09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eins og fjárlagafrv. er afgreitt frá hv. Ed., eru hin raunverulegu útgjöld hækkuð um 890 þús. kr. frá því, sem var í stjfrv., og tel jeg þar ekki með 600 þús. króna útgjaldahækkun, sem bætt hefir verið við 7. gr. til afborgana lausaskulda. Hjer liggja fyrir margar brtt., og mjög er hætt við, að þegar þessari umr. er lokið, verði aukning á útgjöldum frá því, sem var í stjfrv., orðin æðinálægt 1 miljón króna. En það þýðir, að hin raunverulega útgjaldaupphæð frv. nemur alls 93/4 milj. kr. Það er rjettri 11/2 milj. kr. hærra en útgjöldin í fjárlögunum 1925, sem þessir sömu hv. þm. samþyktu fyrir einu ári. Þegar þess er gætt, að allur tekjuafgangurinn 1924 nam 11/2 milj. kr., get jeg ekki sagt annað en að mjer þyki orðin of mikil umskifti á hugsunarhættinum frá því í fyrra, þar sem hv. þm. treysta sjer til að hækka útgjöldin um þessa sömu upphæð. Það er hægt að segja ýmislegt um ástæður og orsakir til þess, að svo er komið. En jeg vil minna á, að eftir allri minni þingreynslu, sem að vísu er ekki löng, er aðeins einn varnarveggur, sem dugað getur gegn óhóflega miklum fjárveitingum, og það er fjvn. Nd. Þegar hún getur orðið sæmilega samtaka um að setja hækkuninni takmörk, hefir mikið áunnist. 1924 var nefndin óvenjulega vel samtaka. En jeg get ekki annað sagt en að nú sje varnarveggurinn bilaður, ekki þannig, að hann hafi skolast burtu, heldur hafa brostið í hann svo mikil skörð, að hann hefir ekki veitt nægilega fyrirstöðu gegn tilhneigingum hv. þm. til þess að reyna að fá sem mestar fjárveitingar úr ríkissjóði til eins og annars, sem þeim og kjósendum þeirra finst nauðsynlegt. Eftir því, sem lengra líður á meðferð fjárlaganna, fara margar af brtt., sem fram koma, að eiga minni og minni rjett á sjer, og mjer virðist hv. þm. vera búnir að vera of lengi utan andrúmslofts kjósenda sinna og farnir að vera of veikir fyrir áhrifunum hjer úr bænum.

Um frv. verð jeg að segja það, að mjer finst fara best á, að fjvn. hefði orðið ásátt um að ráða deildinni til að samþykkja það óbreytt. Þá hefði mátt komast hjá þessari síðustu hækkun. Mín skoðun er sú, að aðalástæðan, sem nefndin bendir á, sje ekki á rökum bygð, sem sje niðurfærsla á styrk til Búnaðarfjelags Íslands, sem hv. þm. Str. (TrÞ) taldi aðalástæðuna fyrir því, að fjvn. hefði ekki getað fallist á frv. óbreytt.

Í núgildandi fjárlögum eru þessari stofnun ætlaðar 140 þús. kr., og var það hækkað lítið eitt í stjfrv., en svo ákvað fjvn. Nd. í þingbyrjun að hækka þessa upphæð upp í 200 þús. kr., og er það auðsjáanlega miklu meiri hækkun en komið gat til mála að leyfa í fjárlögunum yfirleitt. Háttv. þm. Str. hefir lýst því, hvernig þetta kom til eftir till. fjhn. búnaðarþingsins. En mjer er fullkunnugt um, að allmargir af hinum gætnari mönnum búnaðarþingsins álitu farið lengra í kröfurnar en nauðsynlegt væri og töldu viðunanlegt, ef hækkað væri upp í 175 þús. kr. En það var samt farið fram á þessa hækkun. Háttv. þm. Str. reyndi að færa sönnur á, að sjerstaklega tryggilega væri búið um notkun þess fjár, sem Búnaðarfjelagið fær. En sannleikurinn er sá, að fje það, sem sú stofnun fær, er ekki undir eins miklum umráðum og eftirliti þingsins og annað fje, sem það veitir og ákveður hvernig nota skuli. Jeg minnist þess ekki, að hjer hafi verið gerð nokkur grein fyrir, til hverra framkvæmda Búnaðarfjelagið ætlar að nota þessa hækkun. Það er eðlilegt, að búnaðarþingið skoði það sitt hlutverk að fá hjá þinginu sem hæsta upphæð til sinnar starfsemi, en þá er það þingsins og stjórnarinnar að halda í á móti, svo að rjett hóf verði á niðurstöðunni. Jeg skal engan veginn halda því fram, að þær framkvæmdir, sem hækkunin er ætluð til, sjeu ónauðsynlegar. Það er svo margt, sem verður að sitja á hakanum nú, en hinsvegar hafa ekki verið færð rök að því, að þessi hækkun sje öðru fremur nauðsynleg. Kunnugir menn segja, að 175 þús. kr. sje alveg forsvaranleg upphæð.

Um einstakar till. hv. nefndar og hv. þm. get jeg verið fáorður. Jeg hefi gert mjer það að reglu, því að jeg veit, að það hefir lítil áhrif á atkvgr., hvort mælt er með eða móti einstökum tillögum. Þó vil jeg nú gera undantekningu með einstaka liði.

Af brtt. nefndarinnar vil jeg þá fyrst minnast á 5. liðinn, um að fella niður styrkinn til útgáfu kenslubóka mentaskólans. Þó þetta heyri ekki undir mig, þá vil jeg biðja þessari litlu fjárveitingu lífs. Jeg hygg, að margt, sem í fjárlögunum stendur, sje miður nauðsynlegt en að sjá uppvaxandi mentalýð þessa lands fyrir kenslubókum á þeirra eigin tungu. Það er fyrsta skilyrðið til að kenna þeim að hugsa á íslensku. Upphæðin er hinsvegar ekki stór og skiftir ekki máli um útkomuna.

Um 7. brtt. nefndarinnar er það að segja, að jeg tel hv. Ed. hafa gengið á viðunandi hátt frá skilyrðum fyrir styrk til hjeraðsskólanna. Það þarf að vera sæmileg trygging fyrir því, að ekki sje ógætilega og af ljettúð ráðist í skólastofnanir fyrir einstök hjeruð, sem þau rísa alls ekki undir. Jeg tel, að í aths. felist miklu stærra fjárhagslegt atriði en upphæð þeirrar fjárveitingar, sem stendur í liðnum. 20 þúsundir skifta ekki miklu máli, ef hjer væri ekki um meira að ræða. En það er ekki fögur útsjón frá fjárhagslegu sjónarmiði að sjá unglingaskóla rísa upp í hverri sýslu og vita, að sýslurnar eru ekki færar um að standast þann kostnað, sem skólarnir hafa í för með sjer, því að þær stynja nú undir berklavarnakostnaðinum og geta engum nýjum útgjöldum á sig bætt. Það er fyrirsjáanlegt, að ef slíkir skólar eru stofnaðir, hljóta þeir að veslast upp, eða ríkið verður að taka þá upp á sína arma að miklu leyti.

Þá vil jeg þakka hv. nefnd fyrir 19. brtt., um að fella niður aths. um húsaleigu einnar ekkju, sem nýtur eftirlauna samkv. 18. gr. Jeg skal bæta því við, að af því að stjórnin var nokkuð við það riðin, að ekkjan situr í þessu húsnæði, þá telur hún sjer skylt að greiða úr þessu máli fyrir umliðinn tíma, svo vandræðalaust verði. Það er fyrirætlunin, að hún flytji bráðlega úr húsnæðinu, svo þetta verður ekki áframhaldandi útgjaldaliður í fjárlögunum.

Um brtt. einstakra þm. skal jeg ekki segja annað en það, að jeg vil endurtaka og leggja áherslu á, að hv. deild felli allar uppástungur um heimild til að ganga í ábyrgð. Það er að bæta gráu ofan á svart, er útgjöldin eru hækkuð eins og raun er á orðin, að leggja auk þess tekjur ríkissjóðs í hættu með því að ætlast til, að hann gangi í ábyrgð fyrir fyrirtæki, sem fje fæst ekki til án ríkisábyrgðar. Auk þess er það hreint ekki velgerningur að lokka menn út í kostnaðarsöm fyrirtæki, þegar hækkun á gildi peninga eða lækkun á verðlagi er framundan. Öðru máli gegnir um heimildir til lánveitinga úr viðlagasjóði. Viðlagasjóðurinn er aðskilinn frá ríkissjóði og afborganir til hans ætlaðar til útlána. Það er ekkert við því að segja, þó Alþingi heimili lán úr honum, ef fje er fyrir hendi, og þá verður aldrei lánað meira fje en viðlagasjóður hefir yfir að ráða. En jeg býst við, að lítið verði þar eftir umfram það, sem ætlað er til íshúsanna, ef sú heimild verður notuð út í æsar.

Mjer þykir leitt, að hv. fjvn. vill fella till. frá hv. Ed. um lánsheimild til bæjarfógetans í Vestmannaeyjum, því að það er nauðsynlegt, ekki vegna embættismannsins sjálfs, heldur vegna embættisrekstrarins. Þar er húsnæðisekla meiri en annarsstaðar vegna vaxtar kauptúnsins. Bæjarfógetinn hefir leigt litlar kompur fyrir skrifstofu, en það er ekki vanvirðulaust, að skrifstofa embættisins hafi aðsetur sitt þar. Fjöldi útlendinga á skifti við bæjarfógetann, vegna hinnar miklu skipakoma frá útlöndum og vegna hinna seku botnvörpunga, sem farið er með þangað til dóms. Þó það kunni nú ekki að þykja mikils um vert, hvernig slíkir menn líta á oss, þá er þó þess að gæta, að samfara slíkum yfirheyrslum koma yfirmenn varðskipa til rjettarhalds, og það er oss alls ekki vansalaust að láta yfirvald hafast við í slíkum húsakynnum. Auk þess bíður embættisrækslan beinlínis baga af húsnæðinu. Jeg vil leyfa mjer að mæla hið besta með þessu, því að hjer stendur öðruvísi á en alstaðar annarsstaðar, svo það er ekki rjett að telja þetta fordæmi. Þarna þarf ríkið að sýna sómasamlega framkomu gagnvart útlendingum.

Þá skal jeg að lokum fara nokkrum orðum um lánveitingu til frystihúsa, þó það sje mjer eiginlega óviðkomandi. Jeg get byrjað á því að geta þess, að skýrsla kæliskipsnefndarinnar varð mjer vonbrigði. Jeg vonaðist til þess, að það yrði okkur mögulegt sökum nálægðar við kjötmarkaðinn, að nota aðstöðu okkar til þess að koma kjötinu nýju á markaðinn og njóta hæsta verðs á hverjum tíma. En nefndinni finst þetta ekki tiltækilegt, en vill, að við frystum kjötið og sendum það frosið á markaðinn. En með því setjum við okkar vöru við hliðina á því kjöti, sem ódýrast er selt í heiminum. Fryst kjöt er mjög ódýrt; fyrir stríðið heyrði jeg talað um 1 penny pundið á Englandi, þó jeg viti ekki sönnur á því. Þá var kjötframleiðsla svo mikil og svo ódýr í sumum löndum, að af sláturfjenaði var sumstaðar ekki hirt annað en skinnið, en kjötið álitið einskisvirði og fleygt, af því að ekki borgaði sig að flytja það á markað. Þetta kann nú að hafa breyst nokkuð, kjötframleiðslan minkað svo, að kjöti sje ekki fleygt lengur, en frosið kjöt frá þessum fjarlægu löndum er samt ódýrasta kjötið í þeim löndum, sem ekki neyta saltkjöts. Mjer virðist, að við ættum að reyna hið ýtrasta til að nota aðstöðu okkar til þess að reyna að koma kjötinu nýju á markaðinn. Jeg tel heppilegt að gera verklegar tilraunir við þetta næsta haust og vita, hversu til tekst. Þetta er mál, sem þarf að rannsaka betur, og jeg býst við, að það verði gert, þó ekki sje veitt fje til þess. Hinsvegar tel jeg sjálfsagt, að íshús þurfi að byggja, ef flytja á út nýtt kjöt, þó tilhögun kynni þá að mega vera nokkuð öðruvísi en ef frysta á kjötið.