15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

33. mál, lærði skólinn

Björn Líndal:

Mig furðaði dálítið á ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þar sem hann spurði um það, hvers menn væntu með því að bíða. Jeg held annars, að hv. þm. (MJ) hefði átt að vita það, því að það hefir verið margtekið fram af ýmsum hv. þm., að við væntum þess, að gerð verði nákvæm áætlun um allan þann kostnað, sem þessi breyting hlýtur að hafa í för með sjer. Við væntum þess, að horfið verði að því ráði, að byggja heimavistahús, en ekki að því, að veita húsaleigustyrk, því að það er mjög mikils virði í mínum augum, að heimavistirnar geti orðið að gagni, ekki aðeins fyrir þá, sem þar eiga að búa, heldur líka hina, sem aðkomnir eru, því að það mun verða svo í framtíðinni eins og áður var, að þeir safnast þangað í frítímum sínum, sem ekki eiga góð heimili eða venslafólk hjer í bænum. Jeg skoða það svo sem að þingið hafi skyldu gagnvart Reykjavík, að styrkja hana til góðs gagnfræðaskóla, og jeg vil líka láta halda einskonar sambandi við Akureyrarskólann. Jeg vil láta rannsaka þetta, og með allri virðingu fyrir hv. flm. málsins (BJ), þá lít jeg svo á, að þótt hann sje vitur, þá sje hann ekki alvitur, og það er mín sannfæring, að best sje, að sem flestir vitrir menn ráði í þessu máli. En jeg vil segja hv. flm. (BJ) það í eitt skifti fyrir öll, með einbeitni og velvildarhug til málsins, að jeg vil mega treysta þeim, sem hlut eiga að máli, til þess, að vandað sje til þeirrar byggingar, sem hjer á að reisa. En ef málinu verður flaustrað af, þá veit jeg, að það verður mönnum í lófa lagið að byggja á því pólitískar æsingar, sem verða til þess, að breytt verður aftur til á næstu þingum, sem svo verður málinu algerlega að falli. (BJ: Menn falla ekki frá svo góðum málum.) Það hefir því miður oft komið fyrir, að menn hafa fallið frá hinum bestu málum. En hvað snertir fylgi mitt við stjórnarflokkinn, þá vil jeg segja hv. flm. (BJ) það, að jeg fylgi aldrei neinum stjórnmálaflokki svo fast, að jeg ekki meti mína eigin sannfæringu meira, þegar þetta tvent rekst á.