03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (2668)

32. mál, varalögregla

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að segja nokkur orð, til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu um þetta mál. Það hefir verið siður margra þingskörunga á liðnum tímum, og vil jeg feta í þeirra fótspor í þessu efni. Jeg þarf ekki að vera langorður, því jeg ætla hvorki að tala um Ólaf nje guð almáttugan, enda fæ jeg ekki betur sjeð en að hvorugur þeirra komi þessu máli nokkuð við. Það er óþarfi fyrir menn að hafa Ólaf stöðugt á milli tannanna í sambandi við þetta mál. Hann má gjarna vera í friði, því hjer ræðir ekki um ráðstafanir gegn liðnum atburðum, heldur er hjer um mál að ræða, sem snertir framtíðina. Eins býst jeg við því, að guð almáttugur fái sjálfur sjeð sjer farborða, hjer eftir sem hingað til. Hann hefir alt fram til þessa ekki verið upp á þing þetta kominn.

Jeg hefi tekið eftir því síðan farið var að tala um varalögreglu, að talsverður úlfaþytur hefir verið gerður gegn þeirri hugmynd. Margar fundarsamþyktir hafa verið gerðar til mótmæla, og eitt blað hjer í bænum, Alþýðublaðið er það kallað, hefir flutt mikið og langt mál á móti því, að varalögregla verði stofnuð. Það er athugandi, að öll þessi skrif og allar þessar ályktanir eru bygðar á því einu, að stofnun þessarar fyrirhuguðu varalögreglu sje beint gegn alþýðu þessa lands.

Ef orðið „alþýða“ er hjer notað í venjulegum skilningi, þá þýðir það ekkert annað en alt það fólk, sem þetta land byggir, og sjá þá allir, hversu heimskuleg þessi staðhæfing er. Og ef hjer er verið að gera greinarmun á öllum almenningi í landinu og þeim fáu embættismönnum, sem til eru, þá verður hið sama upp á teningnum. Engum getur dottið í hug, að þeir vilji stofna lögreglulið til höfuðs öllum almenningi landsins. En ef hjer er verið að freista þess, að afbaka merkingu þessa gamla, rammíslenska orðs og kalla verkamenn eina alþýðu þessa lands, þá verður skiljanlegra, hvað þessir menn meina. En staðhæfing þeirra um að varalögreglu eigi að stofna gegn verkamönnum er jafnheimskuleg fyrir því. Því fari nú svo, að frv. þetta nái fram að ganga, þá er vafalaust, að meira en helmingur þessa varalögregluliðs verður einmitt úr flokki verkamanna. Má því eins vel snúa dæminu við, þannig, að hjer eigi að stofna lögreglusveit verkamanna, og sýnist mjer, að þeir eigi síst að vera hræddir við slíka sveit, er gæti laga og rjettar í landinu, ef í nauðir rekur. Enda munu öll þessi skrif vera runnin undan rifjum örfárra manna, og er þá engu líkara en þeir hyggi til ófriðar, og vilji fyrirfram víkja úr vegi þröskuldi þeim, sem þá yrði á leið þeirra, lögregluvaldinu. Jeg segi ekki, að þessu sje þannig varið, en ekki er það með öllu ósennilegt. Öll mótmælin eru bygð á því, að varalögreglan sje stofnuð á móti sjerstakri stjett, sem þó er engin sjerstök stjett, að öðru leyti en því, að hún vinnur fyrir daglaunum, í stað þess að flestir embættismenn hafa föst árslaun, og enn aðrir hafa engin ákveðin laun fyrir störf sin, heldur vinna fyrir sjálfa sig, eins og t. d. bændur, sem þó eru „alþýðumenn“ engu síður en verkamenn.

Jeg skil ekki alt þetta veður, sem gert hefir verið út af jafneinföldu máli sem tillaga um stofnun ríkislögreglu er.

Jeg þarf ekki að minna þá hv. þm., sem sagnfróðastir eru, á þann sannleika, að þetta land misti sjálfstæði sitt vegna þess, að engin var til ríkislögreglan. Vegna þess, að alt framkvæmdarvald vantaði í hinu forna íslenska ríki, fjell það undir erlend yfirráð. Og í raun og veru stöndum við enn í sömu sporum. Hjer er ekki til neitt framkvæmdarvald, ef nokkur verulegur mótþrói rís. Víðast hvar á landinu er einungis einn lögreglustjóri, og í hæsta lagi annar maður honum til aðstoðar, sem eiga að standa á móti heilum hópi manna, ef til þess kæmi. Allir sjá, að slíkt getur ekki blessast, nema þar, sem við sjerstaklega löghlýðna menn er að eiga. Jeg hefi að vísu sjeð Halldór sál. Danielsson ganga einan á móti 20–30 norskum sjómönnum, sem óðu með rýtinga um götur Reykjavíkur, og reka þá niður á bryggju og um borð. En það kom til af því, að þessir sjómenn voru löghlýðnir, en það eru ekki allir.

Ýms önnur mótmæli, sem komið hafa fram gegn frv. þessu, get jeg fallist á. Sjerstaklega skilst mjer, að þessi lögregla verði of kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð, og enda fyrirkomulagið að ýmsu öðru leyti ekki svo gott sem skyldi. Jeg kysi fremur, að lögregluliði þessu yrði skipað með öðrum hætti, og get jeg því greitt frv. atkvæði til nefndar, í því skyni, að það taki þar breytingum til batnaðar.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) drap nokkuð á fyrirkomulag, sem jeg mundi heldur kjósa að hafa á ríkislögreglu, sem sje, að hún verði lögð undir stjórn lögreglustóranna, sem eru embættismenn ríkisins. Þeir stjórna nú því lögregluliði, sem kaupstaðirnir hafa komið sjer upp fyrir eigin reikning, og ættu engu síður að geta stjórnað lögreglu, sem ríkið kæmi upp og kostaði. Þetta yrði ódýrara og í alla staði heppilegra, að hinir föstu lögreglustjórar hefði einnig á hendi formensku ríkislögreglunnar. Þá mætti og skifta embætti lögreglustjórans í Rvík, enda kemur hvort eð er að því innan skamms. Í Rvík býr nú um 1/5 hluti allra landsmanna. Þangað eru langmestar siglingar og koma þangað því fleiri erlend skip en til nokkurrar annarar hafnar á landinu. Er því tími til kominn að lögreglustjóraembættinu verði skift þannig, að tollgæsla verði höfð sjer, en löggæsla falin öðrum embættismanni. Að þessu leyti er jeg sammála hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), og geri jeg því ráð fyrir, að hann greiði frv. þessu atkv. til nefndar, eins og jeg ætla að gera. (ÁÁ: Þetta er óskylt mál.) Hv. þm. (ÁÁ) má kalla þetta hvað sem hann vill, en við erum sammála um, að þessu megi breyta, og má því ætla, að hann gangi ekki í berhögg við sjálfan sig, með því að hafa á móti því, að þessi hlið málsins verði athuguð í nefnd. En það vil jeg segja hv. nefnd, sem frv. fær til meðferðar, að mitt atkvæði gildir ekki lengur en til 2. umr., ef jeg verð ekki ánægður með frv., eins og nefndin skilar því frá sjer.

Hverjum manni ætti að vera það ljóst, hversu mikil þörf er hjer ríkislögreglu eða varalögreglu, þó ekki komi til, að grípa þurfi daglega til hennar. Lögregluvaldið þarf að geta gripið til manna sjer til aðstoðar, sem hafa fengið æfingu í öllum þeim listum, sem lögreglumenn þurfa að kunna, manna, sem kunna að fara með verkfæri þau og vopn, sem lögreglu eru nauðsynleg. Þetta er fyrst og fremst nauðsyn vegna virðingar þeirrar, sem skylt er að bera fyrir lögreglunni. Því við hvað á ríkisvaldið að styðjast, ef það er talin sjálfsögð dygð, að sýna lögreglunni lítilsvirðingu? Það er rjett, að til varalögreglu mun sjaldan, eða vonandi aldrei, þurfa að gripa gegn innlendum mönnum, og legg jeg því ekki mikla áherslu á þessa hlið málsins. Landsmenn eru yfirleitt friðsamt fólk, og þó að þeim kunni á stundum að renna í skap, svo að lögreglan þurfi að skakka leikinn, þá hljótast ekki af því mannvíg eða ilska, enda þekkir hjer nálega hver maður annan. En gagnvart útlendingum er full nauðsyn ríkislögreglu, til þess að þeir beri virðingu fyrir löggæslu landsins. Menn geta ímyndað sjer, hvort útlendir togaraskipstjórar myndu leyfa sjer að taka formann strandvarnarbáts, og jafnvel sýslumann, og flytja þá til útlanda, eins og ekkert væri, ef þeir bæru snefil af virðingu fyrir löggæslu þessa lands. Vernd sú, sem við njótum undir verndarvæng breska heimsveldisins, eins og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) orðaði það, verður harla lítils virði, þegar ofstopafullir og ólöghlýðnir þegnar þessa heimsveldis sækja okkur heim.

Hvað á að gera, ef 20–30 útlendingar, þó engin hafi vopn, önnur en skammbyssur, koma hingað, bregða sjer upp í stjórnarráð og vísa landsstjórninni á dyr? Hvar á almenningur þá að leita verndar? Ef til vill hjá þessum 14 lögreglumönnum, sem til eru í Reykjavík og hafa verið barðir sundur og saman? Eða ætla menn að ganga á hólm við vopnaða ofstopamenn með lófunum einum, eða jafnvel hendur í vösum ? Nei, það, að erlendar þjóðir viti, að slíkt gæti komið fyrir í sjálfstæðu ríki, er ekki til þess fallið að vekja traust á landinu eða verða því til álitsauka. Og það er víst, að enginn græðir á slíku ástandi, hvorki auðvaldið, sem svo er kallað, nje því síður allur almenningur. Því er ekki hægt að neita, að nokkrir menn gætu komið og „annekterað“ landið með lítilfjörlegum byssuhólkum að vopnum, ef ekki er ríkislögregla til varnar. Auðvitað má vel vera, að einhverjir trúi því, að drottinn almáttugur komi þessari þjóð sjerstaklega til varnar, ef í nauðir rekur, en enga von hefi jeg um það. Í styrjöldinni miklu ákölluðu allar þjóðir drottinn og báðu hann um hjálp, til þess að drepa sem allra flesta óvinanna. Það varð nú ekki annað sjeð, en að allir fengju þessar óskir uppfyltar, eða a. m. k. gekk öllum vel að myrða fjandmennina.

Það má að vísu vel vera, að þeir frelsisgarpar, sem hæst tala á móti ríkislögreglu, ætli sjer að hlaupa til dönsku strandvarnabátanna, sem hjer eru, og biðja þá um hjálp, ef eitthvað blæs á móti. En það hefir bara aldrei verið svo um samið, að Danir ættu að veita okkur slíka hjálp, og því ekki að vita, hvort þeir kærðu sig nokkuð um það.

Nei, við eigum sjálfir að sjá okkur fyrir nauðsynlegum lögreglustyrk, enda er sjálfs höndin hollust, þar sem annarsstaðar. Það væri viturlegra en að þurfa að hlaupa um borð í erlend skip og biðja um hjálp, ef til þess kæmi, að hin reglulega lögregla fengi ekki við neitt ráðið.

Yfirleitt er mjer alveg óskiljanlegur allur þessi blástur út af þessu máli, sem ekki er beint gegn neinum ákveðnum mönnum eða flokkum, heldur á aðeins að sýna, að vernd ríkisins sje einhvers virði. Ríkislögreglan á að sýna mönnum, að það er holt að vera góður þegn, en ilt að vera illur þegn. — Að öðru leyti mun jeg ekki skifta mjer frekar af þessum umr.