08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Jón Kjartansson:

Háttv. frsm. (JBald.) gat um ágreining, sem orðið hefði í allsherjarnefnd út af því, hvernig haga skyldi skipun þeirrar nefndar, sem ætlað er að tilnefna sáttasemjara. Samkv. 1. gr. frv. er ætlast til, að sú nefnd sje skipuð mönnum, sem gæti hagsmuna þeirra aðilja, sem hlut eiga að deilunni, auk eins, sem hlutlaus á að vera. Það er gert ráð fyrir, að allsherjarfjelög vinnuþega og vinnusala skipi 5 fulltrúa hvort, en stjórnir Búnaðarfjelagsins og Fiskifjelagsins í sameiningu tilnefni 11. manninn, sem vitanlega á að vera hlutlaus og auk þess formaður nefndarinnar. Þetta fanst tveimur okkar nefndarmanna ekki heppilegt, m. a. af því, að ekki er ákveðið í greininni, hvað gera skuli, ef stjórnir þessara fjelaga geta ekki orðið á eitt sáttar. Svo gæti farið, að 11. maðurinn yrði ekki skipaður og að atvrh. yrði að skipa sáttasemjara, án þess að fá tillögu frá nefndinni. En aðalástæða okkar er sú, að með þessu fyrirkomulagi væri ekki trygt, að hlutlaus maður yrði kjörinn. Þessi fjelög skifta nokkuð oft um stjórn, og það væri óheppilegt, ef reynt yrði að koma mönnum í stjórn þeirra með tilliti til þess, hvernig þeir myndu velja í þessa nefnd. Við álítum því heppilegra, að hæstarjetti yrði falið að útnefna þennan fulltrúa. Sú stofnun ætti að vera hlutlausust allra í þessu efni. Það er ekkert nýtt, þótt hæstarjetti sje falin útnefning fulltrúa, þegar líkt stendur á, og verður að telja þá tilhögun heppilegasta. Svo var gert t. d. þegar skipuð var rannsóknarnefndin á Íslandsbanka um árið.

Jeg held, að heppilegast verði að samþykkja þessa brtt. okkar, einkum til þess að koma í veg fyrir, að þetta mál geti haft áhrif á kosningu í stjórn Búnaðarfjelagsins og Fiskifjelagsins.