13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

48. mál, friðun rjúpna

Frsm. minnihl. (Árni Jónsson):

Jeg geri ráð fyrir, að hjörtu hv. þdm. sjeu þegar farin að slá nokkuð ört við umræðu þessa máls. Það var eitthvert heitasta mál á síðastliðnu þingi, og eitthvert mesta deilumál, sem jeg hefi hlustað á umræður um á þessu háa Alþingi.

Eins og sjá má af þskj. 75 og 137, hefir nefndin ekki getað orðið sammála. Minnihl. hefir ekki getað sjeð, að nokkur ástæða sje til breytinga á lögunum, og hefir ekki getað fallist á, að rökin í greinarg. með frv. hafi yfirleitt við neitt að styðjast. Helsta ástæðan, sem þar er færð fram, er sú, að rjúpnaveiðar í október tefji menn um of frá haustverkum, og þessvegna þurfi að banna þær með lögum. En þetta fellur um sjálft sig, meðan ekki er sannað, að menn sjeu haldnir þvílíkri drápgirni, að þeir hlaupi frá skyldustörfum sínum til að fullnægja henni, til tjóns fyrir sig. Að rjúpan sje á þessum tíma lakari útflutningsvara en annars, hefir heldur ekki við neitt að styðjast, og í fyrrahaust sýndi það sig einmitt, að þá, í október, var verðið á henni hæst. En það, sem jeg legg þó mesta áherslu á í þessu sambandi, er það, að með því að lengja friðunartímann, er sumum rjúpnahjeruðum meinað að njóta góðs af erlendum markaði.

Annars hafa margar áskoranir borist úr ýmsum kjördæmum út af þessu máli, og þær síst á einn veg. Og einn hv. þm. hefir sagt mjer, að hann hafi fengið tvær áskoranir úr sínu kjördæmi, eina, sem mælti með því, að friðunartíminn væri lengdur, og aðra, sem andmælti mjög kröftulega öllum breytingum í þessa átt.

Hv. frsm. meirihl. (PÞ) þótti einkennilegt, að svo dökt væri yfir till. okkar. Jeg skal játa, að það var bjart yfir ræðu hans, hún var töluð svo sem góðum dreng sæmir og öll í kristilegum anda. Annars vil jeg ekki verða til að vekja langar umræður í þessu máli, en vona, að hv. deild drepi frv. snúningalaust, og friði okkur svo fyrir frekari skothríð af því.