14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3335 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

34. mál, mannanöfn

Forseti (HSteins):

Út af því, sem hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) sagði, verð jeg að taka það fram, að jeg lít svo á, að þótt þau ákvæði, sem voru í þeirri brtt., er feld var í gær, komi fram í þessari brtt., þá innibindi þessi brtt. meira í sjer en það, sem fólst í brtt., sem borin var fram í gær. Þess vegna álít jeg það fullheimilt samkv. þingsköpunum að láta þessa brtt. koma til atkvgr.

Það er nýtt, sem hjer stendur: „enda hafi þau ættarnöfn, sem yngri eru en frá síðastliðnum aldamótum, verið tekin upp með löglegri heimild, sbr. 9. gr. þeirra laga.“

Sömuleiðis er og nýtt eftirfarandi ákvæði:

„Konur þeirra manna, sem rjett hafa til þess að bera ættarnafn, mega nefna sig ættarnafni manns síns.“

M. ö. o. hjer er bæði um orða- og efnisbreyting að ræða frá þeirri brtt., sem áður lá fyrir, og verður þar af leiðandi að teljast löglegt að láta þessa brtt. koma til atkvgr.