05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög 1926

Eggert Pálsson:

Jeg á 3 brtt. á þskj. 447 og þarf því að fara um þær nokkrum orðum.

Hin fyrsta þeirra er IV. á þskj. 447. Jeg bar fram brtt. við 2. umr. um þetta sama efni, en fór fram á hærri upphæð þá. Jeg geri ráð fyrir, að í þetta sinn hafi jeg stilt kröfunum svo í hóf, að þessi upphæð, sem jeg nú fer fram á að verði veitt, mæti engri mótspyrnu í hv. deild. Jeg vænti og þess, ef þetta verður samþykt, að háttv. Nd. lofi því að standa, en fari ekki að krukka neitt í þessa fjárveitingu.

Í sambandi við þessa brtt. mína stendur brtt. á þskj. 456, frá háttv. 5. landsk. (JJ), um sama efni, og veit jeg, að háttv. þm. gengur gott eitt til að bera hana fram, og sömuleiðis viðurkenni jeg, að í till. hans felst allmikil umbót frá því, sem er. En hinsvegar er hjer um svo litla upphæð að ræða, að það tekur því ekki að setja um hana þessháttar reglur, sem felast í brtt. hans. Jeg geri mjer og von um, að styrkurinn hækki fremur en lækki framvegis, og gæti því brtt. hv. 5. landsk. (JJ) verið bending um, hvernig þessu skuli háttað eftirleiðis. En meðan samgöngurnar eru ekki betri en þær eru nú, þarf þessa ekki við. Jeg vil því mælast til þess af hv. flm. till. (JJ), að hann taki brtt. sína aftur í þetta sinn og láti sjer nægja, að framkoma þessarar brtt. hans verði skoðuð og tekin til greina sem bending um, hvernig þessu skuli háttað í framtíðinni.

Svo er hv. 5. landsk. ekki það kunnugur austur í sýslum, að hann viti með vissu um, hvort þessi skifting á styrknum milli sýslnanna er rjettlát eða ekki (3/5 til Rangárvallasýslu og 2/5 til Árnessýslu). Jeg er t. d. ekki alveg viss um, að svo sje. Þó að brtt. geti rjettlæst í tilliti til hlutfallsins milli vegalengdanna í sýslunum, er þó þess að gæta, að flutningar allir eru hlutfallslega miklu dýrari í Rangárvallasýslu en í Árnessýslu. Vegirnir eru miklu lakari og erfiðari til þessara flutninga í Rangárvallasýslu, sjerstaklega í Holtunum og á Rangárvöllum. Og gerir þetta að verkum, auk annars, að miklu meira bensín eyðist við bílflutninga um þær slóðir en annarsstaðar. Svo ætla jeg ekki að ræða frekar um þetta að sinni.

Þá kem jeg að XIII. brtt. á þskj. 447, um að hækka styrkinn til sandgræðslunnar. Það segir sig sjálft, er jeg breyti þessum lið aðeins, en ber ekki fram till. um nýjan lið, að jeg er fallinn frá því, sem jeg ætlaðist fyrir með brtt. minni við 2. umr., enda geta allir háttv. deildarmenn sjeð, að 5 þús. kr. mundu hrökkva skamt til að byggja upp á Stóruvöllum fullkomin mannahíbýli. Það, sem hjer er átt við, er það, að eitthvað af þessari viðbótarupphæð mætti nota til að koma þar upp dálitlu hlöðuhúsi eða skýli yfir melgresi. Búnaðarmálastjóri telur alveg nauðsynlegt, að safnað sje melfræi á Stóruvöllum vegna sandgræðslunnar. En það er ekki hægt að gera slíkt á annan hátt en með því að slá blöðkuna og þurka og geyma í húsi og þreskja síðan að vetrinum. En þetta er ekki unt að framkvæma, nema þarna sje eitthvert geymsluhús til. Jeg hygg, að uppkomin hlaða á Stóruvöllum eða annarsstaðar þar í grend ætti ekki að kosta nema t. d. eitthvað á annað þúsund krónur. Efni er þar talsvert við hendina í veggi hússins, þ. e. hraungrýti, og þyrfti því ekki að kaupa og flytja að annað en timbur og járn í þakið, og svo eru verkalaun þeirra, sem að þessari húsbyggingu störfuðu; fleira ætti ekki að þurfa að leggja í kostnað vegna þessa. En þó hefi jeg áætlað þessa viðbótarupphæð talsvert hærri en sem nemur hlöðubyggingunni, og stafar það af því, að mjer er kunnugt um, að á nokkrum stöðum á Rangárvöllum er sjerstök nauðsyn á, að hlaupið sje undir bagga með mönnum til þess að viðhalda býlum þeirra, og það sem fyrst. Búnaðannálastjóri hefir lagt það til, að sandgræðslustyrkurinn gangi mestmegnis til sandgræðslu á Landinu og máske á Eyrarbakka og í Bolungarvík, en nefnir ekki neitt til Rangárvelli, er þurfi skjótra aðgerða við. En á Rangárvöllum eru einmitt nokkur býli eða jarðir, sem eru alveg að fara í auðn vegna sandfoksins, og þurfa því skjótra aðgerða við.

Í blöðunum hjer í Reykjavík birtist nýlega grein um Keldur á Rangárvöllum, þetta stórmerka býli alt frá fornöld, sem væri í mikilli hættu af sandinum. Þess er því mikil þörf, að eitthvað sje gert til að verja þetta forna höfuðból fyrir ágangi sandsins, en til þess hefir ennþá ekki verið ætlað neitt fje í fjárlögum eða annarsstaðar frá.

Ennfremur er annað stórbýli þar á Rangárvöllum, sem sandurinn er þegar langt kominn með að leggja í auðn. Það er Reyðarvatn. Það hefir ávalt verið stór jörð talin og stórbændur og góðir menn og gegnir hafa ávalt búið þar á öllum tímum, en nú er sandurinn að verða þar öllu yfirsterkari. Þar hagar svo til, að skamt frá bænum rennur lækur, er heitir Reyðarvatnslækur í fyrstu, en síðar, er lengra dregur burtu, Varmadalslækur, og er allstórt vatnsfall, sem flestir þekkja, er hafa farið um Rangárvallasýslu. Yfir þennan læk hefir sandurinn ekki komist ennþá, og kemst vonandi aldrei, þar eð lækurinn ber jafnharðan sandinn út í Rangá og svo til sjávar. Hinumegin læksins er þegar búið að rækta nokkurt land og flytja þangað öll fjenaðarhús. En sjálfur bærinn á Reyðarvatni er nær allur kominn í sand og þarf að flytjast fram yfir lækinn. Búandinn á Reyðarvatni er orðinn gamall og því lítt fær lengur hjálparlaust að glíma við sandinn, og er viðbúið, ef ekki verður að gert, að hann verði að flýja jörðina, og er þá óvíst, að hún verði bygð aftur fyrst um sinn, því að jörðinni íbúðarhúslausri, eða sama sem, þar sem íbúðarhúsið er í sjálfum sandskaflinum, getur enginn gengið. En ef jörðin yrði húsið upp aftur, er þetta þó kostajörð ennþá. Þar má enn framfleyta 5–6 kúm og mörgum hundruðum sauðfjár, því slægjur eru enn talsverðar eftir á jörðinni og sömuleiðis beit. Það væri því næstum sárgrætilegt, ef þessi gamli maður verður nú að hrekjast burt af föðurleifð sinni, þar sem forfeður hans hafa svo margir búið á undan honum, og er auk þess ilt til afspurnar, að jafnblómlegt og gott land, sem þó er þar ennþá eftir, skuli vera látið standa ónotað. Jeg hygg, þrátt fyrir það, að þessi bóndi er nú aldraður orðinn, að hann myndi þó enn geta gert jörðina vel hyggilega, ef hann fengi einhverja fjárhagslega hjálp til að flytja bæ sinn yfir þennan læk, sem jeg nefndi áðan, því þótt maðurinn sje gamall, er þó oft, að nokkur kraftur býr til lengstu laga í gömlum og góðum taugum. Þess hefði að vísu mátt vænta, að Búnaðarfjelag Íslands legði eitthvað af mörkum í þessu skyni. En það mun ekki þykjast hafa fje aflögu. En fengist þessi brtt. samþykt, væri það þó betra en ekki, því jafnvel þó að þetta fje komi ekki strax til útborgunar, mundi þó vonin ein um þennan styrk koma að gagni, ef víst væri, að hann fengist síðar. Mjer hefir því dottið í hug, að af þessari viðbótarupphæð mætti t. d. veita 2 þús. kr. í þessu skyni. Það væri óneitanlega fallega gert að veita þessa hjálp; það mundi áreiðanlega bjarga bæði manninum sjálfum frá því að flýja jörðina, og jörðin sjálf hefði og gott gagn af því, auk þess sem það er sveitarfjelaginu styrkur, að jörðin áfram haldist bygð. Ef jörðin fer í auðn, er sveitarfjelagið svift .þeim styrk, sem liggur í því, að góðir bændur haldist við á búum sínum, eins og jafnan hefir átt sjer stað að því er Reyðarvatn snertir. Þetta er það, sem fyrir mjer hefir vakað, er jeg nú ber þessa brtt. fram, að auk hlöðubyggingarinnar væru það þessar tvær jarðir, sem ættu að njóta góðs af þessu fje. Og ætlast jeg þá til þess beinlínis, ef þessi viðbótarstyrkur til sandgræðslunnar verður samþyktur og fær að standa, þá verji sandgræðslustjórnin 2 þús. kr. til þess að styrkja ábúanda Reyðarvatns til bæjarflutningsins. Jeg álít þess svo ekki þörf að fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess af háttv. deild, að vel verði í þetta tekið og brtt. samþykt.

Þá kem jeg að XXIII. brtt. á þskj. 447, og stendur svo á henni, að jeg hefi sjeð og heyrt, að ríkið hefir oft orðið vel við því að taka á sig ábyrgð fyrir lánum bæði til hjeraða, sveitarfjelaga og stundum einstakra manna til ýmsra fyrirtækja, þótt stofnuð hafi verið í fjáraflaskyni, ef talið hefir verið, að fyrirtækin á einn eða annan hátt miðuðu til heilla almennings. Þó að hjer sje aðeins einstaklingur tilnefndur að hljóta þessa ábyrgð, er það hjer um að segja, að þessi kona, er hjer ræðir um, er að svo góðu kunn, að allir hljóta að játa, að enginn einstakur maður eigi slíkt fremur skilið, því að þess mun leit, að nokkur hafi látið sjer annara um að efla og styrkja íslenskan heimilisiðnað en einmitt þessi kona, sem hjer ræðir um. Hv. 6. landsk. þm. (IHB) taldi ekki þörf á að veita þennan styrk, þar eð Thorvaldsensbasarinn hefði á hendi sölu á þessum hlutum. En það, sem hjer vakir fyrir þessari konu, er frekar að kaupa munina en taka þá til geymslu og umboðssölu. Hún álítur, að með því að kaupa þessar vörur geti hún hleypt meira fjöri í og vakið áhuga manna fyrir þessum iðnaði heldur en þó að hún gæfi mönnum kost á umboðssölu fyrir þá. Ennfremur ætlast hún það fyrir, að senda vörur til útlanda, einkum til Danmerkur og Norðurlanda, til þess að kynna íslenskan heimilisiðnað á erlendum markaði. Um það, að hjer verði ekki lagt neitt í hættu af hálfu ríkissjóðs, held jeg sje óhœtt að treysta hæstv. stjórn til að sjá um, að minsta kosti hæstv. fjrh. (JÞ). Hann mun vart veita nokkur lán, hvort heldur það er þessi kona eða aðrir, sem eiga í hlut, án þess að full trygging komi á móti láninu. Þess vegna tel jeg alls ekkert varhugavert við það, að þessu verði bætt við allar aðrar láns- eða ábyrgðarheimildir til stjórnarinnar í fjárlögunum. Aftur á móti, ef till. hæstv. fjrh. um að strika í burtu úr fjárlögunum allar heimildir til stjórnarinnar um að ganga í slíkar ábyrgðir verður samþykt, þá mun jeg auðvitað sætta mig við, að þessi till. sæti sömu forlögum. Og með tilliti til þess teldi jeg rjettast, að hæstv. forseti bæri fyr upp til atkvæða brtt. hæstv. fjrh. (JÞ), enda þótt jeg viti ekki, hvort þingsköpin heimila slíka tilfærslu.