13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2238)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er vitanlega rjett að fresta aðalumræðum um þetta mál, þar til það kemur frá nefnd.

Hæstv. forsrh. (JM) gat þess, að jeg hefði talað um mál þetta frá sjónarmiði kennarastjettarinnar, en það er alls ekki rjett. Jeg tek hjer til máls af því, að jeg þekki fleiri barnakennara en þeir, sem frv. flytja, og veit, að kjör þeirra eru mjög erfið, svo erfið, að margir þeirra eiga mjög bágt með að framfleyta sjer og fjölskyldu sinni. Jeg hefi því ekki talað um þetta mál frá sjónarmiði neinnar stjettar, heldur að eins frá sjónarmiði rjettlætisins, og viljað reyna að hindra, að byrjað væri að spara á öfugum enda.

Hæstv. forsrh. sagði, að í frv. væri einungis átt við hámark kenslustunda, en jeg fæ ekki sjeð, að ákvæði frv. verði öðru vísi skilið, en átt sje þar við lágmark. Þessu má vitanlega breyta. Um lengd kenslustundanna tel jeg, að rjettara væri að láta skólanefndir setja ákvæði, en að löggjöfin hafi þar íhlutun.

Þá fanst hæstv. ráðherra, að jeg væri með áreitni í garð sparnaðarnefndarinnar. Sje nú svo, að það sje ekki vandi minn að vera með áreitni í garð annara, eins og hæstv. ráðherra sagði, og síst fjarstaddra manna, og hafi jeg hjer verið þungorður, þá verður það ekki á annan veg skilið en að full ástæða hafi verið til. Nei, óhreinskilnin kemur ekki aðeins fram í þessu efni hjá háttv. sparnaðarnefnd, heldur hefir hún komið fram hjá mörgum öðrum nú undanfarið, sem grafa undan allri alþýðufræðslu, og fullyrða þó um leið, að þeir sjeu að vinna gott verk. En við kennararnir kysum heldur, að höggvið væri á stofninn meðan hann er ófúinn, heldur en hann sje kvistaður, þar til hann fellur af sjálfu sjer. Þetta kemur einmitt hvergi betur fram en í greinargerð nefndarinnar; þar er víða að finna orð eins og t. d. „ekki óeðlilegt“, „óheppilegt“, „ekki loku skotið fyrir“, „ekki ósennilegt“ o. fl. Þessi orðatiltæki eru einmitt orðskviðir óhreinskilninnar.