26.02.1925
Neðri deild: 17. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

32. mál, varalögregla

Jón Kjartansson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að taka til máls við þessa umr., þar sem jeg býst við, að frv. verði vandlega athugað í nefnd þeirri, er jeg á sæti í, og að mjer gefist því síðar tækifæri til að ræða það nánar. En þar eð hv. þm. Str. (TrÞ) þurfti af gömlum vinskap að beina til mín nokkrum orðum, fann jeg mig knúðan til að segja nokkur orð. Hann ásakar mig fyrir framkomu mína sem fulltrúa lögreglustjórans hjer í Reykjavík, í hinu svonefnda Ólafsmáli, sem allir munu kannast við. Jeg ætla mjer ekki að afsaka mig hjer, og síst fyrir þessum hv. þm. (TrÞ), því að hann er allra manna síst bær að dæma um gerðir mínar eða annara, sem afskifti höfðu af því máli. Það mátti ef til vill skilja ummæli hans svo, að jeg hafi einn ráðið úrslitum þess máls. En þar er of mikið gert úr áhrifum mínum, sem þm. gerir víst óviljandi. Jeg vann að þessu máli undir stjórn lögreglustjóra sjálfs, sem hver annar liðsmaður lögreglunnar. Það er fjarri mjer, að jeg vilji ásaka nokkurn í sambandi við umrætt mál. Til þess er jeg því of kunnur, að jeg veit, að það er ekki hægt. En hitt ætti jafnvel hv. þm. Str. (TrÞ) að geta skilið, að hversu góðum vilja sem 12–14 menn eru gæddir, og hversu vel sem þeir gera skyldu sína, þá fá þeir engu áorkað, þegar á þá er ráðist af heilum hópi manna. Og þetta dæmi er satt að segja lærdómsríkt, til að sýna, hvernig þeir leiðtogar eru, sem tekið hafa stjórn alþýðu þessa lands í sínar hendur, og sem veigra sjer ekki við að gangast fyrir því, að jafnvel heill pólitískur flokkur geri árás á lögregluna. Annars er hjer hvorki staður nje stund til þess að deila um framkomu mína í þessu máli, enda kemur slíkt frv. ekkert við. En úr því að hv. þm. (TrÞ) beindi orðum sínum til mín, þá get jeg ekki stilt mig um að láta í ljós undrun mína yfir ræðu hans, þeirri, sem hann flutti hjer áðan. Mig undrar það stórlega, að hann, sem þykist víst vera fulltrúi bænda, skuli telja sjer samboðið að lepja upp ósóma þann, sem staðið hefir undanfarið í blaði Alþýðuflokksins um þetta mál. Þar hefir því verið haldið fram, að tilgangurinn með frv. þessu sje eingöngu sá, að berja á a1þýðu þessa lands og jafnvel myrða hana. Slík ummæli eru svo mikil ósvífni, að það er hneykslanlegt, að fulltrúi bænda skuli hafa þau eftir sorpblaði hjer í þingsalnum.

Bæði þessi hv. þm. (TrÞ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vildu halda því fram, að óþarft væri að setja þessi lög, vegna þess m. a., að lögreglan hefði þegar fulla heimild til að kveðja menn sjer til aðstoðar, þegar henni þurfa þykir. Þetta er að vísu rjett, en þó furðar mig á því, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) a. m. k. skuli bera fram þessi mótmæli gegn frv. Honum ætti þó að vera það vel kunnugt, að í þau fáu skifti, sem lögreglan í Reykjavík hefir kvatt sjer menn til aðstoðar, þá hafa þeir verið svívirtir úr hófi fram, og það einmitt af flokksmönnum hv. þm. (JBald), fyrir það eitt, að gegna skyldu sinni. Hefir þetta jafnvel gengið svo langt, að menn, sem hafa verið fjelagar í verklýðsfjelagi hjer í bænum, hafa umsvifalaust verið reknir úr því, vegna þess, að þeir neituðu ekki að gera skyldu sína í þessu efni. Það hefir því mjög mikla þýðingu fyrir borgarana sjálfa, að til sje fast lið, sem lögreglan geti kvatt sjer til aðstoðar, þegar þörf krefur, í stað þess að verða að kveðja hina og þessa menn í hvert skifti, sem eitthvað kemur fyrir.

Störf lögreglunnar eru margvísleg og mörg þeirra eru mjög óþakklát, og því erfitt að kveðja menn til þeirra, hvenær sem vera kynni. Menn vilja t. d. ekki ráðast á vin sinn eða vini sína af fúsum vilja, og er því slík aðstoð oft látin í tje með hálfum huga. Og ekki bætir það úr skák, að reynslan hefir sýnt, að ekki hefir tekist að koma fram ábyrgð á hendur þeim, sem óhlýðnast hafa kvaðningu lögreglunnar. Þessu verður ekki kipt í lag, nema stofnað verði fast lið, sem lögreglan gæti gripið til, þegar hún fær ekki við ráðið — lið, sem starfar samkvæmt embættisskyldu.

Þessu frv. hefir einnig verið blandað saman við kaupgjaldsdeilur. Jeg get strax lýst yfir því, að jeg fyrir mitt leyti skal vera fús til að vinna að því, að sporna við þeim í framtíðinni. Það er nógu mikið tjón, sem hefir þegar af þeim hlotist, þó að reynt verði að koma í veg fyrir þær framvegis. En jeg veit ekki betur en að sú einasta tilraun, sem gerð hefir verið hjer á Alþingi, til að sporna við deilum þessum, hafi einmitt mætt einna snarpastri mótspyrnu af hendi hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem þó mun vilja telja sig fulltrúa verkamanna hjer í þinginu. Hv. þm. Str. (TrÞ) mintist á gerðardóm í þessu sambandi. Jeg skal ekkert um það segja, að svo stöddu, hversu heppileg sú aðferð kunni að vera, en rjett er, að það mál verði athugað. Hinsvegar skal jeg skjóta því til hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að eins og jeg í fyrra bauð honum að flytja með honum till. um stofnun fasts milligöngumanns í kaupgjaldsþrætum, eins er jeg enn reiðubúinn til að fylgja honum eftir megni, ef hann vill beita sjer fyrir því máli.