24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) var nú svo mjúkur í máli, líklega af því að jeg tók duglega í hann í dag, að jeg get verið mjög rólegur í svari mínu. Háttv. þm. (JBald) var enn að tala um kolin og sagði, að aðalgallinn væri sá, að ekki hefði verið hætt við að taka þau. Veit hann ef til vill ekki, að í farminum voru miklu meiri kol en þau, sem landsstjórnin átti, og þó að þessi kol væru tekin í Hafnarfirði, þá var nóg eftir handa landsstofnununum. Og þau kol voru síðan metin af dómkvöddum mönnum, og var því ekki hægt að komast hjá því að taka þau samkvæmt samningi. Háttv. þm. sagði, að skrifstofustjórinn hefði ekki viljað taka þau. Það er rjett að því leyti, að skrifstofustjórinn vildi ekki taka við þeim fyr en komið var námuskírteini um þau og mat á þeim. en þá gat hann auðvitað ekki hafnað þeim.

Hv. þm. (JBald) sagði, að illar tungur segðu, að kolin hefðu verið tekin vegna pólitískra viðskifta við seljandann. Gott var það, að hann sagði, að illar tungur hvísluðu þessu; hann dæmdi þá sína tungu um leið, því að hann tók það að minsta kosti upp.

Út af innflutningshöftunum þarf jeg ekki að deila við hv. þm. (JBald), því að hann sagði, að framkvæmd laganna myndi hafa verið eins góð og hægt hefði verið, en lögin sjálf væru slæm. Fer þá sök mín að minka, því að vitanlega er það Alþingi, sem lögin hefir sett, en ekki jeg einn.

Hv. þm. vildi ekki beinlínis neita því, að hann hefði komið með makt og miklu veldi upp í stjórnarráð og sagt, að hann þyrfti miklar undanþágur, því að sitt bakarí væri stórt og dygðu engir smámunir, einkum væri kökugerðin afarmikil, og þess vegna væri og rjettur hans auðsær. Hvort hann fór fram á stærri undanþágur en aðrir, veit hv. þm. ekkert um, því að hann mun ekki hafa sjeð neinar skýrslur um undanþágubeiðnirnar. En jeg get sagt hv. þm. (JBald) það, að hann fór lengra í beiðnum sínum en eigendur annara brauðgerðarhúsa gerðu.

Hv. þm. (JBald) talaði um, að það væri gott fyrir kaupmannastjórn að hafa slík lög, því að þau væru tilvalin til þess að gera upp á milli manna. En jeg verð nú að segja, að jeg þekki ekki markið á kaupmönnunum, svo að jeg viti, hverjir fylgja stjórninni og hverjir ekki, þótt hv. þm. (JBald) kannske geri það. Hann var að tala um þetta undarlega fyrirbrigði, að það, sem bannað hefði verið í maí, hefði verið leyft í júní, en jeg hefi áður tekið það fram, að þetta er mjög eðlilegt, þegar verið er að slaka á klónni.

Hv. þm. (JBald) vildi halda því fram, að sú skoðun hans væri alveg rjett, að eftir stjfrv. væru gróðafjelögin undanþegin skatti. En þegar talað er um, að einhverjir sjeu undanþegnir skatti, þá þýðir það, að þeir hinir sömu sjeu skattfrjálsir. Það vildi háttv. þm. þó ekki segja, heldur, að fjelögin væru undanþegin aðeins nokkrum hluta af skattinum. En þá er þetta orðalag aðeins Jesúítamórall, sem hefir verið notaður í þeim tilgangi einum að leiða afvega þá, sem ekki hafa haft færi á að setja sig inn í málið.

Út af Krossanesmálunum sagði hv. þm. (JBald), að það væri ekki undarlegt, þó að menn vildu ekki fara í mál eftir að ráðherrann hefði lýst því yfir, að ekki væri um sviksamlegt athæfi að ræða. Hann skilur ekki enn muninn á einkamáli og sakamáli. Með því að segja, að eitthvað sje ekki sviksamlegt er aðeins sagt, að það sje ekki hegningarvert, en ekkert sagt um það, hvort ekki geti verið um skaðabótamál að ræða. (JBald: Það fer saman hjer). Hv. þm. hefir ekki vit á að dæma um þetta; hann þekkir ekki til málanna, enda hefir hann aldrei við slík mál fengist.

Hv. þm. (JBald) var að tala um, hve dýrt væri að fara í mál fyrir mann á Akureyri við annan í sama lögsagnarumdæmi. Þetta nær ekki nokkurri átt. Hitt er og heldur ekki rjett, að aðeins sje einn lögfræðingur á Akureyri. Þeir eru að minsta kosti tveir. Annars er nú búið að tala svo mikið um þetta mál, að jeg hjelt, að það væri útrætt eftir þessar fjögra daga umræður, en hv. þm. (JBald) þóttist nú hafa gert alveg nýja uppgötvun, sem þó var ekki annað en það, sem margsinnis er búið að segja áður af mörgum, og þegar hefir oft verið svarað. Hún var nú ekki spánýrri en það þessi mikla uppgötvun hans.