24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1926

Bjarni Jónsson:

Það er ekkert af því að jeg ætli að gefa nein fávís svör við spurningum þess hávísa þm. (ÁÁ), sem nú lauk máli sínu, sem jeg byrja að tala, heldur af því fáránlega tiltæki, að tveir hv. þm. draga inn í eldhúsdagsumræður till., sem jeg bar fram áður. Jeg gat trúað, að háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) freistaðist til þess, af því að hann var dauður, þegar jeg bar fram till., en sá hávísi þm., sem nú settist niður, hefði átt að ræða till. þá, svo að jeg þyrfti ekki að standa upp sem einhver eldabuska, til þess að verja sjálfan mig. Það kom fyrir hjá einhverjum öðrum hv. þm., að hann rjeðst á fyrri stjórn, en það hefir ekki enn komið fyrir, að ráðist hafi verið á þingmenn, sem eru fullkomlega saklausir af að hafa nokkurn tíma sóst eftir að vera í stjórn, hvað þá heldur, að þeir hafi nokkum tíma verið það. Já, jeg heyri, að hv. þm. Str. (TrÞ) hlær, en það er ekki vert fyrir hann að hlæja, því að hver veit, hvað verður af því, sem er í maga honum, ef hann hlær hátt og mikið.

Þessi hávísi þm. (ÁÁ), sem settist niður nú og sagði, að mín till. væri fávísleg og háskaleg, hjelt fram ýmsum skoðunum um rjettarástand í löndum og rjettarfar. Það kann að vera, að jeg sje fávís, en jeg hygg þó, að það sje ekki leið til neinnar blessunar, að farið sje að hans ráðum.

Svo stóð á, þegar jeg bar fram þá fávísu till., að þá hafði frummælandi talað fyrir till. og hæstv. atvrh. (MG) hafði svarað með því að gefa nákvæma skýrslu um það mál, sem var til umr., en jeg þekki þann mann, sem nú er atvrh., svo vel, að jeg veit, að hann lýgur ekki til, og að hann dró ekkert undan í skýrslu sinni; það veit jeg með sönnu. Og þótt nefnd hefði verið skipuð til að rannsaka stjórnina, þá hefði hún ekki komist að neinni annari niðurstöðu en þeirri, sem hann gaf munnlega. Væntanlega verður sú ræða prentuð í þingtíðindunum, svo að hún komi fyrir almennings sjónir, en hvernig hugsar sá hávísi þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um tryggingu fyrir því, að þeir menn, sem átt hafa að bíða skaða í þessu máli, fengju rjettan sinn hlut! Hann leiddi ekki huga að því, hann var ekki að hugsa um það, hann hugsaði aðeins um að rannsaka stjórnina, en, eins og jeg sagði, er sú rannsókn óþörf, og þá kom jeg með þessa till., sakir þess að það var rjett, að það kæmi fram í þinginu, að stjórnin tjáði sig fúsa til að sinna kærum um þessi mál, af því að þessar löngu og mörgu ræður hafa verið haldnar um það, að stjórnin hafi vanrækt skyldu sína um það að halda uppi lögum og rjetti. Þá gaf jeg stjórninni tækifæri til að lýsa yfir því, að slíkum kærum yrði sint. En hvers vegna ætti að gera undantekningu um þetta eina mál frá þeirri reglu í landi, að þeir, sem hafa orðið fyrir skaða, beri sig upp við dómstóla landsins, hvorki um kröfur um sakamálsrannsókn nje skaðabóta? Hvers vegna á þingið að vera ákærandi í þessu eina máli, en ekki þeir einstöku menn, sem verða fyrir órjetti! Það hefir aldrei verið siður, að þingið færi að ákæra menn, og það hefir víst komið fyrir annað eins og þetta. Það fuku þök af tveim húsum hjer í Reykjavík fyrir nokkrum dögum; það getur verið, að smiðirnir hafi brotið samninga við þann, sem þeir bygðu fyrir; hvers vegna heimtar þingið ekki rannsókn á þeim smiðum? Jeg gæti tekið fleiri tilfelli í landinu, þar sem menn þykjast vera órjetti beittir, og þá fengi þingið nóg að gera, og þá býst jeg við, að það kæmi fram, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, þegar hann var að líkja þinginu við málaflutningsmenn, sem reittu af mönnum æruna fyrir fáeina skildinga. Kannske hann álíti það bót á rjettarfarinu ? Það hefir hjá okkur fávísu mönnunum ætíð verið talinn vottur þess, að ekki væru mikil brögð að afbrotum, ef enginn fæst til að kæra; þá eru ekki líkur til, að nokkur stórkostlegur órjettur sje framinn, og þessi fávísa till. mín átti að benda til þess, að mönnunum væri óhætt að koma með sínar kærur til yfirvaldanna, þeim yrði sint. Hvað vill hv. þm. (ÁÁ) meira? Hann vill ekki tryggja betur hag þeirra manna, sem urðu fyrir einhverjum óhag við þessa síldarverksmiðju, og ekki við þessa einu, heldur fleiri, sem notuðu mál, sem menn segja að væru of stór. Jeg skal trúa því og hvorki verja þær nje ásaka, en þessi till. mín, sem hv. þm. (ÁÁ) taldi fávísa, hún tryggir það, að rjetti þeirra, sem fyrir því urðu, geti ekki orðið traðkað, og þess vegna gætu þessir menn farið af stað, ef það væri af hugleysi, að þeir hefðu ekki kært áður. Annars skal jeg geta þess, viðvíkjandi þinginu sem ákæranda, að það hafa verið margir merkir málaflutningsmenn í veröldinni, bæði fyr og síðar, og meðal þeirra var Cicero. Hann flutti eitt merkilegt mál fyrir Sikileyjarbúa; annars voru allar ræður hans varnarræður, er hann hjelt í þinginu. Það eru margir menn, sem líta svo á, að það sje fremur góðs drengs verk að afsaka menn en ákæra. Þingið ætti sjerstaklega að fara varlega í þessu efni, einkum vegna þess, að engin skjalleg sönnun liggur hjer fyrir uni það, að nokkur órjettur hafi verið framinn. Það hefir ennþá enginn af viðskiftamönnum þessarar verksmiðju snúið sjer til þingsins, hvorki með ákæru, umkvörtun nje beðið það hjálpar. Nokkrir einstakir þingmenn halda því að vísu fram, að maður þessi sje sannur að lögbrotum. En jeg sje ekki ástæðu til þess, að þingið fari að taka það trúanlegt, þótt einstöku þm. haldi þessu fram ósönnuðu. Ef þingið á að fara að taka slíkt hjal trúanlegt og krefjast sakamálsrannsóknar, gerir það sjálft sig að dómara um leið og það ákærir; og þingið hefir aldrei verið fært um að fara með slík mál. Jeg mun því aldrei fara svo heimskulega með mitt atkvæði að kasta því á glæ til þess að heimta rannsókn gegn manni, sem jeg hefi enga ákæru sjeð á. Maðurinn getur vel verið sekur fyrir því, en þingið á ekki að skifta sjer af algerlega órökstuddum ákærum á einstaka menn. Það væri stórkostlegt brot á rjettarvenjum í landinu, því að þetta er verk dómaranna; til þess eru þeir settir að líta eftir slíku, enda mundi þetta og leiða til þess, að rjettaröryggið í landinu yrði stórum verra og hafa hin verstu áhrif á alt rjettarfar. Þingið gæti heldur aldrei rannsakað hvorki þetta mál nje annað til hlítar. Það yrði aðeins til spillingar rjettarfars og rjettarmeðvitundar almennings, ef þingið yrði glapið svo, að það fari að skifta sjer af málum, sem það varðar ekki hót.

Þó að jeg sje fávís, mun jeg ekki biðja hinn hávísa þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um fræðslu í þessu efni eða hvernig jeg eigi að fara með atkvæði mitt Jeg geri mig aldrei sekan í því að ljá atkvæði mitt til þess, að þingið hefji ákærur að órannsöknðu máli. Tillaga mín til rökstuddrar dagskrár var fullnægjandi til þess að rjetta við rjettaröryggið; til þess að þeir, sem áður hafa ekki haft kjark til þess að leita rjettar síns, mundu nú gera það, er þeir vissu, að því mundi verða sint. Háttv. þm. kallaði tillögu mína fávísa; gæti hann að sjálfum sjer og hvað hann hefir fram borið hjer á þingi, er hann kemur næst fyrir dóm þjóðarinnar og sinna kjósenda, þessi hávísi þingmaður.

Til hvers mundi það leiða, ef þingið gerðist opinber ákærandi! Veit hann ekki, hinn hávísi, að löggjafarvald og dómsvald er aðskilið og er alveg sitt hvað ? Það lítur alls ekki út fyrir, að hinn hávísi viti þetta! Hann segir, að stjórnin muni ekki sinna kærum, þótt þær komi fram; en við hinir álítum, að stjórnin mundi jafnvel taka upp hjá sjálfri sjer að rannsaka þetta mál, þó að engin kæra kæmi fram, og þetta er enginn fávís skilningur á minni tillögu. Hann var að tala um þingnefnd, sá hávísi. Ætli þessu máli færi þá ekki líkt í þeirri nefnd eins og skólamálinu, sem var hrækt á brott með órökstuddri dagskrá.

En viðvíkjandi því, sem annar hv. þm. var áðan að vitna í söguna og nefndi sem dæmi danska höfuðsmanninn hjer á landi sem tók upp hjá sjálfum sjer að rannsaka mál, þótt ekki hefðu kærð verið. Jeg skal nefna þessum hv. þm. annað dæmi og eldra nokkuð úr okkar sögu. Jeg man ekki betur en það væri Kristján skrifari, sem tók upp hjá sjálfum sjer að rannsaka sjálfur, dæma og láta hálshöggva Jón biskup Arason og syni hans; og jeg man ekki betur en að þeir, sem drápu Kristján skrifara til hefnda eftir Jón biskup, yrðu að fara landflótta til Englands og Hollands fyrir þessu ágæta danska valdi, sem ofsótti þá, er vörðu rjett sinn. Jeg gæti nefnt háttv. þm. mörg slík dæmi og ágæt, og er jeg þó ekki sögufróður eða hávís. Jeg álít þá rjettarfarinu vel borgið, er kærum þeim verður sint, er fram koma, en hitt, að þingið fari að hlaupa upp til handa og fóta, þó að frjett berist þangað um, að einhver hafi beðið tjón í viðskiftum við annan mann, eða leggja eyru að fleipri og ósönnuðum frjettaburði, það er fávísi og ekki annað.