08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Það virðist svo sem samtök hafi orðið um það í deildinni að hafa sem stystar umræður, og get jeg verið því samþykkur, því að jeg á enga brtt. við fjárlögin, og þarf því ekki að tala um þær. En það er ein brtt. á þskj. 486, sem jeg þarf að minnast á. Það er XVI. liður 2, til Eggerts Stefánssonar. Háttv. 2. þm. Eyf. (BSt) hjelt ítarlega ræðu um þetta mál og skýrði það svo, að háttv. þdm. er það kunnugt, eftir því sem hægt er að ræða málið opinberlega. Þessum símritara er vikið frá í apríl í fyrra — ef mig minnir rjett. Hefir hann nú sent þinginu skjöl og borið sig upp undan meðferðinni á sjer. Þessi skjöl hefi jeg lesið með athygli. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að Eggert bæri ekki neinar sakir á sig. Það getur verið rjett, en hann ber þó sakir á mig út af veitingu símastjórastarfsins á Borðeyri. Jeg gæti skýrt alt þetta mál frá mínu sjónarmiði og gefið upplýsingar um það, en jeg álít ekki rjett að gera það opinberlega. Jeg álít, að málið eigi að athugast í nefnd, svo framarlega sem hann vill halda því áfram og þykist órjetti beittur. Það hefir verið gert áður að rannsaka lík mál í nefnd. Mætti gera það á næsta þingi, og það vildi jeg helst fyrir mitt leyti.

Annars skal jeg geta þess, að það var ekki jeg, sem sefti þennan mann af. Þegar jeg ljet af ráðherraembætti, lágu ekki fyrir ástæður til þess að víkja honum frá. Það var ekki gert fyr en mánuði seinna, og ber því hæstv. atvrh. (MG) ábyrgð á frávikningunni. Jeg get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) hjelt fram, að það sje sanngirniskrafa, að manninum sje veitt einhver uppbót, og hefir þingið áður tekið líkar bænir til greina, svo sem frá Árna Theódór Pjeturssyni kennara og Petersen símstjóra í Vestmannaeyjum. Honum var líka að nokkru leyti bolað frá stöðu sinni, enda þótt það væri ekki af sömu ástæðu og Eggert Stefánssyni var vikið frá, en þeir voru þó báðir taldir óhæfir símritarar. Þingið tók kröfur Petersens til greina og einnig kröfur Arna Theódórs Pjeturssonar, en Eggert hefir varla brotið meira af sjer en sá maður.

En eins og jeg hjelt fram áðan, þá er þetta mál þess eðlis, að ef þingið á að sinna því, þá verður það að fara í nefnd og skýrsla hennar að leggjast fyrir nœsta þing.

Jeg hefi enga ástæðu til þess að tala lengra mál, en ef svo ólíklega skyldi fara, að hv. þdm. brytu bindindið við umr. á morgun, þá mun jeg kannske taka til máls aftur.