08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir rjett, af því jeg er annar flm. þessa frv., að þakka hv. allsherjarnefnd fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefir lagt í frv. Að vísu hefði jeg óskað, að það hefði verið fyr á ferð, en nefndin mun hafa haft mörgu að sinna, og skal jeg því ekki átelja hana. Jeg finn ekki ástæðu til þess að þykkjast neitt, þó að nefndin hafi gert miklar breytingar á frv. Jeg tók fram upphaflega, að það væri samið í flýti og að mestu sniðið eftir útlendri löggjöf. Yfirleitt tel jeg til bóta þær breytingar, sem nefndin hefir gert, og jeg lýsi ánægju minni yfir því, hve ant hún hefir látið sjer um frv. Um það atriði, sem nefndina greinir á um, hvernig oddamaður skuli skipaður, skal jeg taka fram, að mjer er alveg sama, hvor leiðin verður farin. Þegar jeg þýddi frv., varð jeg að tilnefna einhverja aðilja, af því að þeir aðiljar, sem fyrirmyndin hafði, voru ekki til hjer. Mjer datt hvorttveggja í hug, hæstirjettur og þau fjelög, sem jeg tilnefndi. Jeg hefi ekkert á móti því, að hæstirjettur sje valinn, ef það þykir heppilegra. Aðalatriðið er þetta, að skipulag um sáttasemjara komist á. Allir, sem fylgjast með atburðum erlendis, vita, að þar hafa átt sjer stað ákafar vinnudeilur. Starfsemi sáttasemjaranna hefir reynst þar ágætlega, og á fáum sviðum mun okkur nauðsynlegra að líkja eftir erlendum þjóðum en einmitt um þetta. Jeg tek undir það, að nauðsynlegt sje, að þetta frv. gangi fram sem fyrst. Það hefir þegar verið undirbúið rækilega. Því fyr sem þetta kemst á, því betra.