05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1926

Eggert Pálsson:

Jeg get verið háttv. frsm. (JóhJóh) þakklátur fyrir ummæli hans og undirtektir undir sumar af brtt. mínum, t. d. þá á þskj. 447,IV, og að nokkru leyti brtt. XIII á sama þskj. Fengu báðar þessar brtt. öllu betri undirtektir en jeg hafði leyft mjer að gera mjer vonir um eftir það, sem á undan var gengið. Get jeg eftir ummælum hv. frsm. vænst þess, að hann og fleiri samnefndarmenn hans greiði brtt. þessum báðum atkv. nú við 3. umr.

Hinsvegar get jeg skiljanlega ekki þakkað hv. frsm. fyrir ummæli hans um brtt. XXIII á þskj. 447, eða fyrir orð þau, sem hann ljet falla í minn garð í sambandi við hana. Eins og hv. þm. hafa heyrt, þá álítur hv. frsm., að við höfum ekki komið fram sem góðir og trúir Íhaldsmenn í þessu máli, og tók háttv. 1. landsk. (SE) í sama streng. Kom þeim saman um, að við, sem flytjum þessa brtt., hefðum með flutningi hennar þverbrotið stefnu eða „princip“ Íhaldsflokksins. En við skulum nú athuga þetta nánar. Fyrst og fremst verður nú ekki talið, að í brtt. okkar felist nokkurt vantraust á hæstv. stjórn, en trúnaður við hana hlýtur að vera grundvöllur undir stefnu hvers stjórnarflokks. Hjer er ekki nema um ábyrgðarheimild að ræða, og við treystum einmitt hæstv. stjórn til að veita ekki ábyrgð ríkissjóðs, nema fulltrygt sje, að lánið verði greitt. Þá get jeg heldur ekki viðurkent, að um brot á verslunarfrelsi sje hjer að ræða. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að við hliðina á þessari verslun geti risið upp aðrar samskonar verslanir, sem þeir menn stofni, sem kringumstæður hafi til þess og ekki þurfa að leita til ríkissjóðs um aðstoð. Sannleikurinn er sá, að við flm. brtt. erum svo góðir fylgjendur frjálsrar verslunar, að við viljum, að samkepni geti átt sjer stað. Annars skal jeg lýsa yfir því, út af þeim orðum, sem hjer hafa fallið um það, að með þessu væri Thorvaldsensfjelaginu sýnd ónot, að tilætlun mín með þessu var fyrst og fremst sú, að þessi væntanlega verslun opnaði markað fyrir heimilisiðnaðarvörur okkar erlendis, en það er næsta lítið, sem Thorvaldsensfjelagið hefir unnið að slíku. Það hefir látið sjer nægja að selja það, sem selt hefir orðið hjer heima, og til þeirra útlendinga, sem komið hafa hingað til lands. En jeg býst við, að ef þessi nýja verslun kemst á fót, þá muni verða kappkostað að láta útlendinga hafa greiðan aðgang að þessum vörum, og þá væntanlega sett upp útibú erlendis í því augnamiði, sjerstaklega í Danmörku. Myndi þá eftirspurn aukast mjög eftir íslenskum iðnaðarvörum, og afleiðing þess yrði þá aftur sú, að meira yrði framleitt af þeim í landinu. Nú sem stendur geta menn ekki gert sjer vonir um að selja nema sjal og sjal og par og par af sokk um, annað er flest sent heim aftur, því eftirspurnin er lítil og ekkert gert til að glæða hana. En meðan svo er ástatt, er þess ekki að vænta, að áhugi manna úti um land fyrir auknum heimilisiðnaði sje mikill. Hvötin kemur hjá fólkinu fyrst, er það getur vænst árangurs af iðju sinni. Jeg held því, að það, sem okkur flokksmennina skilur, sje það eitt, að við, sem að brtt. stöndum, höfum í þessu efni víðari sjón en hinir og meiri skilning á því, hvað hægt sje að gera og hvað nauðsyn beri til að gera heimilisiðnaðinum til þrifa og blómgunar. En það væri ómannlegt að álasa þeim fyrir það, þó þeir hafi ekki eins opin augu fyrir þessu eins og við.

Þá vil jeg í fám orðum minnast á ágreining minn og hv. 5. landsk. (JJ) um styrkinn til bifreiðaferða austur í sýslur. Jeg verð að segja, að mjer finst óviðkunnanlegt, að hann komi með brtt. um þetta, öllum hlutaðeigandi að óvörum, og sem vi8 höfum ekki fengið færi á að átta okkur á, þó hún kunni að hafa mikið til síns máls. Hinsvegar get jeg ekki fallist á, að nauðsynlegt sje að skilja brtt. svo, að ef hún verði samþykt, þá sje hæstv. stjórn bundin við að semja aðeins við eitt bifreiðafjelag. En eins og jeg tók fram, þá þykir mjer lakara, hve brtt. þessi kom öllum að óvörum, og neyðist jeg því til að greiða atkvæði á móti henni, þó jeg að vissu leyti geri það á móti samvisku minni.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 447,11, um styrk til augnlækninga handa Guðmundi lækni Guðfinnssyni. Jeg vil undirstrika það, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði um þetta, að jeg ber fylsta traust til þessa læknis, en jeg tel samt sem áður mjög óviðkunnanlegt, að Alþingi skuli vera að ákveða, hver fái þennan styrk, og grípa þannig fram fyrir hendur hæstv. stjórnar. Getur slíkt haft ýmisleg óþægindi í för með sjer. Má benda á, að ekki situr altaf sama stjórn við völd, og mætti því fara svo, að sterkasti flokkurinn í þinginu rjeði því hverju sinni, hver hlyti svona styrk. Langsamlega rjettast væri, að stjórnin rjeði því í samráði við háskólann. Og hvað þessari umræddu brtt. viðvíkur, þá verð jeg að láta það í ljós, að hversu mikið traust, sem jeg hefi á Guðmundi Guðfinnssyni, þá hefi jeg heldur enga ástæðu til að vantreysta núverandi styrkþega og finst sem honum sje óvirðing sýnd með því að binda styrkinn við nafn annars manns.