09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1926

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi hjer leyft mjer að bera fram eina till. um 10 þús. kr. fjárveitingu til lendingarbóta á Skálum á Langanesi. Jeg þarf ekki að vera langorður um þá till. Veit jeg, að hv. þm. muni vera kunnugt um, að fiskiþorp þetta hefir vaxið mjög síðustu ár. Fiskveiðar eru þar einkum stundaðar á árabátum, en lending er þar heldur ill. — brimlending. Samkv. skýrslu, sem vitamálastjóri hefir sent atvinnumálaráðuneytinu um mælingar þær, er Jón Víðis framkvæmdi fyrir hönd vitamálastjóra 1922, hafa verið gerðar áætlanir um lendingarbætur þar. Er kostnaður áœtlaður 27 þús. kr. Verður því ekki sagt, að í stórt sje ráðist, þótt brtt. mín næði fram að ganga, enda hagar hjer svo til, að kostnaður verður næsta lítill í samanburði við það, sem aðrir öldubrjótar hafa kostað, en gagnið á hinn veginn mikið. Samkvæmt skýrslum, er jeg hefi frá útgerðarmönnum þar eystra, hefir innflutningur og útflutningur frá Skálum hvor um sig síðastliðið ár numið góðum fjórðungi miljónar. Af þessu mega menn sjá, að ver þetta er í allmiklum uppgangi.

Mál þetta var borið fram á síðasta Fiskifjelagsþingi og leist því svo mikil nauðsyn á því, að umbætur yrðu gerðar á Skálum, að það veitti af fátækt sinni tíu þúsundir króna, gegn væntanlegu framlagi frá ríkisins hálfu. Kemur það og heim, að venja hefir verið, að ríkissjóður veitti þriðjung kostnaðar til slíkra mannvirkja. Þó hefir stundum verið farið örlátara um þau efni og veittir jafnvel tveir þriðjungar kostnaðar, svo sem nú mun vera um lendingarbætur í Grindavík, og skal jeg það síst lasta.

Útgerðarmenn þar eystra munu hafa einhver ráð að leggja fram að sínum hluta það, sem á vantar. Jeg vona, að hv. deild líti með sanngirni á mál þetta, enda er það mála sannast, að Norður-Þingeyingar hafa ekki hingað til þreytt Alþingi með fjárbeiðnum. Vænti jeg því hinna bestu undirtekta í þessu efni.

Jeg mun hjer ekki fara út í aðrar brtt., enda þótt nafn mitt standi á sumum þeirra.

Þó vil jeg minnast á eitt atriði, hefting sandfoks í Selvogi, og kemur mjer þá í hug hin góðfræga Strandarkirkja. Þætti mjer ekki ótilhlýðilegt, að kirkjan annaðist slíkt sjálf af sínu mikla gjafafje, enda býst jeg ekki við, að hún tapaði helgikrafti sínum, þótt landið kringum hana yrði grasi gróið, og hygg jeg, að hennar fje yrði ekki betur varið á annan hátt. Vona jeg, að „reipi“ kirkju þessarar dugi, — þótt jeg kannist við orð skáldsins, Gríms Thomsens, þar sem hann segir:

Útsynningar öflug reip

um hana’ úr sandi fljetta:

Engi’ er hætta’, að guðs úr greip

gangi húsið þetta.