11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Eins og menn hafa nú sjeð, þá á jeg að þessu sinni síðustu brtt., sem fram hefir komið við fjárlagafrv. Það er ekki oft, að jeg komi fram með till., sem telja megi til bitlinga, en það sannast hjer, að einu sinni verður alt fyrst. Svo stendur á um þennan mann, sem hjer er um að ræða, að hann er mikill hagsleiksmaður á útskurð í svipuðum stíl og Stefán Eiríksson var. En í fyrra varð hann fyrir því óhappi að verða máttlaus öðrumegin, og kenna læknar það ofreynslu. Hann hefir einkum stundað útskurð í fílabein, og segja læknarnir, að það sje ákaflega óholt starf. Síðan þetta kom fyrir, hefir hann legið, en er þó heldur að skána. Jeg kom til hans síðast í gær og sá, að hann er heldur að hressast, svo að líkur eru til þess, að hann geti orðið starffær eftir nokkurn tíma. Þessi maður er bláfátækur og hefir mikinn barnahóp, en hann er svo skapi farinn, að hann vill alls ekki leita fátækrastyrks. Hann hefir sagt við mig, að hann mundi fyr svelta í hel með öllu sínu skylduliði en að hann leitaði á náðir sveitarinnar. Ýmsir vinir hans hafa verið að skjóta saman mánaðarlegum styrk handa honum, en það hrekkur skamt. Og nú er ekki útlit fyrir, að hann geti haldið í húskofann, seni hann býr í, nema hann fái einhvern styrk. En jeg veit, að þessi mikli hagleiksmaður muni, ef hann kemst til heilsu, borga það vel síðar, sem honum er hjálpað nú. Það hefir verið sagt um þennan mann, sem er dóttursonur Bólu-Hjálmars, að skáldgáfa Bólu-Hjálmars hafi farið í hendurnar á þessum dóttursyni hans. Annars er það nú svo, að hann er líka skáld, þótt lítið beri á því. Jeg vil nú vona, einmitt af því hve mikið er komið inn í fjárlögin, að háttv. þdm. láti sig ekki muna um þessa litlu upphæð. Hjer er um mjög brýna þörf að ræða. Á heimilinu eru 5 börn, og það yngsta nýfætt, og jeg þarf ekki að taka það fram, að maðurinn getur alls ekkert unnið ennþá.

Þá skal jeg víkja fáeinum orðum að því, sem hv. frsm. fyrri kafla fjárlagafrv. (ÞórJ) sagði um 4. brtt. hv. fjvn. Hann sagði, að sjer þætti undarlegt af mjer að lýsa því yfir, að jeg teldi enga þörf á því að halda einkafund með hv. þm. um símasamningsmálið, og taldi hann einmitt nú meiri ástæðu en nokkru sinni fyr til þess að halda þennan umrædda fund.

Jeg sagði nú ekki, að jeg ætlaði ekki að halda þennan fund, heldur aðeins það, að jeg áliti það ekki nauðsynlegt, ef brtt. nefndarinnar verður samþykt; en ef hv. þm. óska eftir því, þá hefi jeg ekkert á móti því, eins og jeg líka lýsti yfir þá, að þessi fundur sje haldinn, ef nokkur tími verður til. En mjer skilst, að ef þingið vill áskilja sjer rjett til þess að segja til um það, hvort ganga skuli að samningnum eða ekki, þegar þar að kemur, þá hafi það minni þýðingu að skýra frá því nú, hvernig málinu er komið og hvaða leið muni verða farin. Um þakklæti eða vanþakklæti í þessu máli er það að segja, að jeg hefi aldrei búist við neinu þakklæti fyrir aðgerðir í því. Jeg veit, að hvað sem gert verður, þá verður það vanþakkað. En ástæðan til þess, að jeg hefi óskað eftir því að fá fult umboð til þessara samninga, er sú, að jeg álít, að það veiti sterkari aðstöðu, ef maður getur gert bindandi samning, því að þegar hinn aðilinn getur átt von á því, að það verði að taka samningana upp af nýju, þá er líklegt, að hann geymi sjer svigrúm til þess að teygja sig eitthvað lengra þá.

Jeg skal ekki fara neitt út í ádeilu hv. þm. Str. (TrÞ) á hæstv. fjrh. (JÞ), en aðeins benda honum á það, að jeg man ekki betur en að hv. fjvn. sniði nokkuð af kröfum þeim, sem búnaðarþingið hafði gert um styrkinn til Búnaðarfjelagsins. En það þýðir, að fjvn. sá sjer ekki fært að taka til greina óskir bænda hvaðanæfa af landinu. Nú er hv. þm. Str. sjálfur í fjvn. og hefir talið rjett að sníða af kröfum búnaðarþings. Mjer finst það því sitja illa á honum að atyrða hæstv. fjármálaráðherra fyrir, að hann vildi ekki fylgja till. búnaðarþingsins í öllu.

Viðvíkjandi frystihúsunum, þá skal jeg segja það, að jeg skildi hæstv. fjrh. þannig, að honum þætti ilt, ef það yrði að hverfa frá útflutningi á kældu kjöti sökum þess, að það væri verðmeira en fryst kjöt. Það eina, sem háttv. þm. Str. gat fundið hæstv. fjrh. til foráttu, er það, að hann var ekki sannfærður um það, að nál. kæliskipsnefndar væri fyllilega á rökum bygt í öllum atriðum. Það verður að líta svo á, að enn sje ekki fullreynt eða sannað, að ekki megi takast að flytja út kælt kjöt. En sökum þess, hvað það er áhættusamt, þá er full ástæða að reyna jafnframt, hvernig gengur með útflutning á frystu kjöti.