05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1926

Guðmundur Ólafsson:

Það hefir að mestu verið ljett af mjer ómakinu að taka hjer til máls. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir leiðrjett misskilninginn viðvíkjandi brtt. á þskj. 447,XXIV, um eftirgjafir lána, og þarf jeg ekki að fara um það frekari orðum. En það er annað atriði hjer, sem jeg get ekki stilt mig um að minnast á. Það er till. þeirra háttv. 1. þm. Rang. (EP) og háttv. þm. Snæf. (HSteins) um ábyrgð til handa Halldóru Bjarnadóttur til þess að stofna verslun með heimilisiðnaðarvörur. Það er næstum hálfspaugilegt, hvað mörgum hv. þdm. virðist mikil þörf að mótmæla þessu. Og eins lagði hv. frsm. (JóhJóh) mikla áherslu á það að fá deildina til að líta svo á, að fjvn. væri öll á einu máli um að neita um þetta. Þessu vil jeg neita fyrir mína hönd og jafnvel fleiri í nefndinni. Það er ekki venja að mótmæla till. fyr en búið er að tala fyrir þeim, en svo hefir þótt mikið við liggja hjer, að einn hv. nefndarmanna talaði á móti till. áður en hv. flm. hefðu mælt fyrir henni. Það er nokkuð undarlegt, ef á að heimfæra þetta fyrirtæki undir einkasölu, eins og hv. 1. landsk. (SE) gerði. Hann talaði um, að stjórnarflokkurinn hefði klofnað í málinu, með því að tveir hv. þm. úr þeim flokki beri till. fram, en tveir hafi lagst á móti. háttv. frsm. (JóhJóh) og hv. 6. landsk. (IHB). Annars var ekki annað, sem hv. þm. sagði til andmæla, en tómt rugl og endileysa. Hann var að tala um, að hjer væri stofnað til einkasölu, þó vitanlegt sje, að einungis sje um heimild að ræða til að ábyrgjast lán gegn fullri tryggingu handa þeim einstaklingi, sem manna mest hefir gert og lagt á sig fyrir íslenskan heimilisiðnað. Mun enginn ætlast til, að ábyrgð þessi sje veitt, nema fulltryggilega sje gengið frá því, svo að ríkissjóði verði ekki að tjóni.

Þó tilætlunin hjá hv. 1. landsk. hafi verið sú, að láta líta svo út, sem þetta mál myndi kljúfa stjórnarflokkinn, þá er víst enginn flokkur klofnari, hvorki í þessu nje nokkru öðru máli, heldur en einmitt flokkur hv. þm. (SE). Sýnir þetta aðeins, hvað ósanngirnin og fjarstæðurnar geta gengið langt.