominnar streitu. Að því kemur, að kosið verður um þetta þjóðernismál, og þá skulum við sjá, hver skjöldinn ber. Jeg er ekki hræddur við þær viðtökur, sem þjóðin mun veita þessum tillögum mínum. Og jeg vona, að hv. deild taki þeim einnig vel nú þegar og lofi málinu að ganga sinn gang, til 2. umr. og allshn.