02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að dýralæknirinn hefði sagt það sama við sig og nefndina viðvíkjandi hættunni. En það getur verið munur á, hvernig það er sagt. Annars er það ekkert kappsmál, að nefndin fylgdi dýralækninum alveg í þessu efni, en með tillögum sínum leggur hann á móti frv., eins og það er. Í viðbót við þetta kemur það, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir bent á, að þessar framkvæmdir kæmu ekki til, fyr en sjerstök hætta væri á ferðum. Þetta ætlast dýralæknirinn ekki til að komi til framkvæmda, fyr en honum þykir ástæða til, eins og álykta má af tillögum hans. Jeg skal enn taka það fram, að það er ekkert kappsmál fyrir nefndina að koma sínum tillögum fram, og vill hún leita samkomulags við hv. flm. og aðra, sem vilja, að málið gangi fram, og skal jeg því fyrir hönd nefndarinnar taka aftur, til 3. umr., tillöguna um að vísa málinu til stjórnarinnar.