04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (2683)

32. mál, varalögregla

Jón Baldvinsson:

Það hefir kent allmikils hita í umræðum, og er það að vonum. En einkum virðist sem dálítil æsing hafi gripið hæstv. ráðherra, sem hjer hafa talað. Fyrir lítilli stundu síðan vildi hæstv. fjrh. (JÞ) knjesetja hæstv. forseta (BSv) fyrir fundarstjórn hans. En hæstv. forsrh. (JM) ljet í gær orð falla, sem ekki urðu skilin öðruvísi en sem ógnun til þeirra embættismanna, sem hjer sitja. En sem betur fer hefir ekkert tillit verið tekið til slíks.

Það er ekki margt, sem jeg hefi að athuga í ræðum hv. þm., sem hjer hafa talað. Aðalmótmælin gegn ræðu minni hafa komið frá hæstv. forsrh. (JM), enda er það hann, sem einkum heldur uppi vörn í þessu máli. En þó vil jeg, áður en jeg sný mjer að honum, víkja að ummælum einstakra þdm. Verður þá fyrst fyrir hv. þm. V.-Sk. (JK). Talaði hann snemma í málinu, og virtist ræða hans mest kveinstafir út af því, að honum hefði ekki verið hælt nógu mikið í ræðum manna hjer, fyrir afrek sín sem fulltrúi lögreglustjóra. Að öðru leyti voru skoðanir hans hinar fáránlegustu, sem vænta mátti, og ekki laust við, að hann kendi „grunns“ og jafnvel, að búið væri að draga hann í „þurkví“ í þessu máli.

Ein firran hjá þessum hv. þm. stóð í blaði hans í dag, þar sem svo virtist sem hann hefði fundið nýtt verkefni handa varalögreglunni, e. k. verðlagsskrásetningu, þ. e. að setja verð á vörur kaupmanna. Virðist rjett, að liðið þiggi nafn af þessu starfi og heiti kaupmannalið.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði hjer alllangt erindi í gær, og virtist hann vera ákaflega reiður yfir þeirri andstöðu, sem frv. sætti. Virtist honum hún næsta óskiljanleg. Þá vildi hann sem fjrh. fetta fingur út í áætlun mína um kostnað þann, sem leiða mundi af frv., og taldi hana engri átt ná. En sje svo, þá er það engum að kenna öðrum en sjálfri hinni hæstv. stjórn, sem enga áætlun hefir samið fyrir hinni afarvíðtæku heimild til fjáreyðslu, sem í frv. felst. Í áætlun minni var hvergi farið út fyrir þann ramma, sem frv. sjálft heimilar. Þvert á móti. Og hæstv. fjrh. (JÞ) mætti þykja vænt um, ef hann hefði ætíð haft jafngóðan grundvöll til að gera á áætlanir sínar og jeg hafði í þessu tilfelli. Mjer skildist hæstv. fjrh. (JÞ) halda því fram, að kostnaðurinn mundi ekki nema yfir 6–7 þús. kr. (JÞ: Nei!) Ef hæstv. ráðherra hefir ekki nefnt þessar tölur, þá bið jeg afsökunar. En hæstv. forsrh. (JM) nefndi tölu svo lága, að hin lítilfjörlegasta framkvæmd þessara laga hlyti að fara þar langt fram úr.

Hv. þm. Dala. (BJ) gerði grein fyrir atkv. sínu, og kvaðst a. m. k. mundu fylgja frv. til nefndar. Jeg gat ekki búist við betra af honum. En það kom líka nokkuð nýtt fram í ræðu hans. Hann gekk sem sje út frá því, þvert á móti því, sem hæstv. forsrh. vill láta í veðri vaka, að þessi varalögregla eigi að vera vopnuð. Það kom fram hjá honum, að hann átti við vopnað lið, er hann var að tala um það í sambandi við það, að ræningjar gengju á land. En allir ættu að sjá, að lítið gæti orðið um varnir, þrátt fyrir það, þó hjer yrði stofnsettur allur sá her, sem frv. framast leyfir, og útbúinn með skammbyssur og rýtinga, ef hjer lægju herskip, sem gætu skotið á bæinn. Það er því fjarstæða ein, er hv. þm. (BJ) talaði um varalögregluna sem vörn gagnvart útlendingum. Slíkt er eingöngu gert til þess að villa fyrir um hinn eiginlega tilgang frv.

Jeg ætla, að jeg hafi þá ekki mikið frekar að athuga við ræður einstakra hv. þm. Þó vil jeg drepa á ummæli hv. þm. V.-Ísf. (AA) um bæjarstjórn Reykjavíkur. Jeg tel það ofmælt hjá honum, er hann sagði, að hún vildi engar umbætur gera á skipun lögreglunnar, meðan núverandi lögreglustjóri hjeldi embætti. Jeg veit ekki betur en það hafi verið talsvert mikill hluti bæjarstjórnarinnar, sem hefir viljað bæta lögregluna. Og þó að þetta, er hann sagði, kunni að hafa heyrst, þá má ekki af því álykta, að lögreglustjóri Reykjavíkur sje óhæfur til síns embættis.

Þá kem jeg að hæstv. forsrh. (JM). Hann byrjaði andmælaræðu sína á því, að kvarta yfir því, hve erfitt væri að tala við okkur hv. þm. Str. (TrÞ) um þetta mál. Það er ekkert undarlegt, því að hæstv. forsrh. (JM) vill, eins og aðrir, sem þessu frv. mæla bót, gera úr því alt annað en sjálft frv. ber með sjer. Það er því ekkert undarlegt, þó að hæstv. forsrh. gangi illa að verja frv., og það hefði hann átt að sjá áður en hann flutti það hjer inn í deildina. Það er að vísu rjett, að frv. má breyta frá því, sem það er nú fram flutt. En þegar á að greiða um það atkvæði nú, þá er ekki hægt að taka til greina loðin ummæli hæstv. forsrh., heldur falla atkvæðin um frv. og þá stefnu, sem í því birtist, eins og það liggur fyrir.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að aðaltilgangur frv. væri sá, að gera lögregluna hjer í Reykjavík öfluga; en til þess þarf sannarlega ekki jafnvíðtæka heimild og stórkostlegt herskyldufrv. eins og það, sem hjer er sett af stað. Til þess þarf ekki nema fáa menn og dálítið fje úr bæjarsjóði, og jeg er viss um að bæjarstjórn mun gera það, ef hún sjer þess brýna þörf.

Þá var hæstv. forsrh. ennfremur að segja það, að stjórnin ætti ekkert að segja um notkun þessa liðs. En á hún ekki að skipa foringja liðsins? Jeg sje ekki betur en frv. geri svo ráð fyrir, og hæstv. forsrh. hefir mjer vitanlega ekki hallast að öðru frekar. En ef forsrh. skipar manninn, þá er jeg ekki í neinum vafa um það, að hann mun skipa þann mann einn, er hann veit, að gera muni vilja stjórnarinnar í öllu og ræður þá menn eina í liðið, sem hann veit, að gera hennar vilja. Jeg veit að vísu, að þessi hæstv. núverandi stjórn verður ekki eilíf, en hún getur ráðið hjer um nokkurn tíma enn, og með skipun þessa liðs getur hún ráðið því, hvers taum það dregur. Það er því rangt hjá hæstv. forsrh. (JM), að stjórnin ráði ekki miklu um liðið. Sú stjórn, sem stofnar liðið, ræður miklu um það, úr hvaða flokki mennirnir eru.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að verkamenn og sjómenn mótmæltu frv., vegna þess, hvernig það hefði verið túlkað fyrir þeim. En jeg sje ekki, að það hafi verið túlkað öðruvísi en hann hefir nú túlkað það sjálfur hjer í þessari hv. deild.

Það hefir verið ein vörn hæstv. forsrh. (JM) og fleiri formælenda þessa frv., að það sje eins og lögreglufrv. hinnar „socialistisku“ stjórnar í Danmörku. En það er þvert á móti. „Socialistarnir“ í Danmörku eru að afnema herskyldu hjá sjer með sínu frv., en íslenska stjórnin er að innleiða herskyldu. Lögregluher Dana á að verða 6 þúsundir manna. Lengra treystist stjórnin ekki að ganga í bráð í því að afnema herinn. Hún setur hjer millistig. En hún kýs minna böl, til að losna við hið meira. Þessi tala er ekki hærri en sú, sem íslenska stjórnin hugsar sjer fyrir kaupstaðina íslensku, sem þó eru 100 sinnum mannfærri en Danmörk. Allir sjá, að hlutfallsleg tala fastra lögregluþjóna í kaupstöðum landsins væri — eftir frv. dönsku stjórnarinnar — ekki hærri en 70. Hjer munar því mjög miklu.

Hæstv. forsrh. (JM) var að hæla dönsku stjórninni fyrir það, hvað hún væri íhaldssöm. Jeg veit nú ekki, hversu þakklát hún mundi vera hæstv. forsrh. fyrir þessa lýsingu, ef henni yrði kunnugt um hana. En úr því að Íhaldsráðherranum finst til um þetta höfuðeinkenni, þá ætti hann fyrir hönd íslensku stjórnarinnar að flytja hjer á Alþingi eitthvað af þeim merkilegu umbótatillögum í þjóðfjelagsmálum, sem danska stjórnin flytur nú á ríkisþinginu. Jeg fer nú að halda, að jeg eigi vísan hauk í horni, þar sem stjórnin er og Íhaldsflokkurinn, þegar hjer kemur fram frv. mitt um að banna næturvinnu. En þó að það frv. sje harla smávægilegt hjá ýmsu, sem danska stjórnin ber fram til verndunar og hagsbóta fyrir alþýðu, þá treysti jeg samt valt á stuðning Íhaldsins. Jeg held, að skraf hæstv. forsrh. (JM) í þá átt hafi verið tómur fyrirsláttur.

það hefir dregist hjer inn í umræðurnar, hvernig ætti að miðla málum í kaupdeilum milli verkamanna og atvinnurekenda, og hefir verið talað bæði um gerðardóm og sjerstakan sáttasemjara. Það er rjett, að verkamenn hafa löngum sett sig á móti því, að hafðir væru lögákveðnir gerðardómar, og liggja til þess ástæður, sem jeg nenni ekki að rekja hjer. En hitt er víst, að verkamenn telja sjer vinning að því, að til sje maður, þegar deilur rísa, sem reyni að grípa inn og leiða aðilja saman, ef auðið mætti verða að koma á sættum. Hefir slíkt oft reynst vel og víða verið reynt, t. d. í Danmörku. En í sjálfu sjer er ekki nema eitt meðal til að jafna slíkar deilur, en það er að nema burtu það atriði, sem deilan stendur um. Á hvern hátt það megi verða í þessu umrædda tilfelli, skal jeg ekki fara út í að sinni.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að hann þekti ekki til þess, að Íslendingar væru löghlýðnari en aðrar þjóðir, og vildi sanna það með því, að hegningarhúsið væri fult af föngum, og jafnvel eitthvað af slíkum mönnum í gistihúsum borgarinnar. En það er þó ekki langt síðan að þar var enginn maður. Og það var ekki fyr en yfir þyrmdi með bannlagabrotin, sem þróast hafa svo dæmalaust vel undir stjórn hæstv. forsrh. (JM), að hegningarhúsið stendur troðfult. Og veitti víst ekki af að byggja vænt tugthús í viðbót, ef það ætti að rúma alla sökudólgana.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að frv. ætti að losa fjöldann undan þeirri skyldu, er á borgurunum hvíldi, að veita lögreglunni aðstoð. Ef þessi orð eru góðgjarnlega skilin, þá ætti að liggja í þeim, að menn ættu ekki framar að vera skyldir með lögum til þess að aðstoða lögregluna. En þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðherra, því að í frv. er ekki gert ráð fyrir að fella úr lögum eldri ákvæði um þetta. En sje hitt meining hans, að það eigi aðeins að taka vissa, útvalda menn í varalögregluna eða herinn, þá finst mjer það mikið verra heldur en nokkru sinni almenn herskylda. það væri háskalegt í mínum augum.

Hæstv. forsrh. (JM) vildi vefengja það, er jeg sagði, að við værum lausir við hernaðarósómann. Herferðir voru farnar áður hjer á landi, sagði hæstv. ráðherra, og vitnaði aftur í fornöld. En nú sagði jeg einmitt, að vopnaburður og hermenska mundi hafa átt mestan þátt í því, að Íslendingar mistu frelsi sitt til forna. En nú erum við lausir við hernaðarósómann og höfum lengi verið, að undanskildu því, þegar hæstv. forsrh. (JM) Ijet fara herförina forðum gegn rússneska munaðarleysingjanum.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að það væru takmörk fyrir því, hve miklu fje bæjarsjóðir gætu kostað til löggæslu. Það er rjett; bæjarsjóðir hafa takmarkað fje að verja til slíks, en þó mundu þeir vissulega geta varið enn nokkrum þús. kr. til þess, ef þörf gerðist. En svo virðist, sem hæstv. forsrh. álíti, að engin takmörk sjeu fyrir því, sem ríkissjóður geti lagt fram í þessu skyni.

Þá upplýsti hæstv. forsrh. (JM), að menn úr bæjarstjórn Reykjavíkur hefðu komið til sín og óskað eftir styrk úr ríkissjóði til lögreglunnar hjer. Eins og margt fleira í ræðu hæstv. forsrh. var þetta ónákvæmt frá skýrt og loðið. Mjer er þetta vel kunnugt úr bæjarstjórn Reykjavíkur, og veit, að hún hefir litið svo á, að ríkissjóði bæri að leggja fje fram til lögreglunnar hjer, ekki af því, að bærinn hefði ekki skyldu til þess að annast löggæsluna sjálfur, heldur vegna hins, að talsvert kveður að því, að lögregluþjónar þurfa oft að gegna ýmsum störfum í ríkisins þágu, sem ekki koma löggæslu við. Og það er með tilliti til þessarar þjónustu, sem bæjarstjórn hefir farið þess á leit, en ekki vegna almennrar löggæslu. Þetta er því rangt hjá hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. var að gera að gamni sínu, líkt og hv. þm. Dala. (BJ), og ljest ekki kunna að gera grein á alþýðu og öðrum mönnum hjer í landi. Jeg held nú samt, að þetta frv. beri ljósan vott þess, að hann kunni fyllilega að gera mun á alþýðu og útgerðarmönnum að minsta kosti.

Hæstv. forsrh. kvað það vera fjarstætt allri skynsemi, að tala hjer um 30 ára herskyldu. En hvað segir sjálft frv.? Ef hæstv. forsrh. (JM) kallar þetta vitleysu, þá er það staðfesting á því, er einn hv. þdm. sagði, að frv. væri eins og það hefði verið samið af vitlausum manni.

Í seinni ræðu sinni vildi hæstv. forsrh. gera lítið úr því, hvern tíma æfingarnar tækju, og var hann þó margbúinn að taka það fram, að liðið þyrfti að vera vel æft. Þetta er því hvað á móti öðru og stangast, eins og svo margar röksemdir hans í þessu máli. Hann var líka að hugga menn með því, að fást mundi nóg af ungum og áhugasömum mönnum í liðið, sem gengi í það af fúsum vilja, án þess að beita þyrfti skyldukvöðinni. Þetta eru líklega sömu ungu mennirnir, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að gengið hefðu hjer um þingbekki í fyrra til þess að fá menn til að styðja þetta mál. Sje það þetta, sem vakir fyrir hæstv. forsrh., þá verður þetta líklega einskonar áhugalið hæstv. stjórnar, menn, sem langar í tuskið. En líklega tryggir það samt ekki friðinn í landinu. Það gæti verið varhugavert, ef þessir ungu áhugamenn ættu hagsmuna að gæta í deilum, sem að höndum kynnu að koma. Það gæti orðið til þess, að þær yrðu harðari og alvarlegri. Þess var ekki gætt í þeim atburðum, sem hæstv. forsrh. (JM) var nýlega að tala hjer um.

Hæstv. forsrh. (JM) vefengdi það, að forstöðumaður liðsins ætti að hafa full laun. Það stendur þó fullum stöfum í aths. fyrir frv. Það er gert ráð fyrir því í frv., að forstöðumaður taki laun eftir samkomulagi við ráðherra. Þetta á sjálfsagt að vera valinn maður, með fullum launum. Þetta er þýðingarmikið og ábyrgðarmikið starf, og verður ekki haft í hlaupavinnu eða hjáverkum — nema ef einhver útgerðarmaðurinn þættist geta þetta í frístundum sínum — en það þætti nú kanske ekki sem heppilegast.

Þá vildi hæstv. forsrh. vefengja kostnaðaráætlunina, og hefi jeg svarað því. Það er ekki rjett, að jeg hafi lagt saman stofnkostnað og árlegan kostnað. En jeg gerði ekki ráð fyrir húskostnaði, og má þó búast við, að ráðh. þykist þurfa að koma upp hermannaskálum a. m. k.

Þá kem jeg að merg þessa máls. Það kom fram, þegar hæstv. forsrh. var píndur til sagna, að hann hefir eingöngu í huga deilur verkamanna og atvinnurekenda. Hann nefndi aðeins dæmi um slíkar deilur, auk ólafsmálsins 1921. Þegar hann er búinn að skýra frv. á þennan veg, er ekkert undarlegt, þó að menn álíti, að því sje stefnt gegn verkamönnum.

Verkamenn þóttust hafa fulla vissu fyrir því, að þessu væri stefnt gegn sjer. Því miður er sú vissa staðfest með orðum hæstv. forsrh. sjálfs. Eiginlega verður ekki annað dregið af orðum hans en að það sje meining hans, ef deila kemur upp, að láta herlið skera úr og skakka leikinn. Það þarf víst ekki að segja ráðherranum, sem er svo fróður um ýmislegt, sem gerist erlendis, að þar er það alveg að leggjast niður, að herlið sje notað til slíkra hluta. Það þykir ekki lengur rjett, og stefnir alt að því nú, að láta lögregluna leiða slíkt hjá sjer.

Eftir atvikum verður að ætla, að þessari lögreglu sje beint gegn verkamönnum. En ef atvinnurekendur gera verkbann? Ætlar þá Íhaldsstjórnin að senda lögregluna heim til þeirra og neyða þá til að koma vinnu af stað? Ef hugsað væri um fullkomið jafnrjetti, ætti þetta að koma fram. Þegar lögreglan var notuð erlendis í kaupdeilum, þá einmitt sýndi það sig margoft, að atvinnurekendur gerðu leik til þess að fá uppþot, til þess að fá tækifæri til að kalla á lögregluna. Það væri ákaflega handhægt fyrir atvinnurekendur hjer, ef verkfall stæði yfir, að láta til málamynda fara að flytja salt eða eitthvað annað milli húsa niðri á hafnarbakka og reyna þannig að koma af stað vandræðum, sem spilti fyrir málstað verkamanna. Það er svo sem ekki að efa, hvernig það yrði túlkað, þegar Morgunblaðið færi að segja frá. Nei, þessar deilur eru viðkvæmar, og það þarf gætni á báðar hliðar. Jeg aðeins spyr: Óttast ekki hv. þm., að þegar búið væri að nota lögregluna einu sinni eða tvisvar til þess að sprengja samtök verkamanna, óttast þeir þá ekki samtök verkamanna á móti, og að tveir gagnstæðir flokkar myndist ? Jeg aðeins spyr hæstv. forsrh., og óska, að hann taki þetta til athugunar.

Þetta er engin hótun frá minni hendi. Jeg aðeins bið menn að athuga, hvað líklegt væri, að koma mundi fram.

Þrátt fyrir þessa túlkun hæstv. forsrh. á frv., játar hann þó, að hættulegt sje að safna stjett á móti stjett. En það er einmitt það, sem hann er að gera, og mjer finst hann furðu bíræfinn, að neita því.

Það, sem unnist hefir við þessar umræður, er margt. Það hefir unnist, að hæstv. ráðherra hefir algerlega gengið frá frv. stjórnarinnar og enginn hefir verulega mælt því bót. Það sýnir, hversu óforsvaranlegt frv. er. Þeir, sem sömdu frv., hafa þó fært það í þann búning, sem stjórnin óskaði. Hún hefir treyst á mátt og vald í þinginu til þess að koma því fram. Hún hefir treyst því, að hún gæti haft flokksmenn sína auðsveipa og fylgispaka, og unnið sjer viðbótarfylgi með hótunum um embættismissi o. s. frv. Nú sýnist alt ætla að bresta, og hún reynir að gera sem minst úr öllu saman, dregur saman seglin meir og meir, er á stöðugum flótta og fer sífelt minkandi.

Meðferðin á þessu máli minnir á þjóðsögurnar um umskiftingana. Hæstv. forsrh. (JM) hefir farið eins að og sagt er um álfkonurnar; þær tóku ferlegan risa og þæfðu hann, þar til hann var orðinn að litlu barni. Varalögreglufrv. er ferlegur risi, og hæstv. forsrh. hefir nú verið að reyna að hnoða það saman og gera það sem allra minst. Jeg vona nú samt, að þó að hæstv. forsrh. sje búinn að gera þessa töfra, þá takist honum ekki að koma þessari ófreskju inn í mannheima, undir því yfirskini, að þetta sje lítið og saklaust barn.