09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg verð endilega að ávarpa hæstv. fjrh. (JÞ) dálítið út af þeim almenna harmagráti, sem hann hafði hjer út af örlögum þessa frv. síns. Hæstv. fjrh. reiknaði nákvæmlega, hvað gjöld fjárlaganna hefðu hækkað frá því að hann gekk frá þeim, og þótti undarlegt, hve mjög þau hefðu vaxið, en mjer þykir það ekki undarlegt, og honum sjálfum ætti ekki heldur að þykja það undarlegt, því að það var á alt öðrum tíma, sem hann samdi sín fjárlög, svo að það mikla meðlæti, sem atvinnuvegir þjóðarinnar hafa átt við að búa, hafði þá ekki náð hans eyrum, svo þó að fjárlög hæstv. ráðherra sjeu nú orðin eitthvað 1/2 miljón hærri, þá má hann ekki undrast það, og ekki þótt þau hefðu orðið miklu hærri hjá nefndinni, og hæstv. ráðherra ætti ekki að barma sjer yfir því, að nefndin hefir ljett af honum þeirri óþægilegu ábyrgð, sem af því leiðir að synja þjóðinni um hennar eigið fje, sem annars hefði á hann komið, ef hann hefði mátt ráða, og jeg hygg, að þar sje ekki ein einasta fjárveiting, sem hæstv. fjrh. hefði ekki tekið inn, ef hann hefði einn átt að fjalla um. En jeg skal ekkert um það segja, hversu ágæt fjvn. var í fyrra; það er mjer ókunnugt um, bæði af því, að jeg var svo heppinn að vera ekki í henni, og svo var jeg veikur megnið af þingtímanum, svo að jeg veit ekki, hversu það hefir að borið, að varnarveggurinn reyndist svo traustur í fyrra; það er sá varnarveggur, sem á að standa gegn þeim óþrifaáhlaupum, sem þjóðin gerir á sinn eiginn sjóð, sá varnarveggur, sem á að hindra það, að þjóðin sjái yfir hann, svo að ekki verði veitt nema sem allra minst úr þessum sjóði. Þessi varnarveggur hafði reynst svo fjarskalega traustur í fyrra, en nú brostið, eftir því sem hæstv. fjrh. segir. Jeg veit nú ekki neinn mun á þessu, annan en þann, að nú er jeg í þessari fjvn., og það væri náttúrlega of mikið af mjer að hugsa það, að jeg væri sá múrbrjótur, sem hefði brotið þennan kínverska múr sparnaðarskrafs, þjóðinni til hagsmuna, en ætti jeg þann heiður skilið, mundi jeg halda honum hátt á lofti á ókomnum æfidögum mínum, hvort sem þeir yrðu fleiri eða færri, því að jeg mundi telja mjer það heiður. En það er hvorki mjer að kenna eða þakka, því að hv. þm. líta eins á þessi mál eins og jeg. En það er eitt atriði af þeim sjerstöku liðum, sem hæstv. fjrh. talaði um, sem jeg vildi nefna, þó ekki af því, að það komi mjer við, því að jeg veit, að hv. frsm. fyrri kafla frv. (ÞórJ) muni svara honum. Það er hækkunin á styrknum til Búnaðarfjelags Íslands. Jeg get ekki hugsað mjer, ef það fjelag heldur vel á því fje, að það sje of mikið, því að mínu viti er það alt of lítið, og það er aðeins vegna þess almenna sparnaðarsöngs, sem hjer er sunginn, að ekki er veitt meira; ennfremur sagði hæstv. fjrh., að það fje, sem veitt væri, það væri ekki undir svo ríku eftirliti sem skyldi, hvorki af þingi nje stjórn. Þetta mun rjett vera, þingið getur ekki sett neinar sjerstakar reglur um það, hve miklu skuli varið til búnaðartilrauna í landinu. Til þess erum við ekki nógu miklir spámenn; en hitt ætla jeg, að það sje ekki annað en skylda stjórnarráðsins að hafa eftirlit með því, hvort þessi skrifstofa stjórnarinnar úthlutar vel, og er það þá hæstv. atvrh. (MG), sem ætti að hafa eftirlit með því, hvort hún verði þessu fje vel og viturlega.

Það var og annað atriði, sem hæstv. ráðherra (JÞ) nefndi líka; það var um hjeraðsskólana. Hann sýndist vilja mæla með þeirri till., sem hv. Ed. samþykti, sem ekki var viturleg, að það skyldi standa sem skilyrði fyrir liðveislu við skólana, að tvær sýslur væru um hvern skóla eða þrjár. Jeg hefi altaf hugsað mjer, að þar sem landslagi og öðrum skilyrðum væri svo háttað, að það gæti samrýmst högum sýslnanna, þá væri betra, að það væru tvær um hvern skóla, en það verður að vera eftir samkomulagi þeirra, en ekki skipun frá Alþingi, og jeg hygg það ekki af neinni ljettúð, þótt svo sje sjeð fyrir almenningsmentun eins og jeg hefi lýst hjer, að í hverri sýslu rísi upp gagnfræðaskóli, þar sem allir unglingar frá 16–20 ára aldurs lærðu þau almennu fræði, sem þeir þurfa að nota á æfi sinni við þau störf, er þeir leggja stund á og ekki heimta neina sjerþekkingu, svo sem nám við verslunarskóla, stýrimannaskóla, búnaðarskóla og aðra háskóla almennrar mentunar. En þegar jeg segi þetta og geri mínar till. um þessi mál, þá hefi jeg það ætíð fyrir augum, að þessir skólar skyldu því aðeins rísa upp og vera reknir, að bein skólaskylda væri, og þá munu menn sjá, að ekki er vert að hafa hvert skólasvæði of stórt, því að þá verður erfiðara að útvega ekkjum fyrirvinnu, meðan synir þeirra, sem kannske eru eina fyrirvinnan, stunda skólann, því ef vel liggur saman, má oft gera þetta með mannaskiftum, sem ekki eru tiltök, ef fjarlægð er meiri, og annars yrði að borga úr landssjóði þeirri fyrirvinnu, sem fengin er á meðan sonurinn er í skólanum. Svona hefi jeg hugsað mjer það, og það er ekki rjett, sem stundum er sagt um mig, að jeg sje andvígur allri alþýðumentun í landinu; það eina, sem jeg vil leggja til, er, að alþýðumentunin verði langtum betri en nú er, og eina ráðið til þess er, að það rísi upp slíkir skólar, sem jeg hefi talað um. Það verður hver sýsla að ráða því, hvort hún er ein um sinn skóla eða með öðrum; það verður að taka tillit til þess, hvernig landshættir eru, hvort því skal haldið að þeim að byggja skólann einar, eða vera saman um það, en það verður ekkert um það sagt fyr en tekið verður til að byggja skólana og menn sjá, hvernig ástatt er í hverjum stað. Jeg held því, að rjett sje að breyta þessari athugasemd til þess sama lags, sem hún hafði hjer í deildinni upphaflega, því að mínu viti er rjettast að hafa það svo, og öllum hentast. Skal jeg svo ekki tala frekar við hæstv. fjrh. um þetta, því að jeg sje, að hjer er komin vantraustsyfirlýsing, og jeg þóttist heyra af ræðu eins hv. þm., að hann hugsaði sjer að setjast í það sæti á eftir. Það var háttv. þm. Barð. (HK), sem jeg á hjer við, því að hann söng svo hátt um, hvað það væri skaðlegt að nota fje landsmanna handa þeim sjálfum, hver firn það væru og nefndi ýms dæmi, sem jeg skal ekki fara að ræða nú. En jeg kemst þó ekki hjá að minna hv. þm. (HK) á skólastofnun, sem fyrirhuguð er í mínu hjeraði; en jeg, ætla ekki að leggja til vígs við hann, jeg þori ekki að fást við svo reiðan mann, og ætla þess vegna að haga mínum orðum þannig, að jeg geti notið hans náðar í framtíðinni, eins og jeg hefði ekki gert mig svo djarfan að svara honum.

Hv. þm. (HK) talaði um, að þær yfirlýsingar, sem komið hefðu úr Dalasýslu, væru svo velktar, að það væri auðsjeð, að þær hefðu þvælst lengi manna á milli. Já, það er rjett, mennirnir voru sinn á hverjum bæ, svo að þær hafa orðið að fara bæja á milli, og jeg get frætt háttv. þm. (HK) um það, að þar eru menn ekki komnir upp á að skrifa nöfn annara manna fyrir þá. En annars hygg jeg, að þótt Barðstrendingar sjeu góðir nágrannar, þá þurfi þeir ekki að láta okkur heyra neitt um það, þótt við skrifum undir það, sem til okkar kemur og okkur þykir með þurfa.

Svo kom nú það, sem hv. þm. (HK) sagði um hag landssjóðs allan. Það, sem fyrir hv. þm. (HK) vakti, var það, að hagur landssjóðs mætti ekki skemmast með því, að landssjóður tæki sjer nú fyrir hendur að nota sjer sína eigin eign og fá gjafir í viðbót; það væri ofvaxið hag landssjóðs að gera sjer peninga úr sinni eigin eign, það væri óttalega skaðlegt, eftir því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði. En svo kom hann með lausnina á öllum þessum ræðuhöldum sínum, að hann segði þetta og gerði í samráði við alla sína kjósendur, og þegar svo stendur á, þá dettur mjer ekki í hug að álasa hv. þm. fyrir það, að hann heldur þessari skoðun svo fast fram, og meira að segja er hv. þm. þar betur settur en jeg, því að jeg veit nú ekki, hvað mínir kjósendur vilja í þessu efni. Þeir vilja raunar hafa skólann eins og hugsað var, með þeim hætti, sem hv. þm. Barð. síst vill, og helst á þessu ári, ef hægt er, en hvað þeir segja um þennan millibilsskóla, veit jeg ekki. En jeg verð þó að halda því fram, að það sje rjett af landssjóði að láta nú jörðina í þá þjónustu, sem hún var ætluð upphaflega, þar sem hann getur gert það nær kostnaðarlaust, því að það er aðeins lítilsháttar fjárveiting, sem þarf til að breyta húsinu, svo að það megi nota fyrir skólahús. Hv. þm. (HK) lýsti mjög átakanlega þeirri hættu, sem stafaði af þessum skóla, og sagði, að síðarmeir mundi sjóður frú Herdísar Benediktsen verða notaður þarna til þess að setja á stofn skóla fyrir Vesturland. Jeg geri ráð fyrir, að kvennaskóli á Vesturlandi sje yfir höfuð ekki mjög mikill þyrnir í augum hv. þm. Barð. (HK), og kvennaskóla í Flatey mundi ekki verða mjög sárt fyrir hann að taka á móti; en það sýnist vera eitthvað bundið við það, hvar þessi kvennaskóli er á Vesturlandi. Það kann að vera, að Barðstrendingar þykist eiga þessar reitur eftir frú Herdísi, en jeg held þó, að þeir eigi ekkert meira í þeim heldur en Dalamenn. En það er svo undarleg hugsun, sem kemur víða fram, að enginn megi gefa í viðbót við þá gjöf hennar, hún eigi að vera ein út af fyrir sig og að enginn megi flýta því fyrirtæki, sem var hennar áhugamál, með því að gefa aðra gjöf. Jeg ímynda mjer, að þótt hún væri spurð að því nú, þá myndi hún svara sem svo, að sjer væri ekkert kærara en að sem flestir gæfu til þessarar stofnunar, svo að hún gæti tekið til starfa sem fyrst, og jeg þykist líka viss um það, að ef hún væri spurð um það, hvar skólinn ætti að vera, þá mundi hún svara því svo, að enginn staður á Íslandi væri sjer kærari en Staðarfell, svo að jeg held, að engin stjórn þyrfti að láta gjöfina falla, þótt hún tæki Staðarfell, og þar ætti skólinn að standa.

Háttv. þm. Barð. (HK) sagði og í ræðu sinni, að þetta væri sú heppilegasta sala á jörð, sem hann gæti hugsað sjer, og sagðist eiga margar jarðir, sem hann vildi helst losna við á þennan hátt. Ef háttv. þm. er þetta alvara, þá skal hann bara gefa landinu jarðirnar. Jeg skal fá þing og stjórn til þess að þiggja þær. Hann skal ekki þurfa að kvíða því, að þær verði ekki meðteknar. Býst jeg því við, að framhald ræðu hans verði að afhenda skriflegt boð um að afhenda jarðirnar á þennan haganlega hátt.

Annars er það leiðinlegt, að menn skuli leggja í vana sinn að vera að skaprauna fólki, sem gefið hefir dánargjafir í minningu um látna ástvini.

Þá talaði hv. þm. um byggingarskilmála sýslumannsins fyrir Staðarfelli. Bjóst hann helst við, að honum hefði verið bygt það upp á lífstíð. Yrði því að greiða honum stórfje, ef hann ætti að fara.

Jeg hefi vitanlega ekki sjeð byggingarbrjefið, og get því ekki um þetta sagt, en jeg treysti því, að stjórnin hafi ekki samið svo vitlaust brjef, og geri því ráð fyrir, að það megi láta hann fara, þegar þess gerist þörf. Enda hefi jeg heyrt hv. þm. Barð. segja, að jörðin myndi laus í næstu fardögum eftir að þingið hefði ákveðið, að settur skyldi þar skóli.

Í gjafabrjefi frú Herdísar var vitanlega ekkert hægt að ákveða um skóla á Staðarfelli. En ef hún hefði vitað, að það myndi síðar gefið til skólaseturs, er jeg viss um, að hún hefði tekið fram, að skóli hennar skyldi hvergi standa nema þar.

Þangað til jeg hefi heyrt hæstv. stjórn játa, að hún hafi bygt Staðarfell þannig, að ekki sje hægt að taka það til skólaseturs hvenær sem er, tel jeg það grýlu eina, sem hv. þm. Barð. hefir búið til, að borga þurfi ábúandanum stórfje til þess að hann fari.

Þá skal jeg ekki þreyta hv. deild á að vera að svara því, sem þessi háttv. þm. var að tala um eitthvert brjef, sem einhver maður hefði einhverntíma skrifað einhverri stúlku.

Þó að hjer sje ekki lagt til að byrja með nema 15–16 stúlkur, þá ber þess að gæta, að með stofnun þessa skóla er ekki verið að stofna skóla fyrir alt Vesturland, heldur húsmæðraskóla í bili, þar til Herdísarsjóðurinn verður orðinn svo stór, að hann geti borið allan kostnað við slíkan skóla.

Það þýðir ekki fyrir háttv. þm. Barð. eða aðra að harma, að svo hefir verið ákveðið, að skóli skuli reistur á Staðarfelli. Það er búið, sem búið er. Staðarfell hefir verið þegið með því skilyrði. Til þess því að forðast það, er eina ráðið að skila jörðinni aftur.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti fastlega, að hæstv. stjórn skýri frá, hvernig háttað er með ábúð sýslumannsins á Staðarfelli, því að eins og jeg tók fram áðan, hefi jeg ekki lesið byggingarbrjefið, og er þessu því ókunnugur. En eftir þeim kafla að dæma, sem hv. þm. Str. (TrÞ) las upp úr því, tel jeg ótvírætt, að hægt sje að láta sýslumanninn fara hvenær sem þörf krefur.