03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

32. mál, varalögregla

Jakob Möller:

Hæstv. forsrh. (JM) var svo stuttorður í svari sínu til mín, að mjer finst rjettast að svara strax, því sem hann sagði. Hann var stuttorður, en óvenjulega gagnorður. — En orð hans hafa ekki áhrif á mig. Það get jeg fullvissað hann um.

Út af því, sem hann sagði, að hann hefði ekki efast um, að jeg yrði á móti frv., af því að Framsóknarflokkurinn er það, þá er best, að jeg segi honum og hv. deild, að úr því að jeg hefi heyrt einn góðan og eindreginn stuðningsmann stjórnarinnar segja, að frv. þetta væri alveg eins og vitlaus maður hefði samið það, þá verður Íhaldið að virða mjer til vorkunnar, þó að jeg telji það ekki beinlínis skyldu mína að fleyta því til 2. umr.

Það má vel vera, að um einhverja skyldutilfinningu geti verið að ræða hjá stuðningsmönnum hæstv. stjórnar, þegar hæstv. forsrh. leggur fram slíkt frv. En gagnvart mjer á stjórnin engan rjett, hvorki siðferðislegan nje vegna stöðu minnar, til að krefjast þess, að jeg styðji þetta frv.

Að öðru leyti vil jeg minna hæstv. forsrh. á það, að hann hefir ekki svarað neinu af því, sem jeg sagði viðvíkjandi afstöðu minni, en hún er bygð á því, sem þessi flokksmaður hans sagði. (BL: Vill ekki hv. þm. nefna nafn þess manns?) Jeg skal segja hv. þm. Ak. það, en hjer nefni jeg það ekki. (BL: Svo það er þá ekki jeg.) Það er hvorki hv. þm. Ak., nje nokkur, sem hjer er inni.

En það, sem jeg vildi leggja áherslu á, er það, að þó að frv. væri þann veg úr garði gert, að það hefði mátt fara í nefnd, þá hefir hæstv. forsrh. tekist svo óhönduglega flutningurinn, að ómögulegt er að verjast þeirri hugsun, að til þessa sje stofnað gegn ákveðnum flokki. Þegar stjórninni, auk alls annars, ferst svo óhöndulega, finn jeg ekki hvöt hjá mjer til að bjarga frv. til 2. umr.

Jeg skil vel, að hæstv. forsrh. ætlaði að láta þessar tvær sprengjur nægja á mig. En hann veit vel, að jeg fylgi ekki Framsóknarflokknum í öllum málum, og það er líklegast, að þessar sprengjur springi framan í hann sjálfan.

Hitt veit jeg, að stjórnarflokkurinn ætlar að láta kúga sig til þess að koma þessu máli fram. — En jeg læt engan kúga mig, hvorki til þess nje annars.