18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Jeg skal ekki vera orðmargur. Jeg viðurkenni, að nokkuð sje ólíkt á komið með rakarastofum og sælgætisbúðum, og að það sje ekki eins mikil ástæða til þess að hafa á móti því, að sælgætisbúðum yrði lokað fyrir fólki, eins og rakarastofunum. En hinsvegar mundi æskulýðurinn ekki verði í neinum vandræðum fyrir það, með kaup á þessari vöru. Hann færi þá aðeins í bakaríin og keypti hana þar. Mjer skilst því, að sparnaðurinn yrði enginn, en þessi litli ágóði af sölunni mundi dreifast til margra, án þess að hans sæi nokkra staði. Hvern einstakan bakara mundi muna lítið um það, en hinir fáu sælgætissalar, sem nú hafa hagnaðinn lítt skertan, gefast upp í samkeppninni.

Að því er snertir rakarana, þá vildi hv. frsm. minnihl. (JJ) helst, að allir rökuðu sig sjálfir. Það væri náttúrlega æskilegt. En öllum þorra manna finst hann ekki geta það, og komast ekki á það lag. Auk þess kostar það dálítið fje í byrjun, að afla sjer nauðsynlegra tækja til slíks, og margur á erfitt með að leggja það fje fram í einu, þó ekki sje mikið.

Þá á einnig það að vera helgidagsbrot, að fá sig rakaðan á sunnudegi. Jeg held, að þeim væri þarfara, sem styðja vilja viðleitni prestanna til þess að halda uppi helgi sunnudagsins, að byrja einhversstaðar annarsstaðar, sem meiri væri þörfin. Þetta er kyrlátt starf og ónáðar engan. Eftir þessu ætti það að vera helgidagsbrot að raka sig sjálfur á sunnudegi. Því verknaðurinn er vitanlega hinn sami, hvort maður sjálfur fremur hann eða fær annan mann góðfúslega til að fremja hann. Nei, jeg get ekki gengið inn á, að það sje skylda mín að styðja, að þetta gangi fram, með tilliti til þess, að annars sje jeg stuðlandi að helgidagsbrotum. Jeg skoða þau orð fremur sem gamanmál en alvöruorð. Skal jeg svo ekki fleira segja um þetta að sinni.