05.05.1925
Neðri deild: 72. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

32. mál, varalögregla

Frsm. meirihl. (Bernharð Stefánsson):

Þegar þetta mál var til 1. umr. hjer í deildinni, þá urðu svo miklar umr. um það, að jeg hygg, að flest hafi þá komið fram, sem um það þarf að segja, bæði með og móti. Jeg mun því ekki verða mjög langorður, og get að mörgu leyti látið nægja að vísa til nál. meirihl. allshn. á þskj. 319. Eins og þar er tekið fram, þá gat allshn. ekki orðið sammála um þetta mál; meirihl. hennar getur ekki annað en ráðið hv. deild til að fella þetta frv., en minnihl. ræður til að samþ. það, þó með gagngerðum breytingum.

Þótt við, sem erum í meirihl. nefndarinnar, leggjum til, að frv. þetta verði felt, þá vil jeg leyfa mjer að fullyrða það, að við viljum stuðla að því engu síður en aðrir, að í þessu landi sje haldið uppi lögum og rjetti. En við lítum svo á, að lögum og rjetti verði ekki betur borgið, þó að þetta frv. yrði samþ., og að það sje hægt að tryggja rjettaröryggi í landinu án slíkra lagabreytinga. Í þessu frv. er farið fram á að stofna varalögreglu, sem sje til taks „þegar sjerstaklega stendur á“ og lögreglulið bæjanna reynist of fáment. Hvað hina venjulegu löggæslu snertir, þá er það auðvitað mál, að varalögreglan, ef hún kemst á, getur ekki með neinu móti aðstoðað við hina daglegu löggæslu, sem þarf í kaupstöðum landsins, ekki heldur við önnur verk því skyld, t. d. tollgæslu. Ef því hinni daglegu löggæslu í bæjunum, tollgæslu og öðru slíku, er áfátt, þá mundi samþykt þessa frv. ekki á nokkurn hátt bæta úr því. Eina ráðið til að bæta ástandið að þessu leyti, mundi án efa vera það, að fjölga hinu fasta lögregluliði, sem í bæjunum er. Það er tekið fram í nál. meirihl., að við teljum, að vel gæti komið til mála, að ríkið styrkti bæina að einhverju leyti til þess að auka og bæta lögreglulið sitt, vegna þeirra starfa, sem lögreglan hefir á hendi fyrir ríkið.

Að því er virðist, er nú tilgangurinn með þessu frv. heldur ekki sá, að bæta hina venjulegu löggæslu í bæjunum nje tollgæsluna, heldur hitt, eins og stendur í greinargerð frv., og líka er tekið fram í nál. hv. minnihl., að þessi varalögregla á aðeins að vera til taks, þegar alveg óvanalega stendur á. En þetta, að óvanalega standi á, þannig, að lögreglan eigi einhverra hluta vegna örðugt með að framkvæma starf sitt, getur altaf komið fyrir; en ef það kemur fyrir, þá vill svo vel til, að í núgildandi lögum eru ákvæði, sem leggja þá almennu skyldu á herðar borganna að koma lögreglunni til hjálpar, ef hún þarf á að halda. Og í raun og veru er okkur, sem meirihl. nefndarinnar skipum, ekki kunnugt um, að þessi hjálp, sem lögreglan þannig getur fengið, hafi ekki reynst nægilega vel hingað til. Jeg veit, að það hefir verið bent á ein þrjú atvik, sem komið hafa fyrir hjer á landi, sem eiga að sanna hið gagnstæða; en þessi atvik eru svo sjerstaks eðlis, að jeg álít, að á þeim verði ekki mikið bygt, hvað þetta snertir. Jeg skal ekki fara frekar út í það nú, en vík ef til vill að því að einhverju leyti síðar.

Ef þessi varalögregla yrði sett á stofn, þá er það ómótmælanlegt — enda játað af hæstv. dómsmálaráðherra (JM), sem hefir lagt þetta frv. fram — að hjer væri um harðræði og nokkurt ranglæti að ræða gagnvart þeim mönnum, sem í varalögregluna væru kvaddir, að einstakir menn væru teknir þannig út úr og þeim gert að skyldu að þjóna í þessari lögreglu, lögð þessi skylda á herðar fram yfir aðra borgara landsins. Það sjá allir, að það er ekki rjettlátt. Það er mikið talað um persónulegt frelsi nú á dögum, og það virðist svo sem hv. stuðningsflokkur stjórnarinnar leggi töluverða áherslu á, að ekki megi með löggjöfinni skerða það, og það er eitt með öðru talið skerðing á persónulegu frelsi, að þurfa að kaupa tóbak í landsverslun, en mega ekki kaupa það hvar sem manni sýnist. En jeg verð að segja, að það, að vera kvaddur til fastra lögreglustarfa án tillits til vilja mannsins sjálfs, það finst mjer vera miklu meiri skerðing á persónulegu frelsi heldur en nokkuð annað, sem ennþá hefir verið í lög leitt hjer á landi. Auk þessa liggur það í augum uppi, að æfingar og annað starf í lögreglusveitinni mundi eyða allmiklum tíma, og þá er mjög hætt við, að það, að vera kvaddur í lögregluna, mundi valda mjög óþægilegri truflun á atvinnu hlutaðeigenda. Jeg get hugsað mjer það, að hvaða atvinnurekendur sem væru yrðu ófúsari til að taka þá menn í þjónustu sína og gjalda þeim sæmilegt kaup, sem væru í varalögreglu og gætu átt á hættu að vera kvaddir frá störfum, er minst varði, hvernig sem á stæði fyrir vinnuveitendum. Það gæti áreiðanlega komið sjer mjög bagalega. Og jeg tel víst, að það yrði til þess, að þeir menn, sem í varalögreglu yrðu, ættu ekki sama aðgang að atvinnu yfirleitt eins og aðrir menn.

Það má líka benda á það í þessu sambandi, að skyldukvöð sem þessi kæmi áreiðanlega í bág við hugsunarhátt þjóðarinnar. Skal jeg í því sambandi aðeins minna á þegnskylduvinnuna. Hún átti að vera skylduvinna í þágu ríkisins, til þess sumpart að framkvæma ýms nauðsynleg verk og sumpart átti þegnskylduvinnan að vera einskonar uppeldismeðal ungra manna. Það orkar ekki tvímælis, að tilgangurinn með þegnskylduvinnunni, þannig skilinn, er að mörgu leyti göfugur og góður; en þetta, að leggja slíkan fjötur á einstaklinga þjóðarinnar, er svo óvanalegt hjer á landi, að þegar þegnskylduvinnan var borin undir þjóðaratkvæði. Þá var það mjög mikill meirihl. hennar, sem algerlega neitaði slíku, vildi ekkert með þegnskylduvinnu hafa.

Þá er að taka það fram, sem reyndar var talsvert vikið að við 1. umr. málsins, að varalögreglan, ef hún kæmist á, mundi kosta mikið fje. Þessu þýðir ekki neitt að neita. Fyrst og fremst mundi stofnkostnaður verða talsvert mikill, einkum ef þetta lögreglulið væri nokkuð í líkingu við það, sem frv., eins og það fyrst lá fyrir, gaf tilefni til að ætla að hún yrði. En þó brtt. hv. minnihl. yrði samþ., og þannig yrði sett á stofn lítil varalögreglusveit með 100 manns í Reykavík og 10 í hverjum hinna kaupstaðanna, samtals 160 manns, þá mundi stofnkostnaðurinn verða talsvert hár samt. Það var tekið fram við 1. umr., og því hefir ekki verið mótmælt, að einkennisbúningur lögregluþjóna Reykjavíkur kostaði um 700 kr. handa hverjum, og ef maður margfaldar það með 160, verður útkoman 112 þús. kr. Jeg skal ekki segja, hvernig þessir varalögreglumenn yrðu klæddir, en mjer finst rjett að gera ráð fyrir, að þeir yrðu klæddir eins og aðrir lögregluþjónar. Jeg sje í nál. hv. minnihl., að hann gerir ráð fyrir því, að einkennisbúningur þessara lögreglumanna mundi ekki kosta nema 45 kr. handa hverjum. En jeg skal bíða með að leggja beinlínis dóm á þetta, þangað til hv. minnihl. hefir gert grein fyrir því atriði; en það má vera skrítinn einkennisbúningur, sem ekki kostar nema einar 45 kr. Þó jafnvel væri hægt að ganga inn á, að þessi lögregla mundi ekki nota eins dýran einkennisbúning og aðrir lögregluþjónar, þá get jeg ekki skilið, að þetta nái nokkurri átt. Að minsta kosti er jeg bræddur um, að þá þyrfti oft að endurnýja þennan búning.

Þá eru tækin. Það veit enginn hvað átt er við með þessum „tækjum“, eða hvað þau myndu kosta; en eitthvað myndu þau kosta. Laun yfirmanna gerir hv. minnihl. ráð fyrir að væri ekki nema lítilfjörleg þóknun. En jeg býst við, að þótt byrjað væri þannig, myndi fljótlega þykja þörf að auka þau, og þau myndi nema töluverðri fjárhæð. Yfirleitt er nú frv. sjálft, eins og það liggur fyrir, í svo lausu lofti, hvað þetta snertir, að það er ómögulegt að gera neina áætlun um, hvað þetta myndi kosta í framkvæmd, en hitt er vitanlegt, að það myndi kosta fje, og það töluvert mikið fje, meira fje til dæmis heldur en veitt er til heilsuhælis á Norðurlandi. Og fyrir þá, sem álíta að þetta mundi verða gagnslitið, eða gagnslaust, eða til ógagns, er það skiljanlegt og afsakanlegt, þó þeir vilji ekki fórna miklu fje til annars eins.

Það er ákaflega hætt við því, að líkt færi með þessa varalögreglu eins og sumt annað, sem er sett á laggir hjer á landi, að þó byrjað sje í smáum stíl og litlu eytt fyrst, þá vill kostnaðurinn fljótt aukast. Og fljótlega mundi ýmislegt hlaðast kringum þessa stofnun; og sem sagt, það er enginn kominn til að segja það nú, hvað þetta myndi koma til með að kosta á endanum. Frv. gerir ráð fyrir, að þeir óbreyttu varalögreglumenn starfi að æfingum og lögregluþjónustu kauplaust. Jeg tel alveg óhugsandi, að slíku ranglæti yrði beitt til lengdar, að borga þessum mönnum ekki neitt, enda leggur hv. minnihl. einmitt það til, að mönnunum verði greidd ofurlítil þóknun. Og þá kemur hún til viðbótar kostnaðinum. Og eins og jeg sýndi fram á áðan, má búast fyllilega við því, að menn þessir mundu líða töluverðan skaða á atvinnu sinni, vegna þessarar kvaðar; og þá skil jeg ekki í öðru, en að þegar tímar líða, verði á það litið, svo að þessi þóknun, sem þeir fengju, mundi fara vaxandi og nema allmiklu. Mjer þætti ekki ólíklegt, þó ekki sje beinlínis hægt að staðhæfa það, að eftir nokkur ár myndi kostnaður af hverjum varalögreglumanni ekki verða undir 1000 kr. á ári. Það er í sjálfu sjer ekki mikil þóknun til manns, sem þannig er þrælbundinn við ákveðið starf, þótt hann fengi t. d. 500 kr. þóknun á ári, eða þar um bil. Og þá er hætt við, að aðrar 500 kr. á mann færu til viðhalds einkennisbúninga og tækja og til annars kostnaðar, sem leiddi af því, að halda uppi þessum flokki.

Þá skal jeg að síðustu víkja að því, sem einna mest var talað um, þegar málið var til 1. umr., sem sje, að komist varalögreglan á, þá er það alveg handvist, að hún myndi verða óvinsæl frá byrjun og ekki njóta þess trausts, sem hverri lögreglu er nauðsynlegt.

Orsakir til þessa eru þær, að margir líta svo á, að varalögregluna eigi að stofna gegn sjerstakri stjett. Jeg veit, að það ber enginn á móti því, að þannig er litið á. Þá mundi þessi stjett — verkamenn og sjómenn — sjálfsagt skoða varalögregluna sem andstæðing sinn, settan sjer til höfuðs, í staðinn fyrir að treysta henni, að hún mundi halda uppi lögum og jafnrjetti meðal borgara landsins. Jeg skal ekki neitt fullyrða um það, að þessi skilningur sje rjettur, að þetta hafi verið hugsun þeirra, er frv. fluttu. En það verð jeg samt að taka fram, að flutningur málsins var á þann veg, að hann gaf nokkurt tilefni til þessa skilnings, því þegar hæstv. dómsmálaráðherra (JM), sem var flutningsmaður málsins, var við 1. umr. að tala um verkefni varalögreglunnar, þá virtist það sjerstaklega eiga að vera það, að henni ætti að beita gegn samtökum ákveðinnar stjettar í landinu. Af því að málið er af mörgum skilið á þessa leið, þá gæti nú svo farið — og það vildi jeg gjarnan biðja fylgjendur þessa máls að athuga — að af því leiddi einmitt það gagnstæða við það, sem þeir ætla sjer að ná. Þeir ætla sjer án efa að skapa öryggi í þjóðfjelaginu og frið; en það gæti svo farið, að einmitt af því leiddi óeirð og ófrið. Jeg er þó ekki að spá neinu í þessa átt. En jeg býst við því, eftir því, hvernig málið er flutt, og eftir þeim dómum, sem það hefir fengið, að alþýða manna mundi alls ekki treysta varalögreglunni til þess að gera rjett. Það mætti náttúrlega svo fara, og er vonandi, að svo yrði, ef varalögreglan kæmist á, að hún með tíð og tíma gæti áunnið sjer álit. En í byrjun mun hún áreiðanlega ekki njóta trausts almennings.

Það hefir beinlínis komið fram, að ætlunin með því, að setja varalögreglu á stofn, væri sú, að bæla niður — eins og það er orðað — óeirðir út af kaupgjaldsdeilum. En — kaupgjaldsdeilur eru nú án efa einkamál þeirra, sem deila. Því skal ekki neitað, að óeirðir geta orðið út af þeim deilum, eins og öðrum deilum, sem þjóðfjelagið þarf að láta til sín taka á einhvern hátt, en það mun mega fullyrða, enda reynsla allra annara þjóða, sem lengra eru komnar áleiðis, að það þarf að fara mjög varlega í þeim málum. Og það er eins og fornkveðið er: Sjaldan veldur einn, þá tveir deila, og því enganvegin víst, að rjetturinn sje altaf öðrumegin. Og jeg hygg, að skynsamlegra væri og í alla staði heilladrýgra að reyna að finna einhver ráð, sem gætu fyrirbygt slíkar deilur, heldur en að búa til svipu, til að berja þær niður með illu. Það getur ekki gefist vel til lengdar. Í þessu sambandi vil jeg minna hv. þdm. á, að nú liggur einmitt fyrir þinginu frv., sem allar líkur er til að geti komið að mun betri notum í þessu efni en varalögregla.

Niðurstaða meirihl. er því sú, að varalögreglu þurfi alls ekki með undir vanalegum kringumstæðum, enda er það játað af þeim, sem annars eru frv. fylgjandi; að varalögreglan verði langtum of dýr í samanburði við það gagn, sem af henni getur hlotist; að þeir menn verði bersýnilega ranglæti beittir, sem verða kvaddir í væntanlegt varalögreglulið.

Það er útilokað, að þessi varalögregla verði kvödd til aðstoðar, nema í alveg sjerstökum tilfellum, nefnil. þeim, að margir menn bindist samtökum gegn lögum og rjetti í landinu, eða m. ö. o. geri uppreisn. En jeg tel, satt að segja, ákaflega ólíklegt, að íslensk alþýða geri uppreisn í náinni framtíð, og því óþarft fyrir ríkisvaldið að búast til varnar gegn slíkum ímynduðum byltingum. En ef til þess kæmi einhverntíma, sem vonandi verður þó aldrei, að uppreisn brytist út, þá er jeg hræddur um, að þessi varalögregla, einkum „litla varalögreglan“, sem hv. minnihl. vill stofna, muni reynast alveg gagnslaus til að bæla niður uppreisn.

Jeg skal ekki fara langt út í sagnfræði, en þó get jeg ekki gengið fram hjá því, að sagan sýnir, að uppreisnir geta alveg eins og miklu fremur brotist út í löndum, þar sem hervaldið er ríkt. Yfirleitt man jeg ekki til, að getið sje um alvarlegar uppreisnir annarsstaðar en þar, sem hervaldið hefir verið öflugt, en þó hefir sú raunin oft orðið á, að uppreisnarmennirnir hafa yfirbugað ríkisherinn, svo ekki er hann alveg einhlýtur. Jeg gæti best trúað því, að þar sem ekkert hervald er til, eins og t. d. hjer, sje alveg trygt, að eingin uppreisn verði.

Þó að jeg hafi nefnt hjer hervald og her í sambandi við varalögregluna fyrirhuguðu, þá ætla jeg ekki að „kalla“ hana her, því það lætur illa í eyrum. En það, sem gefur tilefni til að líkja henni við her, er, að bæði í aths. stjórnar við frv. og í nál. hv. minnihl. er beinlínis tekið fram, að hún eigi að koma í stað hervalds annara þjóða. Þar er þess getið, að annarsstaðar sje til vald, sem sje sterkara en lögregluvaldið, en þetta vald vanti hjer á landi, en úr því eigi þetta frv. að bæta. Þessvegna er varalögreglunni ætlað að hafa samskonar þýðingu í okkar þjóðlífi sem herinn hefir hjá öðrum þjóðum.

Um brtt. hv. minnihl. á þskj. 363 ætla jeg ekki að tala nú, að öðru leyti en því, sem jeg hefi vikið að þeim í sambandi við málið í heild. Ætla jeg að geyma mjer frekari aths. við þær, þangað til hv. frsm. minnihl. hefir talað fyrir þeim. Þó skal jeg þegar játa, að brtt. eru virðingarverðar að því leyti sem þær miða að því, að draga úr því ranglæti, sem þeir menn yrðu fyrir, sem í þessar sveitir yrðu teknir, þar sem brtt. gera bæði ráð fyrir því, að takmarka þjónustutímann, og eins, að mennirnir fái þóknun fyrir starf sitt. En þrátt fyrir það lítur meirihl. svo á, að grundvöllur frv. sje rangur, og þessvegna sje ekki hægt að byggja á honum trausta byggingu, sem þjóðinni mætti að gagni verða. Getur meirihl. því ekki ráðið hv. deild annað en að fella frv., þrátt fyrir viðleitni hv. minnihl. til að bæta það.

Að svo mæltu get jeg lokið máli mínu að sinni.