07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 1. landsk. (SE) fór að ýmsu leyti ekki rjett með mín orð. Jeg hefi sagt, að alt lóðamálið í Vestmannaeyjum væri í óreiðu frá stjórnarráðsins hálfu. En jeg var hissa, að hv. 1. landsk., sem sjálfur hefir verið ráðherra, skyldi ekki vita, að þegar ætlast er til, að farið sje eftir lögum um þjóðjarðasölu, þá er ekki skylda að fara eftir fasteignamati. Og jeg sje ekki betur en að óvilhallir menn standi betur að vígi um að meta, heldur en þm. þótt þeir fái upplýsingar frá stjórninni. Hv. þm. (SE) vildi nota orð mín til þess að sanna, að þessi eign væri 6–700 þús. kr. virði. Jeg sagði það aldrei. En jeg sagði aðeins, að úr því að stjórnarráðið hækkaði leiguna, þá hefði kanske verið rjett að þrefalda hana, en ekki fimmfalda.

Þá kom hann að ummælum mínum um eftirlitsleysi stjórnarinnar með Vestmannaeyjaumboðinu, og ljet sem hann undraðist það mjög. Honum ætti nú að vera það kunnugt úr sinni stjórnartíð, hvernig því er háttað. Jeg ætti ekki að þurfa að fræða hv. þm. (SE) um það. (SE: Jeg vil fá það fram!) Jeg er heldur ekki að draga neinar dulur á það, að óreiðan var alveg sú sama í hans tíð, og það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. (SE) að koma af fjöllum og fyllast vandlætingu.

Annars virðist hv. 1. landsk. hafa skift skoðun. Á þinginu 1921, þegar um það var rætt, hvort Siglufjörður fengi Siglufjarðareyri keypta, þá undirskrifaði hv. þm. svohljóðandi nál.:

„ — — Nefndin lítur svo á, að bæjarfjelaginu sje það nauðsynlegt að geta ráðið sem mestu um leigu lóða og byggingu húsa í kaupstaðnum, og að sanngjarnt sje, að það fái ríflegan hluta af þeirri verðhækkun á landi, sem þar verður við stækkun bæjarins. — —“ (Alþt. 1921, A. 1306).

Þetta er sama og jeg hefi haldið fram um Vestm.eyjar. En hv. 1. landsk. (SE), sem 1921 var sanngjarn, virðist hafa skift um skoðun nú. það kann að stafa af því, að hann hefir skift um starf síðan, að hann kemst nú hvergi úr fram fyrir tölum. Hann getur svo að segja ekki þverfótað fyrir hundruðum þúsunda og hálfum miljónum.

En nú stend jeg á sama grundvelli og hann stóð 1921. Og það er sanngirnismál frá hálfu hvaða kaupstaðar sem er, að hann njóti sjálfur hagsmunanna af því, sem hann kann að hafa lagt fram til umbóta og mannvirkja. Þetta er rjetti grundvöllurinn, og það verður ekki fundin önnur betri ástæða fyrir því, að Vestm.eyjar fái keyptan þennan lóðarhluta.

Hv. 1. landsk. (SE) heldur því fram, að dagskrá meirihl. sje svo sanngjörn. Jeg held sanngirnin eigi að koma fram í því, að hið háa Alþingi sinni kröfum bæjarfjelagsins og greiði á þann veg fyrir heilbrigðum viðgangi þess.