11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

87. mál, einkasala á saltfiski

Björn Líndal:

Jeg gerði varla ráð fyrir að taka til máls um frv. þetta, enda hefði það verið allra hluta rjettast að láta það fara sama veginn og í fyrra, og drepa það hljóðalaust. Þó vil jeg, úr því sem komið er, leyfa mjer að benda á örfá atriði í ræðu hv. flm.

Hv. flm. talaði mjög um, hversu miklir gallar væru á fisksölunni, og skal jeg ekki deila við hann um það. En þó að jeg telji mig ekki hafa mikla þekkingu á þessu sviði, þá er mjer samt kunnugt um það, að íslenskur fiskur gengur hæsta verði á heimsmarkaðinum, svo að gallarnir eru þó að minsta kosti einhversstaðar meiri en hjer.

Hv. flm. gerði mikið úr því, að hæstv. atvrh. teldi sig ekki geta tekið að sjer fisksöluna. En nú vil jeg benda hv. þm. á, að það er nokkuð ólíku saman að jafna, að hafa stjórn ríkisins á hendi eða sölu á fiski. En það er skiljanlegt, þó að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) kunni ekki að gera greinarmun á þessu tvennu, því að það er alkunna um jafnaðarmenn, að ef þeir hafa lítilsháttar vit á einhverju máli, þá halda þeir sig hafa vit á öllum hlutum.

Annars væri óskandi, að ekki yrði löngum tíma eytt til þessa máls. Það er hvort sem er vonlaust, að það fái nokkurt fylgi.