05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

32. mál, varalögregla

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að játa það, að mjer hefir ef til vill ekki skilist fullkomlega, hvað háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) átti við, er hann talaði um hið erlenda hervald, sem við lifðum í skjóli við. Síðan talaði hann um, að það væri lega landsins, sem okkur hlífði, og skilst mjer þá, að það sje hafið, sem hlífi okkur, en ekki erlendur her. Enda mundi það fljótt sýna sig, ef við værum í nánara nágrenni við hið erlenda hervald, að þá mundi skjól þess minna haldkvæmt. Það er því rjett hjá háttv. þm., það er hafið, sem hefir verið okkar hlífiskjöldur, en eigi erlent hervald. Hann taldi þess eigi þörf, að óttast sjóræningja, eins og hjer var fyrrum alment. Jeg talaði heldur ekkert um sjóræningja. Það voru skipshafnir af fiski- eða flutningaskipum, sem jeg átti við, að vaðið mundu geta uppi, vopnaðir eða öðruvísi, og orðið okkar 14-manna lögreglu ofurefli, og það hygg jeg, að erlendar þjóðir mundu ætla okkur væri ekki ofætlandi að hjálpa okkur sjálfir í þeim efnum. Setjum svo, að við færum að kvarta, t. d. við bresku stjórnina, yfir því, að ein eða tvær enskar skipshafnir hefðu vaðið hjer uppi með óspektum og við ekki ráðið við þær. Hvort mundi ekki Bretinn verða smáskrítinn, núa úr augum sjer stýrurnar, horfa á oss og spyrja, hvort þetta væri hið nýja, fullvalda, íslenska konungsríki, sem þannig væri háttað, að geta ekki af sjálfsdáðum haldið uppi lögum og reglu í landinu? Hvað viðvíkur sjóræningjum, getur þetta að nokkru leyti rjett verið, sem jeg sagði, því kæmi upp nýr ófriður erlendis og barist yrði um yfirráð siglingaleiðanna, er það þá nokkuð ólíklegt, að slíkt geti átt sjer stað? Hvað viðvikur þessari ensku lögreglu á hafinu, þá þekki jeg ekki til þess, þótt háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) segi, að við höfum notið góðs af henni. Hitt man jeg, að „róstugt var í Rifi, þá ríki Björn þar dó“, og hafa Englendingar aldrei haft hjer lögreglu á sjó okkur til varnar. Og þessi eftirlitsskip þeirra, sem hjer hafa verið á sveimi umhverfis landið, munu helst hafa það hlutverk að vinna, að sjá um, að hin íslensku strandvarnarskip hafi ekki um of hendur í hári enskra lögbrjóta á fiskimiðum okkar. Jeg get því ekki skilið annað en að háttv. þm. (ÁÁ) hafi sagt þetta í saklausri einfeldni. En jeg fullyrði, að sú skoðun, sem hann þá hjelt fram, leiddi til þess, að beðið yrði verndar erlends hervalds. Það er annars allundarlegur orðinn, allur þessi vefur út af þessu ríkislögreglufrv. Allir háttv. þm. virðast vera sammála um það, að vjer verðum að hafa lögreglu á sjó, til að berja á innlendum og erlendum fiskiskipum. Ekki hefir það heyrst, er ákveðið var með lögum að kaupa eða leigja skip til strandgæslunnar, að það væri eingöngu ætlað til þess að berja á íslenskum sjómönnum. Sama gegnir um þessa auknu lögreglu á landi. Henni hefir aldrei verið ætlað annað hlutverk en að halda í skefjuma innlendum og erlendum lögbrjótum. Að henni sje stefnt gegn ákveðinni stjett manna, nær ekki nokkurri átt. Í frv. sjest ekkert, er rjettlæti slíka skoðun, enda geri jeg ráð fyrir, að hæstv. forsrh. (JM) muni neita slíkum áburði. Væri þá og þetta frv. beint brot á stjórnarskrá ríkisins, og munu allir treysta forseta vorum til að sjá við því og vísa slíku frv. frá, ef svo freklega skyldi brjóta lögin. En það er sjálfsagt mál, að ríkið eigi sjer lögreglu. En á sama má standa, hvaða frv. það verður, sem um þetta efni fer til nefndar. Gerir því ekki til, þótt þetta verði drepið, ef annað frv. kemur strax í staðinn. Jeg sje enga ástæðu til að fresta þessu máli, nema ef vera skyldi þá, að menn vildu ekki lægja sig og játa, að þeir hefði farið of geist af stað til að andmæla þessu frv. stjórnarinnar. Jeg tel það ófært, að hafa enga lögreglu, sem ríkið ráði yfir, því þótt bæjarfjelögin hafi lögreglu nokkra, þá leggur ríkið aðeins til lögreglustjórana, sem eru þeir einu menn er það ræður yfir, til þessa starfs, og er það algerlega ófullnægjandi.