18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Við stóðum vel að vígi í nefndinni að því leyti, að allir rökuðu sig sjálfir. Það verður því ekki sagt, að við höfum verið undir áhrifum rakara á hvoruga hlið. Og þess hefði einnig mátt vænta, að máli rakaranna væri allvel borgið, þar sem sá maður hafði framsögu, sem samkvæmt embættisskyldu sinni á að vernda helgi hvíldardagsins.

það er rjett, sem hv. frsm. meirihl. (EP) tók fram, að þetta snertir tvær búðir, rakarabúðir og sælgætisbúðir. Þar er ekkert samband á milli annað en það, að þær urðu út undan, þegar lögin voru gerð. Þetta hefði því mátt líða í tvent, en bæjarstjórn hefir nú viljað láta þetta fylgjast að.

Hjer er farið fram á heimild fyrir bæjarstjórn til þess að geta gert samþyktir um þetta. Það er ekki einu sinni vist, að hún noti hana. Hún mundi tæpast gera samþykt, sem gengi á hluta borgaranna.

Jeg legg ekki mikla áherslu á sælgætisbúðirnar. Það er hugsanlegt, að með þessar vörur yrði eftir sem áður verslað í brauðsölubúðum. Hitt er satt, að jeg tel lítinn skaða skeðan, þótt börnum verði ekki gerður eins greiður aðgangur að þessu sælgæti, því þau hafa lítið gott af því, en ærnar skemdir á tönnum.

Þá er að líta á hitt: Hvernig líta rakarar sjálfir á sitt mál? Því er svo háttað, að hjer í bæ eru duglegustu rakararnir í fjelagi, og þeir óska þessa, til þess að tryggja sjer rjettmæta hvíld. Og það virðist engin ástæða til þess, að hafa á móti því.

Hv. frsm. meirihl. gæti eins sagt, að það væri hart, að sveitafólk skyldi ekki geta komist í banka á sunnud., er því liggur á. En löggjöfin vill tryggja fólki hvíld. Það var ekki svo áður, en þá þótti ekki annað fært en breyta því. Og jeg get ekki varist því, að mjer finst sem það sje í mótsögn við starf hv. frsm. meirihl. sem prests, að vilja þannig styðja að helgidagsbrotum.

Mjer virðist verða að dæma um þetta mál út frá þessum forsendum: Hvort ástæða sje til að neita bæjarstjórninni um þessa heimild, hvort það sje ekki óverðskulduð tortryggni. Í öðru lagi, hvort deildin vill styðja að því, að halda opnum þessum sælgætisbrunnum, til skaða fyrir börn og unglinga. Í þriðja lagi, hvort rakararnir eigi ekki heimtingu á þessari hvíld. Það sýnist, satt að segja, engin lífsnauðsyn að hafa þessar rakarabúðir opnar á sunnudögum. Þeir, sem þurfa að raka sig á sunnudögum, geta keypt sjer vjel og gert það sjálfir.

Að nauðsyn sje að leyfa að hafa búðirnar opnar til þess að sumir rakarar geti lifað, þá verður að fara um þá sem aðra, er ekki geta staðist í lífsbaráttunni. Þeir verða að gefast upp. Engum dettur í hug, að hægt sje að gera skilyrði þannig úr garði, að söm verði afkoma duglegra og óduglegra. Þeir, sem ekki geta unnið fyrir sjer með skaplegum vinnutíma, eiga ekki rjett á sjer í starfinu.

Það væri dálítið sök sjer, þó að þeir, sem eru utan fjelags, væri undanþegnir lokunarskyldu, ef það hefði ekki áhrif til ills fyrir alla stjettina.

Jeg vona því, að hv. frsm. meirihl. (EP) taki til greina þau rök, sem jeg hefi komið með, og það því fremur sem hann er þjónandi prestur.