09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á hjer eina brtt., sem gerir hvorki að hækka nje lækka útgjöldin. Það er aðeins aths. við styrkveitingu til byggingar sundskála, um að veittar verði af þeirri upphæð, sem þar er nefnd, 2 þús. kr. til sundskálabyggingar á Reykjanesi í Norður-Ísafjarðarsýslu, þó ekki yfir 1/5 kostnaðar. Eins og háttv. þdm. muna frá 2. umr. frv. hjer í deildinni, þá hefir sýslusjóður og bæjarsjóður Ísafjarðarkaupstaðar lagt fram talsvert mikla upphæð til þess að koma upp sundskála. Sundkensla er eldri við Ísafjarðardjúp en annarsstaðar hjer á landi, að undanskildri Reykjavík, og er það eðlilegt, því að þörfin er þar meiri en víðasthvar annarsstaðar, sem jeg þekki til. Jeg mun svo ekki fara fleiri orðum um þessa tillögu, en jeg vona, að hv. þdm. greiði henni atkvæði. Ástæðan til þess, að jeg ber þessa tillögu fram, er ekki sú, að jeg óttist, að þessi sundskálabygging verði ekki styrkt, heldur sú, að þar sem bæjarsjóður þarf að taka lán í sumar, þá vildi bæjarstjórn, að það stæði í fjárlögunum, að þessi upphæð yrði greidd á árinu 1926.

Hv. þm. Barð. (HK) flytur hjer brtt. um það að fella niður þann lítilfjörlega styrk, sem hv. Ed. samþykti til stofnunar húsmæðraskóla á Staðarfelli. Jeg gat búist við því, að hv. þm. (HK) mundi hefja mótmæli gegn þessum skóla, með því að hann lítur svo á, að með þessu sje það bundið, að Herdísarskólinn verði þarna. Jeg vænti þess, að hv. þdm. sje það kunnugt, að hvaðanæfa af landinu berast óskir um það, að stúlkur, sem ætla að verða húsmæður í sveit, eigi kost á því að nema það, sem til þess þarf sjerstaklega, svo sem meðferð mjólkur, ostagerð, vefnað o. s. frv.

Búnaðarfjelagið hefir undanfarin ár styrkt þessa hugmynd með því að halda námsskeið í sveitum landsins, einkum sunnanlands og nokkuð vestanlands. En lítil not hafa verið af þeim námsskeiðum, því að áhöld öll og annan útbúnað hefir vantað. Aðeins eitt hefir verið hægt að kenna, sem sje matartilbúning. Nú hefir kona, sem er mjög vel mentuð og hefir haft á hendi forstöðu slíkra námsskeiða, boðist til að taka að sjer forstöðu skólans á Staðarfelli. Það er almælt, og engin andmæli hafa komið fram gegn því, að hún sje sjerstaklega vel fallin til þessa starfs. Hún hefir lengi verið utanlands og aflað sjer þekkingar á þessum sviðum.

Ungar stúlkur eiga kost á að læra bókleg fræði og saumaskap í öðrum kvennaskólum, en aðstaðan bannar, að sveitastúlkur geti sjerstaklega búið sig undir húsmæðrastöðu í sveit. Með þessum skóla er stofnað til sjerstaks húsmæðraskóla fyrir sveitastúlkur, og veit jeg, að allar stúlkur og húsmæður fagna því, að byrjun komi í þessa átt.

Staðarfellshjónin, sem hafa fengið svo blandað lof fyrir gjöf sína, hafa nú ákveðið að gefa til skólabyrjunar 10 þús. kr., til þess að kaupa fyrir áhöfn á jörðinni. Eftir 16–20 ár er þessi sjóður, sem á að eflast með vöxtum, orðinn nógu stór til þess að kaupa áhöfn á Staðarfell. Hvort sem þarna verður reistur almennur kvennaskóli fyrir Vesturland eða ekki, er Staðarfell betri eign þegar áhöfn er fengin. En gjöfin er því skilyrði bundin, að skólinn taki til starfa fyrir 1926. Gjöfin er gefin í vissum tilgangi og hjónin vilja eðlilega gjarnan sjá einhvern árangur, áður en þau falla frá, sem getur orðið bráðlega, ekki síst þar sem þau eru hnigin á efri aldur og einkum konan orðin mjög heilsutæp.

Það gæti skeð, að fyrir einhverjum hv. þdm., sem fylgja hv. þm. Barð. að málum, vekti það, að jörðin mundi ganga úr sjer, ef stofnaður væri skóli á henni, en jeg er þess fullviss, að þeim systkinum Sigurbjörgu Kristjánsdóttur og Magnúsi Kristjánssyni er áreiðanlega treystandi til að bæta og prýða jörðina á alla lund. Þau eru uppalin á einu merkasta bændabýlinu í Ísafjarðarsýslu og munu aldrei gera því góða heimili neina vansæmd.

Hv. þm. Dala. (BJ) hefir svarað ýmsu öðru, sem hv. þm. Barð. hefir haldið fram, svo að jeg get farið fljótt yfir sögu. Að hv. þm. Barð. skuli setja þetta í samband við það, sem felst í frv. því, sem hv. 5. landsk. (JJ) bar fram snemma á þinginu, nær engri átt. Jeg vona, að hv. þdm. muni ekki sjá eftir þeim 3 þús. kr., sem fara í að halda uppi þessum skóla, því að eins og nú er ástatt eiga kaupstaðarstúlkur kost á mjög góðum skóla hjer og öðrum í Húnavatnssýslu, en þessir skólar geta með engu móti verið sjerskólar sveitastúlkna. Þó ber þess að gæta, að mörg sveitastúlkan hefir í báðum þessum tilgreindu skólum fengið góða undirstöðu, þótt. þeir væru engir sjerskólar.

Í öðrum löndum, einkum í Svíþjóð, er varið hundruðum þúsunda til þess að efla mentun sveitastúlkna, og þar sem með rjettu er kvartað undan fólksstraum úr sveitunum til kaupstaðanna, er ekki rjett að bæta við einni orsök þess með því að fella þennan styrk.